Ræddu möguleikana í stöðunni

Alþingiskosningar 2024 | 2. desember 2024

Ræddu möguleikana í stöðunni

„Þetta var ágætis spjall um stöðuna,“ sagði Bjarni Benediktsson forsætisráðherra um fund sinn með forseta Íslands á Bessastöðum í morgun.

Ræddu möguleikana í stöðunni

Alþingiskosningar 2024 | 2. desember 2024

Bjarni Benediktsson ræðir við fjölmiðla fyrir utan Bessastaði.
Bjarni Benediktsson ræðir við fjölmiðla fyrir utan Bessastaði. mbl.is/Eyþór

„Þetta var ágætis spjall um stöðuna,“ sagði Bjarni Benediktsson forsætisráðherra um fund sinn með forseta Íslands á Bessastöðum í morgun.

„Þetta var ágætis spjall um stöðuna,“ sagði Bjarni Benediktsson forsætisráðherra um fund sinn með forseta Íslands á Bessastöðum í morgun.

Spurður sagðist hann ekki hafa rætt við hana um eitthvert sérstakt stjórnarmynstur.

„Við ræddum samt sem áður þessar niðurstöður kosninganna og möguleikana í stöðunni og það var gagn af því fyrir okkur bæði, held ég,“ sagði hann og kvaðst ætla að vera áfram í sambandi við Höllu eftir þörfum.

Bjarni Benediktsson á Bessastöðum.
Bjarni Benediktsson á Bessastöðum. mbl.is/Eyþór

Með sömu grundvallarnálgun og aðrir forsetar

Hann sagði Höllu nálgast verkefnið sem núna er uppi í tengslum við stjórnarmyndunarviðræður á svipaðan hátt og aðrir forsetar sem hann hefur fundað með.

„Mér finnst hún vera alveg með sömu grundvallarnálgun, sem er að reyna að styðja við ferli sem getur leitt til þess að hér verði mynduð sterk, starfhæf ríkisstjórn.“

Sjálfstæðismenn funda í dag 

Bjarni sagði ekkert ljóst um næstu skref en nefndi að hann ætlaði að funda með þingflokki sjálfstæðismanna klukkan 13 í dag. Hann hlakkaði til að hitta nýja þingmenn flokksins og óska þeim til hamingju.

Bjarni og Halla á Bessastöðum.
Bjarni og Halla á Bessastöðum. mbl.is/Eyþór

Leggur ekki sérstakt kapp á umboð

Áður en hann hitti forseta Íslands á Bessastöðum sagðist Bjarni ekki ætla að leggja sérstakt kapp á stjórnarmyndunarumboð.  

„Það er ekkert unnið með því í sjálfu sér að sækjast eftir því og sitja uppi með umboðið og geta svo ekkert gert með það, maður þarf aðeins að átta sig á stöðunni,“ sagði Bjarni.

„Að sama skapi er sá sem heldur á umboðinu ekkert betur settur ef einhverjir aðrir mynda meirihluta á sama tíma. Þetta eru í bland formsatriði og praktísk atriði sem þarf að meta en við erum tilbúin til að axla ábyrgð sem fylgir því að vera stór flokkur á þinginu,“ bætti hann við.

Spurður hvort hann væri búinn að ræða við formenn annarra flokka svaraði Bjarni:

„Ég ætla að hitta þingflokkinn minn næst þannig að við erum ekki komin í neitt alvöru samtal neins staðar.”

mbl.is