Utanríkisráðherra Íslands hyggst ekki fordæma uppreisnina sem varð til falls Assad-harðstjórnarinnar í Sýrlandi. Hún telur fall Sýrlandsforseta af valdastóli góðar fréttir fyrir vestræn lýðræðisöfl og til marks um dvínandi áhrifavald Rússa og Írana í Mið-Austurlöndum.
Utanríkisráðherra Íslands hyggst ekki fordæma uppreisnina sem varð til falls Assad-harðstjórnarinnar í Sýrlandi. Hún telur fall Sýrlandsforseta af valdastóli góðar fréttir fyrir vestræn lýðræðisöfl og til marks um dvínandi áhrifavald Rússa og Írana í Mið-Austurlöndum.
Utanríkisráðherra Íslands hyggst ekki fordæma uppreisnina sem varð til falls Assad-harðstjórnarinnar í Sýrlandi. Hún telur fall Sýrlandsforseta af valdastóli góðar fréttir fyrir vestræn lýðræðisöfl og til marks um dvínandi áhrifavald Rússa og Írana í Mið-Austurlöndum.
Sýrlenski uppreisnarhópurinn Hayat Tahrir al-Sham, eða HTS, hefur náð völdum í höfuðborginni Damaskus og hefur forseti Sýrlands, Bashar al-Assad, yfirgefið landið. Hann er nú sagður halda sig í Moskvu.
Assad er einn alræmdasti einræðisherra heims og hefur hann stjórnað Sýrlandi frá árinu 2000 þegar hann tók við af föður sínum, Hafez al-Assad, árið 1971. Stjórn hans hefur einkennst af hörku og ásökunum um stríðsglæpi.
„Það harmar enginn örlög stjórnarinnar í Sýrlandi,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra í samtali við mbl.is. Hún segir þó að fall stjórnarinnar hafi gerst með hætti sem enginn hefði getað spáð fyrir.
„Bashar al-Assad var harðstjóri sem olli dauða hundruð þúsunda eigin borgara í því skyni að halda völdum í landinu,“ bætir hún við og vísar þar til borgarastyrjaldarinnar í Sýrlandi sem hefur í raun staðið yfir frá 2011. Um 580-620 þúsund eru talin hafa fallið í borgarastyrjöldinni.
„En núna veit maður einfaldlega ekki hvað gerist næst,“ bætir Þórdís við og tekur fram að það sé mikilvægt að það brjótist ekki út allsherjarupplausn í landinu. Nýir valdhafar verði að sýna skynsemi á sínum fyrstu vikum við völd.
„Við vitum lítið um þessa aðila og hvernig þeir vilja stjórna landinu og við viljum ekki sjá öldu hefndarverka hefjast í landinu eða slíkt. En það er mikilvægt að umheimurinn fylgist með og sömuleiðis veiti hjálparhönd, sem svo ber undir.“
En þegar litið er á stóru myndina virðist eitt skýrt:
„Fall Assad-stjórnarinnar sýnir dvínandi áhrif Írans og Rússlands,“ segir Þórdís. „Fyrir vestræn lýðræðisöfl þá er það jákvætt.“
Assad og Vladimír Pútín Rússlandsforseti eru miklir bandamenn og hefur sá síðarnefndi nú lýst yfir ótakmörkuðum stuðningi við Assad-stjórnina. Það hefur forseti Írans einnig gert.
HTS-hópurinn á sér langa sögu í Sýrlandsdeilunni og var upphaflega stofnaður undir nafninu Jabhat al-Nusra árið 2011 í borgarastyrjöld Sýrlands og var nátengdur al-Kaída-samtökunum.
Talið er að einn leiðtoga Íslamska ríkisins, ISIS, Abu Bakr al-Baghdadi, hafi tekið þátt í stofnun hópsins og er hópurinn skilgreindur sem hryðjuverkasamtök af Sameinuðu þjóðunum, Bandaríkjunum, Tyrklandi og öðrum löndum.
HTS er einn árangursríkasti hópur sem hefur barist gegn Assad Sýrlandsforseta í borgarastyrjöld Sýrlands. Hugmyndfræði jíhadista hefur virst ríkjandi drifkraftur hópsins frekar en byltingarkenndur ákafi, sem hefur þótt á skjön við helstu bandalög annarra uppreisnarhópa sem börðust fyrir frelsi Sýrlands.
En er ekki hætta á því núna, með brottrekstri Assads, að íslamistar taki völd?
„Eins og ég segi þá vitum við náttúrulega lítið um þessa aðila og hvað þeir hyggist gera næst. En það er ljóst að bæði Íranar og Rússar hafa hjálpað Assad mjög verulega með vopnum og öðru til þess að halda þarna völdum. Það má gera ráð fyrir því að þessi atburðarás valdi þeim áhyggjum,“ svarar Þórdís.
„Þetta er ofboðslega brothætt staða og ég held að næstu sólarhringa muni koma í ljós hvað gerist næst. Maður vonar að það verði ekki algjör óreiða í landinu eða þetta hleypi einhverju mjög alvarlegu af stað sem gæti síðan orðið mun útbreiddara. Við verðum að fylgjast með því.“
Þá segir hún enn óljóst hvaða áhrif uppreisnin gæti haft á stríð Ísraelsmanna á Gasa og í Líbanon.
Kemur til greina að senda mannúðaraðstoð til Sýrlands?
„Það fer eftir því hvernig málum vindur fram á næstu sólarhringum og hvernig alþjóðasamfélagið og mannréttindastofnanir bregðast við. Og ef mál þróast með þeim hætti þá munum við taka afstöðu til þess. En auðvitað hefur fólk varann á sér. Og ég geri ráð fyrir því að það séu áhyggjur og hræðsla við óreiðu í Sýrlandi og við slíkar aðstæður getur þetta vaxið og dafnað og orðið til einhvers konar útflutnings.“
Frá því að uppreisnin hófst þann 27. nóvember hafa 910 manns verið drepnir, þar af 138 óbreyttir borgarar, að sögn sýrlensku mannréttindavaktarinnar (SHOR) sem er reyndar bresk stofnun.
Kemur til greina að fordæma þessa uppreisn?
„Nei. Rússland hefur fordæmt uppreisnina en Vesturlönd líta á hana sem vonarneista fyrir þjakaða þjóð. Þarna er um að ræða harðstjóra sem hefur verið felldur af stóli og flúið land. Þetta er harðstjóri sem olli dauða hundruð þúsunda eigin borgara,“ svarar Þórdís.
„Og þetta er 50 ára valdatíð þessarar fjölskyldu. Sömuleiðis erum við með mann sem beitti eiturefnavopnum gegn eigin fólki, þannig að það að hann hafi verið felldur er eitthvað sem fáir harma. En svo er atburðarásin í gangi og við verðum að sjá hvernig henni vindur fram.“
Uppfært þann 9. desember, kl. 00.10: Í eldri útgáfu af fréttinni var haft eftir Þórdísi Kolbrúnu að hún ætlaði ekki að fordæma upprásina „á þessum tímapunkti“. Hún hefur nú sent áréttingu þess efnis að hún hyggist ekki fordæma hana yfir höfuð.