Thomsen er ný herrafataverslun á Hafnartorgi í Reykjavík. Gunni Hilmarsson er einn af þeim sem eru á bak við verslunina en hann hefur starfað í tísku- og hönnunarheiminum í um 30 ár. Síðustu 12 árin hefur hann verið hjá Kormáki & Skildi en sagði skilið við fyrirtækið fyrir nokkrum mánuðum.
Thomsen er ný herrafataverslun á Hafnartorgi í Reykjavík. Gunni Hilmarsson er einn af þeim sem eru á bak við verslunina en hann hefur starfað í tísku- og hönnunarheiminum í um 30 ár. Síðustu 12 árin hefur hann verið hjá Kormáki & Skildi en sagði skilið við fyrirtækið fyrir nokkrum mánuðum.
Thomsen er ný herrafataverslun á Hafnartorgi í Reykjavík. Gunni Hilmarsson er einn af þeim sem eru á bak við verslunina en hann hefur starfað í tísku- og hönnunarheiminum í um 30 ár. Síðustu 12 árin hefur hann verið hjá Kormáki & Skildi en sagði skilið við fyrirtækið fyrir nokkrum mánuðum.
Gunni hóf störf sem unglingur í versluninni Hans og starfaði þar uns hann stofnaði GK árið 1997. Eftir stuttan tíma fann hann að ástríða hans lá hönnunar- og sköpunarmegin og ákvað að sækja sér þekkingu í faginu. „Ég gerðist hálfgerður sjómaður og fór að vinna erlendis í nokkur ár. Fyrsta alvöru djobbið var hjá Bestseller í kringum árið 2002. Ég varð þó þreyttur á ferðalögunum, ég var aðeins heima á laugardögum og við vorum með lítil börn svo mig langaði að koma mér nær,“ segir hann. Frá Bestseller fór hann til Day Birger og Mikkelsen og þaðan til All Saints í London. Á endanum flutti hann heim og stofnaði fatamerkið Andersen & Lauth, sem eflaust margir muna eftir, ásamt eiginkonu sinni Kollu Gunnarsdóttur.
„Það var frábært verkefni. Við opnuðum fullt af búðum og það var orðið stórt, seldum hönnunina í 1.200 búðir. En þessu fylgdi líka mikið af ferðalögum og eftir það stofnuðum við okkar eigið hönnunarfyrirtæki og fatamerkið Freebird sem hefur verið til síðan.“ Hjónin hafa meðal annars unnið með Anthropologie og Urban Outfitters í Bandaríkjunum. Árið 2012 hóf Gunni störf hjá Herrafataverzlun Kormáks & Skjaldar.
Ásamt fatahönnuninni fann hann sig í tónlistinni og er í hljómsveitinni Sycamore Tree ásamt Ágústu Evu Erlendsdóttur. Hann nálgast tónlistina eins og hönnunarferlið.
„Hver plata er hljóðheimur sem er skapaður út frá lögum, hljóðmynd og textum. Það er ekkert ósvipað því að búa til fatalínu. Ég nota sömu aðferðir, vinn rannsóknarvinnu og þetta er í raun eins ferli. Kollegum í tónlistarbransanum gæti þótt það skrýtið en þetta er það sem virkar fyrir mig og kemur í veg fyrir að ég endurtaki mig sem er mikilvægt fyrir hvaða listamann sem er. Það þarf að hugsa út fyrir kassann, endurnýja og fara með sjálfan sig að brúninni. Hvað þorir maður að fara langt?“ spyr hann.
Ertu menntaður í hönnun?
„Nei, ég lærði ekki neitt. Listaháskólinn var ekki til þegar ég var að byrja, annars hefði ég pottþétt farið þangað. Ég ákvað hins vegar að læra þetta með því að vinna hjá litlum og stórum fyrirtækjum sem er náttúrulega miklu meiri skóli en að fara í skóla. Skólinn undirbýr þig vel sem listamann en það er lítill faglegur undirbúningur fyrir það hvernig hlutirnir virka í hönnunar- og framleiðslubransanum. Ég hef aldeilis unnið mér inn reynslu í faginu á vígvellinum.“
Gunni hefur beitt sér í faginu frá upphafi. Hann var einn stofnenda Hönnunarmiðstöðvarinnar og formaður fatahönnunarfélagsins.
