„Óafsakanlegt“ að börnin sitji enn heima

Kjaraviðræður | 29. nóvember 2024

„Óafsakanlegt“ að börnin sitji enn heima

„Miðað við hvernig þetta lítur út í fjölmiðlum, maður situr auðvitað ekki við samningaborðið sjálfur, en að börnin okkar hafi setið heima í fjórar vikur án þess að í rauninni neitt hafi gerst á þeim tíma. Það er óafsakanlegt finnst mér og við viljum fá skýringar á þessu.“

„Óafsakanlegt“ að börnin sitji enn heima

Kjaraviðræður | 29. nóvember 2024

Jóhanna segir marga foreldra komna í mjög erfiða stöðu vegna …
Jóhanna segir marga foreldra komna í mjög erfiða stöðu vegna verkfalla kennara. Samsett mynd/Aðsend/Eggert

„Miðað við hvernig þetta lítur út í fjölmiðlum, maður situr auðvitað ekki við samningaborðið sjálfur, en að börnin okkar hafi setið heima í fjórar vikur án þess að í rauninni neitt hafi gerst á þeim tíma. Það er óafsakanlegt finnst mér og við viljum fá skýringar á þessu.“

„Miðað við hvernig þetta lítur út í fjölmiðlum, maður situr auðvitað ekki við samningaborðið sjálfur, en að börnin okkar hafi setið heima í fjórar vikur án þess að í rauninni neitt hafi gerst á þeim tíma. Það er óafsakanlegt finnst mér og við viljum fá skýringar á þessu.“

Þetta segir Jóhanna Dröfn Stefánsdóttir, móðir barns á leikskóla þar sem kennarar hafa verið í verkfalli í fjórar vikur. Verkföll leikskólakennara eru ótímabundin, ólíkt verkföllum kennara á öðrum skólastigum, sem eru tímabundin.

Jóhanna hefur skrifað nokkrar greinar sem birst hafa á Vísi.is þar sem hún lýsir erfiðri stöðu sem margir foreldrar eru í vegna verkfallanna. Í þeirri nýjustu kom fram að hún vissi um að minnsta kosti þrjú sem hefðu misst vinnuna á þessum tíma, af því þau hefðu ekki getað mætt til vinnu. Þar fyrir utan hefðu margir klárað sumarfrísdagana og sæju fram á að fá töluvert minna útborgað rétt fyrir jól. Fyrir utan neikvæðu áhrifin á börnin sem mörg hver sitja fyrir framan tölvu eða sjónvarp upp í átta tíma á dag, á meðan foreldrarnir vinna. 

„Þetta hefur aukist síðustu vikurnar að fólk er að lenda í meiri og meiri vandræðum og þetta hefur komið upp í samtölum við aðra foreldra.“

Fólk aðallega ósátt við óvissuna

Jóhanna segir foreldra með börn á leikskólum þar sem kennarar eru í verkföllum tala mikið saman sín á milli og bera saman bækur sínar.

„Mér fannst svo mikilvægt að fólk sæi hve alvarleg staðan væri orðin. Ég held að flestir átti sig ekki á því,“ segir Jóhanna.

Vísar hún þar til þess að fáir skólar taka þátt í verkföllum og því veki þau litla athygli, nema hjá þeim sem málið varðar. Kennarar í fjórum leikskólum hafa verið í ótímabundnum verkföllum frá því 29. október og hafa foreldrar ítrekað biðlað til Kennarasambands Íslands að breyta um aðferðafræði, þannig að verkföll yrðu tímabundin og skólum róterað.

„Það er svo ótrúlega vont að vita ekkert hvenær þetta tekur enda og við hverju á að búast. Ef maður fengi einhverja lokadagsetningu þá myndi maður kannski reyna að láta þetta ganga þangað til. Ég held að það sé það sem fólk sé mest ósátt við, það er þessi óvissa,“ segir Jóhanna.

„Það sem við höfum viljað undirstrika er að við erum alfarið á móti þessari aðferðafræði, en kjarabarátta kennara og það að þeir vilji semja um betri kjör, það er allt annað mál,“ bætir hún við.

