Manndráp orðin pöntunarvara

Óöld í Svíþjóð | 6. desember 2024

Manndráp orðin pöntunarvara

Tveir ungir Svíar eru grunaðir um að hafa gert sér för til Noregs til að ráða af dögum Norðmann í Sandefjord í Austur-Noregi, um 120 kílómetra suður af Ósló, auk þess sem þeir eru grunaðir um að hafa beitt mann á fertugsaldri meiri háttar nauðung (n. grov tvang) í verslunarhúsnæði í sama bæ.

Manndráp orðin pöntunarvara

Óöld í Svíþjóð | 6. desember 2024

Norsk lögregla gerði tilraun til að stöðva bifreið tveggja ungra …
Norsk lögregla gerði tilraun til að stöðva bifreið tveggja ungra Svía, meintra launmorðingja, í Holmestrand 19. júní er lauk með því að lögreglubifreið ók á bifreið þeirra til að stöðva flóttann er hófst við stöðvunarmerki lögreglu. Sitja þeir í gæsluvarðhaldi og hafa enn ekki sagt eitt aukatekið orð. Ljósmynd/Norska lögreglan

Tveir ungir Svíar eru grunaðir um að hafa gert sér för til Noregs til að ráða af dögum Norðmann í Sandefjord í Austur-Noregi, um 120 kílómetra suður af Ósló, auk þess sem þeir eru grunaðir um að hafa beitt mann á fertugsaldri meiri háttar nauðung (n. grov tvang) í verslunarhúsnæði í sama bæ.

Tveir ungir Svíar eru grunaðir um að hafa gert sér för til Noregs til að ráða af dögum Norðmann í Sandefjord í Austur-Noregi, um 120 kílómetra suður af Ósló, auk þess sem þeir eru grunaðir um að hafa beitt mann á fertugsaldri meiri háttar nauðung (n. grov tvang) í verslunarhúsnæði í sama bæ.

Hafa mennirnir setið í gæsluvarðhaldi frá því í júní en norska lögreglan greindi fyrst opinberlega frá málinu í dag vegna rannsóknarhagsmuna.

Voru mennirnir handteknir í kjölfar þess er lögregla hugðist ná tali af þeim í Holmestrand 19. júní, litlu sveitarfélagi skammt frá Tønsberg,nágrannabæ Sandefjord til norðurs. Forðuðu hinir sænsku sér þá á bifreið er þeir höfðu til umráða og neyddist lögregla að lokum til að aka á bifreið þeirra til að stöðva þá, eftir nokkurn eltingarleik.

Segja ekki aukatekið orð

Eru mennirnir 18 og 21 árs en sá sem þeir eru taldir hafa fengið greitt fyrir að myrða er sá sem þeir veittust að í Sandefjord. Fannst skotvopn og að auki skotfæri í bifreið mannanna og hefur mál þeirra hægt og bítandi tekið á sig mynd eftir að lögreglurannsókn hófst.

„Við erum að reyna að komast á snoðir um hvort þeir hafi komið hingað vegna þess að þeir sjálfir tilheyri undirheimahópi sem treður illsakir eða hvort einhver annar hafi fengið þá til að vinna verkið,“ segir Fredrik Borg Johannessen ákæruvaldsfulltrúi lögreglunnar við norska ríkisútvarpið NRK.

Annar Svíanna sem nú sitja í haldi í Noregi hægra …
Annar Svíanna sem nú sitja í haldi í Noregi hægra megin á samsettri mynd. Báðir hafa þeir hlotið refsidóma í Svíþjóð. Vinstra megin á myndinni má sjá muni sem sænska lögreglan hefur lagt hald á við rannsóknina sín megin. Ljósmynd/Sænska lögreglan

Þrátt fyrir margra mánaða gæsluvarðhald segja grunuðu ekki eitt aukatekið orð og eru þöglir sem gröfin. Framlengdi Héraðsdómur Vestfold í Tønsberg gæsluvarðhaldsdvöl þeirra enn á ný í dag.

Fórnarlömbin tengd fjölskylduböndum

Tengsl verkefnisins, sem lögreglan telur mennina hafa verið senda til að vinna, liggja í hinn endann í Svíþjóð þar sem lögregla rannsakar málið einnig. Hennar megin er eldri kona fórnarlamb í málinu sem virðist hafa átt að ljúka í Sandefjord í júní og hefðu málalok líkast til orðið þau hefði lögregla ekki haft afskipti af mönnunum í Holmestrand í sumar.

Norski bærinn Sandefjord í Vestfold er mikil sumarleyfisperla og hefur …
Norski bærinn Sandefjord í Vestfold er mikil sumarleyfisperla og hefur verið kallaður norska rívíeran. Þangað héldu tveir menn frá Svíþjóð snemmsumars í ár og gekk misgott til ætlunar. Ljósmynd/Wikipedia.org/Sandefjord1901

Þetta staðfestir Johannessen ákæruvaldsfulltrúi án þess þó að tala af sér. Málið er á rannsóknarstigi en skotmörk þess í nágrannalöndunum tengjast fjölskylduböndum að hans sögn.

Norsk lögregluyfirvöld hafa látið í veðri vaka að þau hafi um tíma óttast að afbrotamenn frá Svíþjóð, sem einskis svífast, hafi í hyggju að hasla sér völl í Noregi. Frá þessu hefur mbl.is greint ítrekað í tengslum við þá skáldmöld sem ríkt hefur í sænskum undirheimum þar sem skotárásir og sprengjutilræði hafa verið nánast vikulegt fréttaefni vel á annað ár.

Fjöldi mála í Noregi, meðal annars í Aurskog, Ósló, Moss og Drøbak, bera að sögn lögreglu keim af því að þar hafi ungir afbrotamenn ferðast frá Svíþjóð til Noregs og Danmerkur í þeim tilgangi að beita ofbeldi eða koma fram hefndum í síharðnandi átökum í skandinavískum undirheimum. Að manndráp séu þar á pöntunarlista nánast sem hver önnur söluvara en engin nýlunda lengur.

NRK

NRK-II (sænskur leigumorðingi sendur til Óslóar)

NRK-III (fenginn til að kveikja í húsi)

NRK-IV (sendu drápshótanir úr afplánun)

mbl.is