Yfirkjörstjórn í Suðvesturkjördæmi stendur við niðurstöðu talninga sem hún hefur þegar staðfest.
Yfirkjörstjórn í Suðvesturkjördæmi stendur við niðurstöðu talninga sem hún hefur þegar staðfest.
Yfirkjörstjórn í Suðvesturkjördæmi stendur við niðurstöðu talninga sem hún hefur þegar staðfest.
Þetta kemur fram í bréfi hennar til umboðsmanna Framsóknarflokksins sem höfðu óskað eftir endurtalningu en Kristín Edwald, formaður landskjörstjórnar, hefur fengið staðfestingu þess efnis.
Yfirkjörstjórn telur því ekki þörf á endurtalningu.
Landskjörstjórn reiknar með því að úthlutununarfundur verði haldinn á þriðjudaginn klukkan 11 þar sem þingsætum verður úthlutað, segir Kristín, aðspurð.
Uppfært kl. 16.59:
Mbl.is hefur undir höndum bréf yfirkjörstjórnar en þar kemur fram að ekkert bendi til þess að framkvæmd talningar eða kjörfundar hafi verið ábótavant.
„Með vísan til ítrekunar Framsóknarflokks á beiðni um endurtalningu atkvæða í Suðvesturkjördæmi í alþingiskosningum þann 30. nóvember sl. kemur yfirkjörstjórn Suðvesturkjördæmis eftirfarandi á framfæri.
Meginhlutverk yfirkjörstjórna kjördæma er framkvæmd og yfirumsjón talningar í hverju kjördæmi fyrir sig. Í því felst meðal annars ábyrgð á því að lögum og reglum, þar á meðal reglugerð um talningu atkvæða nr. 447/2024, sé fylgt. Markmið þeirrar reglugerðar er að tryggja að atkvæði í kosningum séu talin með nákvæmum, öruggum og rekjanlegum hætti í samræmi við ákvæði kosningalaga. Í nýafstöðnum kosningum fór talning atkvæða fram í samræmi við þær samræmdu, nákvæmu og skýru reglur sem finna má í reglugerðinni.
Í reglugerðinni er að finna ítarlegar reglur um framkvæmd talningar og þeirra á meðal eru ákvæði um tvíflokkun atkvæða og tvítalningu. Tryggt er að umboðsmenn allra framboða séu viðstaddir talningu atkvæða og að þeir geti fylgst með því að rétt sé staðið að framkvæmdinni. Þá ber að taka stikkprufur til þess að ganga úr skugga um að talningin sé rétt. Að talningu lokinni er fjöldi talinna atkvæða stemmdur af við fjölda greiddra atkvæða samkvæmt upplýsingum frá kjörstjórnum sveitarfélaganna í kjördæminu. Einungis þegar tryggt hefur verið að öllum ákvæðum laga og reglugerða um framkvæmd talningar hefur verið fylgt staðfestir yfirkjörstjórn niðurstöður talninga við Landskjörstjórn.
Yfirkjörstjórn hefur síðustu daga, í kjölfar áðurnefndrar beiðni um endurtalningu, tekið sér tíma til að fara ofan í saumana á framkvæmd nýafstaðinna alþingiskosninga og sannreynt niðurstöður talningar meðal annars með því að fara yfir allar færslur í gerðabókum sveitarfélaga kjördæmisins vegna kosninganna. Niðurstaða þeirrar skoðunar er sú að ekkert bendir til þess að framkvæmd talningar eða kjörfundar að öðru leyti hafi verið ábótavant. Yfirkjörstjórn Suðvesturkjördæmis telur því ekki þörf á endurtalningu eða frekari staðfestingu niðurstaðna kosninganna.“