Fjöldi barna í mjög viðkvæmri stöðu

Jóhanna bendir á að í leikskóla dóttur hennar sé um þriðjungur barnanna af erlendum uppruna og ástandið hafi sérlega slæm áhrif á þau sem hafi verið að læra íslensku í leikskólanum.

Þá sé staða foreldra þeirra hvað verst, enda hafi margir ekkert bakland.

„Þau eru mjög illa upplýst, það talar enginn við þau. Þau eru mörg í mun viðkvæmari stöðu en við hin fyrir. Ég hef gríðarlegar áhyggjur af þessum börnum.“

Jóhanna segist einnig hafa áhyggjur af fötluðum börnum sem fá ekki undanþágu.

„Maður heyrir frá þeim fjölskyldum að ástandið á heimilinu sé orðið verulega slæmt.“

Sjálf segist Jóhanna vera í betri stöðu en margir aðrir, en það sé samt mikið púsluspil að láta hlutina ganga upp og skipuleggja dagana þannig hún geti bæði sinnt vinnunni og dóttur sinni.

„Hún býr á tveimur heimilum, hjá mér og pabba sínum og það er alveg nógu mikið rót í sjálfu sér. Núna er þetta enn þá meira rót, hún er að fara á milli heimila, hún er að fara til ömmu sinnar og afa. Við bara tökum einn dag í einu í þessu.“

Enginn virðist spá í börnunum núna

Hvað dóttur hennar varðar finnst henni leiðinlegt hvað hún missir af dýrmætum tíma á leikskólanum.

„Hún hefur það örugglega gott miðað við mörg önnur börn en þetta er samt að hafa áhrif. Ef maður spáir í því hvað þetta er stór hluti af þeirra stuttu ævi, þá er þetta orðið mjög alvarlegt. Eins og núna eru jólin að koma, þau fyrstu sem hún mun almennilega muna eftir. Það er ekkert svona jólastúss. Hún á afmæli í desember, hún missir af því í leikskólanum. Þetta eru auðvitað minni háttar atriði í stóra samhenginu en þetta spilar allt saman,“ segir Jóhanna.

„Í Covid var allt kapp lagt á að halda leikskólum opnum af því það þótti svo mikilvægt fyrir krakkana en núna þá virðist enginn vera að spá í það eða muna eftir því.“

Jóhanna hefur sent tölvupósta, hringt og reynt að setja sig í samband við ýmsa aðila: forystu Kennarasambandsins, Samband íslenskra sveitarfélaga, stjórnmálafólk og forseta Íslands í þeirri von um að einhver beiti sér í málinu eða reyni að fá forystu KÍ til að breyta um aðferðafræði í verkfallsaðgerðum. Það hafi hins vegar skilað litlum árangri. Hún væri sérstaklega til í að heyra í forseta Íslands.

„Hún talaði mikið fyrir því í sinni kosningabaráttu að taka utan um börnin og ungmennin. Ég myndi gjarnan vilja fá hana til að tjá sig um þetta mál en hef ekki fengið nein viðbrögð enn þá,” segir Jóhanna.

KÍ hefur völd til að breyta aðferðinni

Þá hafa foreldrar ítrekað haft samband við umboðsmann barna og þykir Jóhönnu einkennilegt að hún geti ekki beitt sér meira í málinu, þar sem miklir hagsmunir barna séu í húfi. Umboðsmaður barna hefur þó birt yfirlýsingu á vef sínum þar sem fram kemur að verið sé að mismuna börnum hvað varðar rétt þeirra til menntunar.

Jóhanna bendir á að Kennarasambandið hafi völd til að breyta aðferðafræðinni, þannig þau fáu börn sem verkfallið hefur áhrif á fái andrými. Með því fengi KÍ einnig fleiri foreldra með sér í lið.

„Ég held að það sé algjörlega fullreynt að segja að þessi aðferðafræði sé að setja þrýsting á samningsaðila. Hún hefur ekki skilað sér hingað til þannig ég held að það sé tímabært að breyta um taktík.

mbl.is