Forsvarsmenn Keflavíkurflugvallar ítreka í myndskeiði að öruggt sé að koma til landsins.
Forsvarsmenn Keflavíkurflugvallar ítreka í myndskeiði að öruggt sé að koma til landsins.
Forsvarsmenn Keflavíkurflugvallar ítreka í myndskeiði að öruggt sé að koma til landsins.
Drónamyndskeið af eldgosinu á Facebook-reikningi flugvallarins segir „Ísland er öruggt“ stórum stöfum og fullvissar ferðamenn um að eldgosið hafi ekki áhrif á starfsemi flugvallarins.
Vel sé fylgst með framvindu mála og að lífið haldi áfram á flugvellinum sem og á landinu öllu.
Þá hafa þeir einnig verið duglegir að birta myndefni af gosinu og gosbjarmanum yfir Leifsstöð.
Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia, segir forsvarsmennina fyrst og fremst hafa samband við erlendu flugfélögin með helstu upplýsingar fyrir farþega. Þeir birti þó einnig upplýsingar á eigin miðlum til að fullvissa fólk um að þar sé öruggt.
„Eins og hefur verið í þessum gosum sem hafa verið síðustu misseri hefur þetta ekki haft nein áhrif á starfsemina okkar, flug er samkvæmt áætlun og við erum „operation normal“ eins og það heitir.“
„Ég hugsa að erlendum ferðamönnum og ferðafólki finnist áhugavert að fylgjast með þessu, en mig grunar að þetta fari nú ekki framhjá þeim sem eru á leiðinni út á völl.“
Aðspurð segir forstöðumaður samskipta- og markaðssviðs flugfélaginu Play einungis hafa borist örfáar fyrirspurnir í tengslum við gosið.
„Þeir örfáu sem hafa haft samband eru bara að spyrja hvort flugið verði á áætlun,“ segir Nadine Guðrún Yaghi.
Svo virðist sem ferðamenn séu orðnir meðvitaðir um að eldgos kunni að fylgja ferðapakkanum til landsins og treysti á að flugfélögin veiti hraðar og öruggar upplýsingar um framvindu mála.
Guðni Sigurðsson, upplýsingafulltrúi Icelandair hefur sömu sögu að segja og kveðst ekki vita til þess að farþegar hafi hringt inn til að lýsa áhyggjum.
„Þetta er bara eins og venjulegur dagur hjá okkur.“
Fréttin hefur verið uppfærð.