Bláa lónið lokað fram yfir helgi

Eldvirkni á Reykjanesskaga | 29. nóvember 2024

Bláa lónið lokað fram yfir helgi

Lögreglan á Suðurnesjum mun funda með Bláa lóninu seinnipartinn á mánudaginn og fara yfir stöðu mála í tengslum við eldgosið í Sundhnúkagígum.

Bláa lónið lokað fram yfir helgi

Eldvirkni á Reykjanesskaga | 29. nóvember 2024

Bláa lónið og Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum.
Bláa lónið og Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum. Samsett mynd/mbl.is/Eggert/mbl.is/Óttar.

Lögreglan á Suðurnesjum mun funda með Bláa lóninu seinnipartinn á mánudaginn og fara yfir stöðu mála í tengslum við eldgosið í Sundhnúkagígum.

Lögreglan á Suðurnesjum mun funda með Bláa lóninu seinnipartinn á mánudaginn og fara yfir stöðu mála í tengslum við eldgosið í Sundhnúkagígum.

„Menn eru að velta fyrir sér möguleikum hvað starfsemina varðar,“ segir Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, aðspurður.

Ljóst er að þessi vinsæli ferðamannastaður verður því lokaður fram yfir helgi. Um síðustu helgi framlengdi lónið lokun staðarins þangað til í dag.

Fyrr í vikunni sagðist framkvæmdastjóri hjá Bláa lóninu reikna með því að safnstæði fyrir rútur yrði staðsett skammt frá lóninu þegar það verður opnað. Bláa lónið hefur áður gripið til svipaðra ráða þegar opnað hefur verið eftir eldsumbrot. Sú breyting sem hefur þó orðið er að um 350 bílastæði við Bláa lónið eru komin undir hraun, ásamt rútustæðum.

Hvorki tangur né tetur er eftir af bílastæði við Bláa …
Hvorki tangur né tetur er eftir af bílastæði við Bláa lónið. Samsett mynd/mbl.is/Eggert

Rafmagn líklega á Svartsengislínu í dag

Úlfar kveðst jafnframt gera ráð fyrir því að rafmagn verði komið á Svartsengislínu í dag, samkvæmt upplýsingum sem lögreglan hefur fengið frá Landsneti. Starfsmenn Landsnets hafa staðið í ströngu síðustu daga við að koma upp nýju rafmagnsmastri innan varnargarðsins við Svartsengi. Það verkefni á að klárast í dag, segir Úlfar. 

Áfram er opið í inn í Grindavík í gegnum Nesveg og Suðurstrandarveg. Enginn má þó fara inn í Svartsengi nema að eiga þangað erindi. Þar er mikil umferð þungavinnuvéla þar sem unnið er við hækkun varnargarða, segir Úlfar, sem gerir þó ekki ráð fyrir því að unnið verði þar á morgun eða hinn.

Gist var í 43 húsum í Grindavík í nótt.

Verktakar vinna nú að því að breikka og hækka varnargarða …
Verktakar vinna nú að því að breikka og hækka varnargarða við orkuverið í Svartsengi. mbl.is/Hákon

Yfir 100 manns að störfum hjá Vísi

Sjávarútvegsfyrirtækið Vísir er með svo til fulla starfsemi í bænum. Þar hafa verið rúmlega 100 manns að störfum á hverjum degi. Vinna liggur þar niður yfir helgina en í vikunni var landað úr tveimur togurum.

Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum.
Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Úlfar segir starf viðbragðsaðila vera tiltölulega rólegt í augnablikinu í tengslum við eldgosið. Áfram gýs úr einum gíg og virðist eldgosið vera stöðugt. „Það er í sjálfu sér ekki mikill vandræðagangur í kringum það,“ segir Úlfar, sem bætir við að fáir ferðamenn hafi komið til Grindavíkur síðustu daga.

Eldgosið í Sundhnúkagígum.
Eldgosið í Sundhnúkagígum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við erum ekkert að eltast við fólk sem labbar í átt að eldgosinu fyrir utan lokunarpósta en þetta hefur ekki verið vandamál,“ segir hann, spurður út í ferðamennina. 

mbl.is