Hvað er langt síðan þú fórst að hugsa út í hvað Thomsen gæti orðið?
„Það eru aðeins örfáir mánuðir síðan. Ég sagði upp hjá Kormáki & Skildi í vor og vann þar þangað til snemma í haust svo þetta gerðist mjög hratt. Mig langaði að gera þetta, fannst ég skulda sjálfum mér þetta og öðrum eina svona alvöru arfleifð sem maður skilur eftir sig. Ég er kominn yfir fimmtugt og langaði að nota alla mína reynslu og þekkingu til að búa til eitthvað fallegt sem mun lifa og dafna,“ útskýrir Gunni.
Honum hefur fundist vanta framþróun í íslenskri fatahönnun undanfarin ár. „Það hefur ekki verið mikið um ný merki. Besti tíminn var eftir hrunið, 2008, þegar Íslendingar versluðu mikið heima. Umhverfið hefur verið erfiðara upp á síðkastið.“
Þú nefnir að allt hafi gerst mjög hratt og þú opnar stærðarinnar verslun aðeins fáum mánuðum eftir að hugmyndin spratt fram. Það tekur tíma að þróa vöru og koma henni í framleiðslu svo að ég velti því fyrir mér, hvernig fórst þú að því að gera þetta á svona stuttum tíma?
„Í raun er það vegna þess að ég hef mikla þekkingu á herraframleiðslu. Ég bý að góðum samböndum og hef unnið með langflestum þessara framleiðenda í 20-30 ár. Ég hef verið með þeim í alls konar verkefnum svo þetta eru rútíneruð sambönd. Ef ég væri að byrja frá grunni, ekki með mikla þekkingu og lítil sambönd, þá væri þetta ekki erfitt heldur ómögulegt,“ segir hann.
„Það er ekki skrýtið að þú spyrjir. En það eru góð sambönd við framleiðslu- og efnabirgja sem skipta máli. Ef þú veist hvernig hlutirnir virka er hægt að gera þetta hratt.“
Hvaðan koma sniðin og efnin?
„Efnin koma víðs vegar að og ég legg mikið upp úr fagurfræði. Þetta á að vera fallegt og aðgengilegt merki. Hönnunarsýnin er ekki þröng, þetta er aðgengilegt fyrir stóran markað og alla karlmenn. Það eru sérsaumuð jakkaföt, spariföt og hversdagsföt. Það þarf að þróa allt meira og minna frá grunni en ég er snöggur og veit hvað ég er að gera, það er lykillinn. Ég hefði í sjálfu sér alveg viljað hafa meiri tíma en það er tími fram undan til að fínstilla strengina, finna út hvað vantar og hvað þarf að bæta. Línan er mjög stór og virkar fullgerð, og er það. Hún ætti að uppfylla þarfir flestra karlmanna.“
Hver er hugmyndin á bak við Thomsen?
„Þetta er eitthvað sem myndi flokkast undir slow-fashion. Það er tíska sem fylgir ekki árstíðum heldur erum við með grunn sem við bætum við og stækkum. Það verða engar útsölur eða slíkt og við ætlum ekki í þennan tískuhring sem er með jafnvel tvær til átta línur á ári. Því fylgir mikil sóun. Við aðhyllumst þá hugmyndafræði að fólk eigi að kaupa sér góðar flíkur, láta þær endast og velja vel. Hugmyndafræðin er norræn, mínimalísk og allt lagt upp úr góðum efnum og sniðum. Fagurfræðin í búðinni gengur út á liti og þemu í þessu. Aðalatriðið snýst um endingu gæða, að vera góður við náttúruna og starfsfólkið sitt. Okkar hlutverk er að framleiða framtíðaruppáhaldsflíkurnar þínar. Við viljum frekar að fólk kaupi sér sjaldnar og meiri gæði. Við erum ekki að fylla gáma af vörum frá öðrum löndum sem er allt of mikið af í dag.“
Hann segir mikla þekkingu innanhúss til að framleiða föt, velja efni og koma hlutum í örugga framleiðslu. „Við getum gert það án milliliða sem þýðir að við getum boðið upp á mikil gæði á verðum sem eru afskaplega fín. Ég held að það sé framtíðin í þessum blessaða fatabransa sem breytist alltaf.“
Lítið öryggi er fyrir því að dýr vara sé af miklum gæðum að hans mati. „Það sést hjá stóru merkjunum úti að það er ekki alltaf verið að kaupa gæði heldur er verið að selja ágæta stuttermaboli á 40-50 þúsund krónur sem er stjarnfræðilega galið. Þá er fólk að borga fyrir merkið.“
Markmiðið var að opna verslunina fyrir jólin. Innréttingar eru meðal annars sérsmíðaðar af syni hans, Alexander Hugo Gunnarssyni. „Þetta hefur auðvitað verið mikil vinna og svefnlausar nætur. Það er ótrúlegt að fá tækifæri til þess að skapa þetta merki og að opna á þennan hátt. Búðin er stór og full af vörum en það er lúxusvandamál að geta byrjað svona.”
