Dagur B. Eggertsson segist taka því af æðruleysi að mikill fjöldi kjósenda hafi strikað yfir nafn hans í alþingiskosningunum á laugardag.
Dagur B. Eggertsson segist taka því af æðruleysi að mikill fjöldi kjósenda hafi strikað yfir nafn hans í alþingiskosningunum á laugardag.
Dagur B. Eggertsson segist taka því af æðruleysi að mikill fjöldi kjósenda hafi strikað yfir nafn hans í alþingiskosningunum á laugardag.
Hann segir að margra milljóna óhróðursherferð gegn honum hafi sjálfsagt spilað inn í.
Þetta segir Dagur í skriflegu svari til mbl.is.
Greint var frá því fyrr í dag að um fimmtán prósent þeirra sem greiddu Samfylkingunni atkvæði í Reykjavíkurkjördæmi norður hefðu strikað yfir nafn Dags eða fært hann neðar á listann.
Féll Dagur úr öðru sæti í það þriðja fyrir vikið.
„Ég tek þessu nú af æðruleysi. En auðvitað var keyrð margra milljóna óhróðurs-herferð gegn mér í auglýsingum í aðdraganda kosninga. Það hefur sjálfsagt spilaði inn í. Á móti var mörgum sem ofbauð þessi framganga og lýstu stuðningi við mig og Samfylkinguna,“ segir Dagur í svari sínu og tekur fram að heildarniðurstaðan sé þó sú að Samfylkingin sé stærsti flokkurinn í landinu.
„Stærsti sigurinn og 26,1% fylgi var við Samfylkinguna í Reykjavíkurkjördæmi norður þar sem ég var í framboði og við fengum fjóra þingmenn.“
Mikla athygli vakti þegar Kristrún Frostadóttir, formaður flokksins og oddviti í Reykjavíkurkjördæmi norður, ráðlagði kjósanda að strika yfir Dag ef honum hugnaðist ekki að Dagur væri á lista.
Skjáskot voru tekin af skilaboðunum og hlutu þau mikið umtal undir lok októbermánaðar.
Telurðu að skilaboð Kristrúnar í lok október gætu hafa haft einhver áhrif?
„Það getur enginn svarað því en við lukum því máli í sátt okkar á milli og það er að baki í mínum huga.“
Telurðu að þetta hafi einhver áhrif á stöðu þína innan flokksins?
„Ég hef fundið fyrir gríðarlega miklum stuðningi frá Samfylkingarfólki vegna þeirra árása sem ég hef orðið fyrir undanfarið, bæði í Reykjavík þar sem við urðum stærst í báðum kjördæmum og fengum alls sjö þingmenn en líka frá flokksfólki og frambjóðendum um land allt, og raunar langt út fyrir raðir flokksins einnig.
Fólk spyr hvort við erum á leið inn í eitthvað bandarískt ástand þar sem alls konar öfl reyna að hafa áhrif á stjórnmál með neikvæðum áróðri og jafnvel hatursáróðri í krafti fjármagns.“
Þá segir Dagur að hann muni leggja sig fram við að vinna vel á þingi og berjast ótrauður fyrir framgangi jafnaðastefnunnar og betra samfélagi í samvinnu við félaga sína og alla sem eiga samleið með flokknum.
„Ég vonast til að geta gert kjósendur Samfylkingarinnar um land allt stolta af því að hafa kosið okkur, líka þá sem gerðu breytingar á seðlum sínum, og leggja grunn að því að enn stærri hópur kjósenda greiði okkar atkvæði sitt í næstu kosningum. Það hefur gengið vel í borginni og ég hef fulla trú á að það getið gengið vel á Alþingi.“