Margar spurningar og óöryggi í hópnum

Kjaraviðræður | 3. desember 2024

Margar spurningar og óöryggi í hópnum

Nýundirritaður kjarasamningur Læknafélags Íslands mun þurfa frekari kynningu meðal félagsmanna áður en hægt er að greiða atkvæði um hann.

Margar spurningar og óöryggi í hópnum

Kjaraviðræður | 3. desember 2024

Samningurinn var kynntur fyrir félagsfólki í gærkvöldi á fjölmennum og …
Samningurinn var kynntur fyrir félagsfólki í gærkvöldi á fjölmennum og löngum fundi. Hátt í 800 manns tóku þátt í fundinum sem var streymt til félaga allt land. Ljósmynd/Colourbox

Nýundirritaður kjarasamningur Læknafélags Íslands mun þurfa frekari kynningu meðal félagsmanna áður en hægt er að greiða atkvæði um hann.

Nýundirritaður kjarasamningur Læknafélags Íslands mun þurfa frekari kynningu meðal félagsmanna áður en hægt er að greiða atkvæði um hann.

Óöryggis gætir meðal einhverra vegna þeirra miklu breytinga sem til stendur að gera á vakta- og starfsumhverfi lækna, en formaður Læknafélagsins segir það eðlilegt. Mikilvægt sé að fólk kynni sér vel hvað það sé að fara að kjósa um.

Samn­ing­urinn felur meðal ann­ars í sér stytt­ingu vinnu­vik­unn­ar niður í 36 tíma fyr­ir alla lækna, eðli­legra vakta­fyr­ir­komu­lag og eðli­legri greiðslur fyr­ir mis­mun­andi álag á vökt­um.

Steinunn Þórðardóttir, formaður Læknafélag Íslands.
Steinunn Þórðardóttir, formaður Læknafélag Íslands. Morgunblaðið/Sigurður Bogi

Fólk þurfi að átta sig á breytingunum

Samningurinn var kynntur fyrir félagsfólki í gærkvöldi á fjölmennum og löngum fundi. Hátt í 800 manns tóku þátt í fundinum sem var streymt til félaga um allt land.

„Ástæðan fyrir því er að betri vinnutími felur í sér mjög miklar breytingar á starfs- og vaktaumhverfi. Fólk þurfti að fá tækifæri til að spyrja og átta sig á hvaða merkingu það hefur að fara úr gömlu kerfi yfir í nýtt kerfi. Hvort það sé ekki örugglega að halda þeim gæðum sem fylgdu gamla kerfinu,“ segir Steinunn Þórðardóttir, formaður Læknafélags Íslands, í samtali við mbl.is

„Það kom mér ekki á óvart að það voru margar spurningar og ég upplifði alveg að það er ákveðið óöryggi í hópnum og kannski eitthvað sem er enn þá ósvarað. Þannig við munum halda fleiri fundi í vikunni í minni hópum til að reyna að mæta því betur að fólk átti sig nákvæmlega á þýðingunni á breytingunum.“

„Þetta er algjör kerfisbreyting“

Mikilvægt sé að fólk átti sig á um hvað það sé að kjósa.

„En við fundum líka jákvæða strauma og það eru margir mjög ánægðir. Samninganefndin stendur enn þá algjörlega við það að þetta sé góður samningur og við hvetjum félagsmenn til að samþykkja hann.“

Stefnt er að því að hefja atkvæðagreiðslu um samninginn á föstudag eða mánudag í næstu viku, en Steinunn segir það fara eftir því hvernig gangi að klára viðbótarkynningar í vikunni.

Í ljósi þess hve kjarasamningurinn felur í sér miklar breytingar, segir Steinunn eðlilegt að félagsfólk sé varkárt og vilji kynna sér málin í þaula áður en það tekur ákvörðun.

„Það er óöryggi að fara í nýtt kerfi og maður vill vera viss um að maður sé ekki að tapa einhverju. Fólk þarf bara tíma til að melta þetta. Þetta eru miklar breytingar og þær stéttir sem hafa fengið betri vinnutíma undanfarin ár, þær þekkja það líka vel að þetta er algjör kerfisbreyting.“

Vonar að fólk verði jafnánægt og hún

Steinunn er engu að síður sannfærð um að breytingarnar komi öllum vel.

„Við gengum algjörlega út frá því að allir myndu græða og að það væri eitthvað í þessu fyrir alla. Það er svolítið mismikið eftir hópum vissulega, en það er ekki hjá því komist. Meirihlutinn er að fá mjög góðan samning og það er enginn að tapa.“

Gert er ráð fyrir því að niðurstaða atkvæðagreiðslu liggi fyrir um miðja næstu viku en Steinunn hefur trú á því að samningurinn verði samþykktur eftir frekari kynningu.

„Ég ætla að leyfa mér að trúa því. Ég vona að þegar fólk fer að átta sig betur á hvað í þessu felst, þá verði það jafn ánægt og ég er með hann,“ segir hún.

„Ég er mjög ánægð með hann og ég tel þetta ákveðin tímamót í okkar starfsumhverfi. Mér finnst mikilvægt að við grípum þessa gæs. Hún gefst ekkert hvenær sem er.“

mbl.is