Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur segir að ástæða sé til að ætla að við séum komin á seinni hluta yfirstandandi eldgosahrinu í Sundhnúkagíaröðinni þegar tekið er tillit til jarðsögunnar.
Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur segir að ástæða sé til að ætla að við séum komin á seinni hluta yfirstandandi eldgosahrinu í Sundhnúkagíaröðinni þegar tekið er tillit til jarðsögunnar.
Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur segir að ástæða sé til að ætla að við séum komin á seinni hluta yfirstandandi eldgosahrinu í Sundhnúkagíaröðinni þegar tekið er tillit til jarðsögunnar.
Besta mögulega sviðsmyndin er sú að yfirstandandi gos sé hið síðasta í goshrinunni sem stendur nú yfir.
Hann segir þó alltaf þurfa að setja fyrirvara á slíka spádóma þar sem það eina sem menn hafi til að meta hlutina séu eldgoshrinur fyrri tíma.
„Sagan segir okkur að þegar þetta gos er búið þá sé komin upp álíka mikil kvika og í fyrsta fasa Reykjaneseldanna í kringum árið 800. Ef þetta fylgir meðaltalinu þá er þetta álíka mikil kvika og hefur nú þegar komið upp á síðustu þremur árum,“ segir Magnús Tumi.
Hann segir þó að eitt til tvö gos til viðbótar myndu þó ekki koma á óvart og gæti kvikumagnið þar rúmast innan slíks meðaltals.
„Versta sviðsmyndin er sú sem varð í Heiðmerkureldunum. Þá gæti þetta haldið áfram í tvö til þrjú ár í viðbót með sama krafti,“ segir Magnús Tumi.
Nú stendur yfir sjöunda eldgosið á ellefu mánuðum.
„Ef miðað er við söguna mætti reikna með engum gosum í 100-150 ár eftir þessa hrinu. Þannig hefur Reykjanesskaginn hegðað sér. Ef það gerist ekki þá myndi skaginn skila kviku upp á yfirborðið á 10-15 árum sem hann hefur alla jafna gert á nokkrum öldum. Það er mjög ólíklegt. Við höfum engin dæmi um það í jarðsögunni,“ segir Magnús Tumi.
Því sé ekki raunhæft að núverandi ástand muni vara í áratugi og aldir. „Það er líklegast ef miðað er við söguna að bráðlega komi langt hlé. Ég er ekki að slá neinu föstu því náttúran fer sínu fram en sagan segir okkur þá sögu,“ segir Magnús Tumi.
Spurður um innviði þá segir Magnús að væntingar séu til þess að Njarðvíkuræðin muni standa yfirstandandi gos af sér því búið sé að grafa hana og verja.
„Það er ólíklegt að hún verði fyrir hnjaski líkt og í febrúar. Það er líklegt að það verði í lagi,“ segir Magnús Tumi.
Meginbílastæðið við Bláa lónið er nær alfarið farið undir hraun. Magnús telur þó allar líkur á því að varnargarðar við Bláa lónið og Svartsengi muni halda.
„Þessi gos eru yfirleitt öflugust í upphafi. Þó að gosið núna sé minna en hið síðasta þá eru þeir engu að síður 100-200 sinnum stærra en atburðurinn í Fagradalsfjalli. Gosið er að minnka núna og ef það stoppar og hegðar sér eins og hin gosin, þá er ólíklegt að hraunið fari mikið lengra heldur fari að bunkast upp við gígana.“