Hann gerir ráð fyrir að það taki tíma að byggja upp vörumerkið. „Þetta er ekki lengur þannig að maður opni búð og allir komi. Það er mikil samkeppni og þó að það sé ekki mikið af íslenskum merkjum á borð við okkar í dag þá reiknum við með að hlutirnir taki tíma. Þetta er kannski ekki sniðugasti tíminn í heimi til að opna hvað varðar efnahagsástandið en þetta er tíminn sem við völdum. Við höfum trú á þessu.“
Fyrir hverja er merkið?
„Fyrir afskaplega breiðan hóp. Það var það sem ég lagði upp með í hönnuninni á herrafötunum og þetta nær alveg niður í unga menn og upp úr. Þetta verður ekki skrýtið hátískumerki, við viljum frekar búa til falleg hversdagsföt og spariföt. Þeir sem fá sér skyrtu geta verið öruggir um að fá eitthvað í kringum það. Við erum með breitt úrval af gráum litum, bláum litum og jarðarlitum og er línan vel hugsuð út frá því. Það þarf að gera þetta þannig ef hún á að bera uppi heila verslun.“
Thomsen er staðsett í miðbæ Reykjavíkur og segir Gunni marga vera neikvæða gagnvart miðbænum. „Það er alvöru vandamál fyrir kaupmenn í bænum. Almenn umræða er neikvæð, eins og um færri stæði sem er alveg rétt. Íslendingar eru latir við bílastæðahúsin en flestir hafa samt notað þau sem eru undir Hafnartorgi og Hörpu sem eru þægileg. Ég hef verið í miðbænum meira og minna í 25-30 ár og ég hef fundið fyrir mikilli neikvæðni. Íslendingar gera aðrar kröfur á heimavelli en útivelli en þetta er sorglegt því að borg án sterks miðbæjar er ekki borg,“ segir Gunni.
Á þessi umræða rétt á sér?
„Ég skil hana að mörgu leyti. Það má alltaf gera betur en fólk þarf að vera opið og þykja vænt um miðbæinn sinn. Miðbærinn deyr ef fólk kemur ekki en svo eru líka hlutir sem borgin getur gert. Það er lítið af stæðum og dýrt að leggja og alls konar í þessu sem skiptir máli. En umræðan er líka óvægin því að miðbærinn er svo mikilvægur fyrir menningu borgarinnar. Hér fer mikið fram, mest af íslenskri hönnun og handverki er í miðbænum, tónleikar, listasýningar og allt listatengt. Við getum ekki annað en elskað miðbæinn því að hér slær hjartað í borginni.“
Þú hættir hjá Kormáki & Skildi eftir 12 ár, hver var ástæðan fyrir því?
„Ég ætlaði aldrei að vera svona lengi. Þetta var frábær tími, mjög skemmtilegur og það gerðist mikið. Fyrirtækið margfaldaðist að stærð og við opnuðum fullt af verslunum. Mig langaði að gera eitthvað annað en 12 ár eru langur tími af ævinni. Ég hef alltaf sagt að fólk eigi ekki að vinna lengur en átta ár á hverjum stað og ég braut þá reglu,“ segir hann og hlær.
„Ég held að það sé ágætisviðmið þegar þú vinnur hjá öðrum. Það var skemmtilegur tími en öllu lýkur, ég var ekki æviráðinn kennari þar. Ég gaf þeim mjög mikið, mikla orku og ástríðu og vann eins og brjálæðingur. En svo vildi ég líka einfalda líf mitt og ég mæli með því fyrir alla.“