Óvenjuleg og aukin virkni á Geysissvæðinu hefur valdið því að vatnsgusur, sem nú koma í auknum mæli upp úr fjölda hvera, berast á göngustíga og út á þjóðveginn þar sem það frýs.
Óvenjuleg og aukin virkni á Geysissvæðinu hefur valdið því að vatnsgusur, sem nú koma í auknum mæli upp úr fjölda hvera, berast á göngustíga og út á þjóðveginn þar sem það frýs.
Óvenjuleg og aukin virkni á Geysissvæðinu hefur valdið því að vatnsgusur, sem nú koma í auknum mæli upp úr fjölda hvera, berast á göngustíga og út á þjóðveginn þar sem það frýs.
Skapar þetta mikla hættu fyrir gesti sem eru hvattir til að nota brodda.
„Það eru flest allir meðvitaðir um þetta,“ segir Dagur Jónsson, landvörður í Haukadal, um hálkuna. „Við erum með aðvörunarskilti um að nota brodda og við erum búnir að loka smá svæði af vegna klaka vegna þess að úðinn [úr hverunum] fór yfir það um helgina. Klakinn var ekki bara sleipur, hann var miklu sleipari en venjulega,“ heldur hann áfram.
„Það eru að koma um þrjú þúsund manns á dag til okkar og það er ekki hægt að hafa klaka úti um allt. Það er gríðarleg slysahætta af þessu,“ bætir Dagur við og segir allt vera frosið núna og klaka allsstaðar.
Í síðasta mánuði bárust fregnir um óvenjulega og aukna virkni í hverunum á svæðinu. Talið er líklegt að heitavatnsæð sem fæðir hverina sé farin að leka og hún valdi þessum breytingum, bendir Dagur á.
Hann segir óljóst hvaðan nákvæmlega umræddar vatnsgusur komi en þær berist vissulega úr hverunum.
Dagur nefnir að Vegagerðin hafi í morgun reynt að hreinsa upp úr læk fyrir utan hverasvæðið þar sem laust efni frá svæðinu hefur safnast þar saman og stíflað lækinn með þeim afleiðingum að vatn hefur flætt yfir þjóðveginn, eins og sjá má í meðfylgjandi myndskeiði sem var tekið snemma í morgun. Þar kemur fjöldi ferðamanna jafnan askvaðandi á bílum sínum, en vegna klakans sem myndast þarf fólkið að hemla snarlega.
„Svo erum við að reyna að gera þetta innan svæðisins með handskóflum og lítilli gröfu,“ greinir hann frá og á við vatnið sem flæðir á stígana þar.
Hann nefnir að starfsmenn sjái ekki þegar vatnsgusurnar fara í lækinn, heldur eingöngu þegar það hækkar í honum.
Dagur segir að vegna þessarar auknu virkni á svæðinu gjósi Strokkur í kringum fimm til níu sinnum á mínutu með einhverju millibili.
Áður en virknin jókst gaus hann einu sinni á átta til tólf mínútna fresti.
Ferðamenn slasa sig reglulega á Geysissvæðinu, meðal annars þegar hálka er. Allt árið um kring verða þarna í kringum 40 til 50 beinbrot, auk þess sem fólk fær höfuðáverka eftir að hafa runnið í hálku, segir Dagur.
Þrjár vikur eru liðnar síðan karlmaður á áttræðisaldri mjaðmagrindarbrotnaði á svæðinu en það óhapp gerðist ekki í hálku.