„Það er rosaleg ásókn í land og ekkert endilega til að stunda landbúnað,“ segir Steinþór Logi Arnarsson, formaður Samtaka ungra bænda.
„Það er rosaleg ásókn í land og ekkert endilega til að stunda landbúnað,“ segir Steinþór Logi Arnarsson, formaður Samtaka ungra bænda.
„Það er rosaleg ásókn í land og ekkert endilega til að stunda landbúnað,“ segir Steinþór Logi Arnarsson, formaður Samtaka ungra bænda.
Hann segir fjársterk öfl og fyrirtæki í sífellt meira mæli ásælast jarðir og dæmi séu um að bankað sé upp á hjá bændum, jafnvel árlega með boð um að kaupa jarðir þeirra. Þeir sem falast eftir landi eru einnig erlendir aðilar.
Steinþór er gestur Dagamála í dag og aukin ásókn í að kaupa jarðnæði bar þar á góma. Hann segir að þessi þróun hafi áður að mestu verið bundin við jarðir þar sem laxveiðihlunnindi hafi verið það sem þótti eftirsóknaverðast. Nú sé þessi ásókn komin út fyrir það og hann segir margt koma til. Fyrirtæki horfi til þess að þurfa að kolefnisjafna sig.
„Það er náttúrulega bara svaka „bisness“ og þar er farið um og plantað og plantað skógi. Skógrækt er landbúnaður og við verðum líka að hugsa. Hverjir eiga að stunda þetta? Við bændur viljum gjarnan vera þeir aðilar sem þekkjum landið og einnig fyrir komandi kynslóðir. Komandi kynslóðir bænda. Auðvitað eru mikil tækifæri í skógrækt sem er landbúnaður. Við viljum gjarnan vera þeir aðilar sem halda utan um þetta,“ upplýsir Steinþór í Dagmálum.
Hann viðurkennir að það hljóti að vera erfitt að standast tilboð í jarðir þar sem boðnar eru háar fjárhæðir gegn því að fólk bregði búi. Það þurfi hugsjónafólk til að standast slík boð og í þeim hópi séu margir bændur sem ekki geti hugsað sér að búskapur sem þeir hafi byggt upp til langs tíma leggist af.
Það er ekki bara skógræktin sem er drifkraftur aukins áhuga á að kaupa jarðir eða land. Hann nefnir einnig vatnið og þá ekki eingöngu með virkjunarkosti í huga þó að slík áform séu þekkt. Vatn sé auðlind og víða þverrandi í heiminum. „Þetta helst svolítið í hendur við þessa þróun og þessa bylgju sem er í kringum loftslagsmálin, sem eru mál sem við þurfum að taka á. En það er spurning um hvort að þetta sé skynsamleg þróun að þetta verði svona rosalega markaðsdrifið og taki landið úr höndunum á okkur?“ spyr Steinþór.
Hann segir að vissulega sé land alltaf góð fjárfesting og það hafi alltaf verið gott að fjárfesta í landi. Það fari ekki neitt og gefi alltaf af sér. „Það er undirstaða alls að eiga land. Þess vegna er þetta líka undirstaða sjálfstæðis okkar,“ segir þessi ungi sauðfjárbóndi sem líklegast er einn sá yngsti sem rekur í dag, ásamt konu sinni sauðfjárbú með sex hundruð kindur á húsi í vetur.
Viðtalsbrotið sem fylgir fréttinni er hluti af umræðunni um mikilvægi þess að eiga landið og framtíðarsýn bænda. Viðtalið í heild sinni þar sem farið er vítt og breitt um hagsmuni bænda er aðgengilegt fyrir áskrifendur Morgunblaðsins.