„Kalla yfir sig stríð“ ef félagið starfar áfram

Kjaraviðræður | 6. desember 2024

„Kalla yfir sig stríð“ ef félagið starfar áfram

Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins og Verkalýðsfélags Akraness, tekur undir gagnrýni Eflingar á stéttarfélagið Virðingu og segir það vera gervistéttarfélag.

„Kalla yfir sig stríð“ ef félagið starfar áfram

Kjaraviðræður | 6. desember 2024

Vilhjálmur Birgisson.
Vilhjálmur Birgisson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins og Verkalýðsfélags Akraness, tekur undir gagnrýni Eflingar á stéttarfélagið Virðingu og segir það vera gervistéttarfélag.

Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins og Verkalýðsfélags Akraness, tekur undir gagnrýni Eflingar á stéttarfélagið Virðingu og segir það vera gervistéttarfélag.

Vilhjálmur nefnir í færslu á Facebook að Aðalgeir Ásvaldsson framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja á veitingamarkaði [SVEIT], og aðrir stjórnarmenn hafi óskað eftir fundi með Starfsgreinasambandinu fyrir nokkrum misserum. Þar hafi komið skýrt fram ósk um að SVEIT vildu fá að gera kjarasamning við SGS „en sú ósk gekk að stórum hluta út á að skerða réttindi starfsmanna sem starfa í veitingageiranum“.

Höfnuðu hugmyndunum

„Að sjálfsögðu hafnaði SGS þessum hugmyndum og vísaði SVEIT á að vera í samtali við Samtök atvinnulífsins sem væri sá samningsaðili sem SGS gerði kjarasamninga við í þessum geira,“ bætir hann við.

„Nú hefur komið í ljós að Samtök fyrirtækja á veitingamarkaði dóu ekki „ráðalaus“ þrátt fyrir að hvorki SGS né Efling væru tilbúin til að ganga frá nýjum kjarasamningi sem átti að gjaldafella laun og önnur réttindi starfsfólks á veitingastöðum. Jú þessir aðilar virðast hafa ákveðið að stofna sjálfir gervistéttarfélag til að gjaldfella áratuga kjara-og réttindabaráttu launafólks.“

Mesta aðför að kjarabaráttu um áratugaskeið

„Það er klárt mál að hér er um að ræða mestu aðför að kjarabaráttu launafólks um áratugaskeið enda blasir það við að verkalýðshreyfingin, Samtök atvinnulífsins og samfélagið allt getur alls ekki horft aðgerðalaust á þessa valdbeitingu Samtaka fyrirtækja á veitingamarkaði. Hér er verið að níðast á lágtekjufólki á íslenskum vinnumarkaði með svívirðilegum hætti,“ heldur Vilhjálmur áfram og bætir við að félagið sé nú komið til Akureyrar.

„Þessu mun Starfsgreinasamband Íslands mæta af fullum þunga og afli enda svívirðilegt að atvinnurekendur skuli voga sér að beita launafólk svona ofbeldi með því að gjaldfella kjör og réttindi með gervistéttarfélagi,“ segir Vilhjálmur, sem kallar félagið Vanvirðingu.

Hann tilgreinir jafnframt helstu réttindaskerðingar sem nýr kjarasamningur félagsins hafi í för með sér í ellefu mismunandi liðum.

Félagið verði lagt niður 

„Ég sem formaður í Starfsgreinasambandi Íslands vil koma þeim skýru tilmælum til þeirra atvinnurekenda sem stofnuðu þetta gervistéttarfélag að hverfa frá þessari vanvirðingu við réttindabaráttu launafólks tafarlaust og leggja þetta ólöglega gervistéttarfélag niður og fara eftir þeim lágmarks kjarasamningum sem SGS og Efling hafa gert við Samtök atvinnulífsins fyrir umrædd störf,“ greinir Vilhjálmur frá.

„Ef ekki þá er ljóst að Samtök fyrirtækja á veitingamarkaði eru að kalla yfir sig stríð við alla verkalýðshreyfinguna enda þau lágmarkskjör og réttindi sem um hefur verið samið á milli aðila vinnumarkaðarins hornsteinn sáttar á íslenskum vinnumarkaði.“

mbl.is