Hætta á að Vesturlöndin kaupi sig frá aðgerðum gegn losun

Umhverfisvitund | 29. nóvember 2024

Hætta á að Vesturlöndin kaupi sig frá aðgerðum gegn losun

„Þetta er verkefni sem er búið að vera frosið í allnokkur ár.“

Hætta á að Vesturlöndin kaupi sig frá aðgerðum gegn losun

Umhverfisvitund | 29. nóvember 2024

Samkvæmt ETS-viðskiptakerfi Evr­ópu­sam­bands­ins með losunarheimildir geta lönd sem eiga erfiðara …
Samkvæmt ETS-viðskiptakerfi Evr­ópu­sam­bands­ins með losunarheimildir geta lönd sem eiga erfiðara með að minnka sína losun keypt sér fleiri einingar frá löndum sem losa minna. mbl.is/Árni Sæberg

„Þetta er verkefni sem er búið að vera frosið í allnokkur ár.“

„Þetta er verkefni sem er búið að vera frosið í allnokkur ár.“

Þetta segir Elva Rakel Jónsdóttir, framkvæmdastjóri hjá Festu, miðstöð um sjálfbærni, um sjöttu grein Parísarsamningsins en talsverður árangur náðist í viðræðum um greinina að hennar sögn á COP29-ráðstefnunni sem fór fram í Aserbaísjan í mánuðinum.

Er þar á meðal kveðið á um hvernig viðskipti á kolefniseiningum geti farið fram, annars vegar milli þjóða og hins vegar á hinum valfrjálsa kolefnismarkaði.

Helstu áskoranirnar séu hvernig megi færa slíkt inn í bókunarkerfi til þess að tryggja að losunareiningarnar séu taldar rétt fram og forðast misnotkun eins og tvöfalda skráningu losunarheimilda og óraunhæfa útreikninga á samdrætti í losun.

Elva Rakel Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Festu - miðstöðvar um sjálfbærni.
Elva Rakel Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Festu - miðstöðvar um sjálfbærni.

Fækkar og aukast í verði á hverju ári

Samkvæmt ETS-viðskiptakerfi Evr­ópu­sam­bands­ins með losunarheimildir geta lönd sem eiga erfiðara með að minnka sína losun keypt sér fleiri einingar frá löndum sem losa minna.

Það land fær þá að telja þær losunarheimildir fram til að auka við sínar eigin en seljandinn minnkar þá eigin losunarheimildir

Elva segir það þó ekki þannig að það sé hægt að viðhafa slík kaup endalaust heldur hækki verðið á losunareiningum á ári hverju samhliða því sem þeim fækkar.

„Þar er fjárhagslegi hvatinn til að fjárfesta í tæknilausnum til að draga úr eigin losun.“

Allir sammála um fjárhagslega hvata

Annað ágreiningsefni eru áhyggjur af því að viðskiptin gætu grafið undan markmiðum samkomulagsins og að með því að treysta of mikið á markaðstengdar lausnir og fjárhagslega hvata gætu lönd keypt sig frá niðurskurði á losun.

„Þetta hefur alltaf verið mikið gagnrýnt því það er alltaf áhætta í svona viðskiptum að það verði ákveðin nýlendustefna. Að rík Vesturlönd sem vilja ekki draga úr eða breyta sínum neysluháttum eða samfélagsmynd að einhverju ráði kaupi einingar frá löndum sem eiga fleiri „lágt hangandi ávexti“ í kringum sig,“ segir Elva.

„En það eru samt allir sammála um að það þurfi að vera hægt að virkja alla þessa krafta sem þarf til þess að virkja samfélagið okkar með því að nota fjárhagslegan hvata.“

Elva segir langflest fyrirtæki alls ekki líta á losunarheimildir sem …
Elva segir langflest fyrirtæki alls ekki líta á losunarheimildir sem einhverja lausn, heldur leggi þau áherslu á að reyna að draga úr eigin losun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Áhyggjuefni að fyrirtæki versli kolefniseiningar?

Hún segir ETS-kerfið í heild sinni vera að draga saman losun og því fullyrði sérfræðingar að kolefniseiningar virki svo lengi sem ramminn sé skýr.

„Sem hann er í ETS en alls ekki í kringum valfrjálsu einingarnar.“

Í sambandi við viðskipti losunareininga á hinum valfrjálsa markaði eru ýmsar útfærslur sem koma til greina og helst séu það fyrirtæki sem enn hafi takmarkaðar leiðir til að draga úr eigin losun sem sækist í staðinn í að kaupa kolefniseiningar af öðrum fyrirtækjum.

Er það samt ekki áhyggjuefni þegar fyrirtæki eru komin út í viðskipti á kolefniseiningum í staðinn fyrir að beita sér gegn eigin losun?

„Það hefur verið gagnrýni á þennan part að hætta sé til staðar að fyrirtæki fari að markaðssetja sig eða segja frá sínum árangri með þeim hætti eins og þau séu að nálgast kolefnishlutleysi þegar þeirra vegferð hefur kannski ekki breyst neitt rosalega mikið, nema að þau eru farin að kaupa fleiri kolefniseiningar.“

Flest fyrirtæki líti ekki á viðskiptin sem lausn

En dregur það ekki líka úr hvata til að finna grænni lausnir á eigin iðju?

„Jú og fjármunir eru kannski frekar settir í þetta en nýsköpun. Þannig að þetta er akkúrat gagnrýnin á hluta valfrjálsa markaðarins,“ svarar Elva.

Á móti komi að evrópsk fyrirtæki muni brátt þurfa að veita sjálfbærniskýrslur samkvæmt CSRD-regluverki ESB og því verði lítið hægt að fela um eigin losun og hvernig sjálfbærni sé háttað innan fyrirtækja.

„Þannig að það sem ég heyri í gegnum Festu er að langflest fyrirtæki líta alls ekki á þetta sem einhverja lausn, heldur eru þau með fókusinn á að reyna að draga úr eigin losun.“

mbl.is