Ármann Höskuldsson eldfjallafræðingur segir eldgosið sem hófst í Sundhnúkagígaröðinni í gærkvöldi vera nokkuð hefðbundið en þó í minni kantinum, enda hafi land risið minna en áður.
Ármann Höskuldsson eldfjallafræðingur segir eldgosið sem hófst í Sundhnúkagígaröðinni í gærkvöldi vera nokkuð hefðbundið en þó í minni kantinum, enda hafi land risið minna en áður.
Ármann Höskuldsson eldfjallafræðingur segir eldgosið sem hófst í Sundhnúkagígaröðinni í gærkvöldi vera nokkuð hefðbundið en þó í minni kantinum, enda hafi land risið minna en áður.
Hann segir gossprunguna vera á hefðbundnum stað og megin uppkomuna virðast vera á milli Stóra-Skógfells og Sýlingarfells.
„Svo breytist landið með hverju gosinu. Nú vill svo til að það fer svolítið mikið til vesturs þannig að það var nokkuð ljóst að í upphafi að Grindavíkurvegur færi undir og svo er þetta spurning með Njarðvíkuræðina,“ segir Ármann, spurður út í eldgosið.
Kom þessi stutti fyrirvari eldgossins þér á óvart?
„Í sjálfu sér ekki. Það var eitthvað að gerast því að þessar kúrfur…þessir GPS-mælar voru orðnir flatir þannig að það var eitthvað í gangi. Við erum í miðri hrinu og þá er ekki alltaf sem þetta hagar sér eins og maður hefði viljað,“ svarar hann.
Ármann nefnir að eldgosið hafi verið fljótt að ganga niður í nótt og býst ekki við að það verði sérlega langvinnt. Miðað hvernig þróunin hefur verið núna ætti það varla að standa yfir í margar vikur.
Eldgosið sem hófst í gærkvöldi er það sjötta á þessu ári í Sundhnúkagígaröðinni og það sjöunda síðan í desember í fyrra. Spurður hvort hann hefði trúað því fyrir fram að svona mörg gos yrðu á svona skömmum tíma, svarar hann því játandi.
Hann segir gliðnunarhrinu vera í gangi og bendir í því samhengi á Kröfluelda og sams konar hrinu sem gekk yfir Öskjukerfið árið 1875 þegar tíu eldgos urðu á innan við ári. Þessi mörgu eldgos í Sundhnúkagígaröðinni komi því ekki á óvart því jarðskorpan sé að rifna í sundur og aðstæðurnar hagstæðar fyrir kvikuna til að leita upp á yfirborðið.
Heldurðu að það verði álíka mörg eldgos þarna á næsta ári?
„Ég trúi því að þessu fari að ljúka þarna og þetta fari að færa sig inn í Eldvörp. Ég er að bíða eftir því að það farið að rifna þeim megin frá,“ svarar Ármann, sem útilokar þó ekki að fleiri eldgos gætu orðið í Sundhnúkagígaröðinni.