Lítið þokaðist í kjaradeilu kennara, ríkis og sveitarfélaga á fundi samninganefndanna í dag, sem lauk á sjötta tímanum.
Lítið þokaðist í kjaradeilu kennara, ríkis og sveitarfélaga á fundi samninganefndanna í dag, sem lauk á sjötta tímanum.
Lítið þokaðist í kjaradeilu kennara, ríkis og sveitarfélaga á fundi samninganefndanna í dag, sem lauk á sjötta tímanum.
Ástráður Haraldsson ríkissáttasemjari segir ekki margt hafa gerst á fundinum, en að planið sem lagt var upp með í gær haldi þó enn.
„Það væru mjög miklar ýkjur að segja að það hafi skotgengið því það gerðist náttúrulega ekkert óskaplega margt. En það er allavega þannig að við erum ennþá með plan sem hefur ekki verið breytt og við höldum áfram að feta okkur eftir þeim vegi. En sá vegur er bæði háll og myrkur,“ segir Ástráður í samtali við mbl.is.
Í gær varð verulegur framgangur í viðræðunum þegar deiluaðilar náðu að koma sér saman um viðræðugrundvöll, sem var lykilatriði svo samtalið gæti hafist fyrir alvöru.
Þá hafði ekkert þokast í viðræðunum frá því að formlegir samningafundir hófust að nýju á þriðjudag, eftir sautján daga hlé.
Þá óskaði ríkissáttasemjari eftir því við deiluaðila í gær, að þeir tjáðu sig ekki við fjölmiðla.
En hvað var það sem gerðist í gær sem varð til þess að einhver framgangur átti sér stað?
„Það sem gerðist í gær var einfaldlega það að við sammæltumst um ákveðið verkplan. Þar sem við náðum að fóta okkur á því hvernig við gætum strúktúrað okkar samræður, um hvað þær ættu að fjalla og hvað ætti að afráða. Svo lögðum við að stað í þá vegferð með mikilli varfærni í dag.“
Verkfallsaðgerðir kennara hafa staðið yfir frá 29. október. Á föstudag lauk verkföllum í þremur grunnskólum en á morgun hefjast verkföll í þremur öðrum. Þá hafa verið boðaðar verkfallsaðgerðir í tíu leikskólum þann 10. desember næstkomandi og í fjórum grunnskólum þann 6. janúar.
Alls hafa verið boðaðar verkfallsaðgerðir í 27 skólum. Verkföll í grunn-, framhalds- og tónlistarskólum eru tímabundin, en ótímabundin í leikskólum.