Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, segir að fráfarandi ríkisstjórn skilji eftir sig verra bú en upphaflega var talið.
Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, segir að fráfarandi ríkisstjórn skilji eftir sig verra bú en upphaflega var talið.
Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, segir að fráfarandi ríkisstjórn skilji eftir sig verra bú en upphaflega var talið.
„Ríkisstjórnin fyrrverandi er að skilja eftir sig verra bú, meðal annars vegna þess að efnahagsumsvif eru minni en áður var við búist. Tekjur til ríkisins eru minni og þetta er auðvitað mjög erfitt mál því þarna þarf að forgangsraða. Þarna þarf að ræða bæði tekjuhlið og útgjaldahlið,“ segir Kristrún.
Heildarafkoma A1-hluta ríkissjóðs árið 2025 er nú áætluð neikvæð um 1,2% af vergri landsframleiðslu. Er það lakari afkoma en áætlað var við framlagningu fjárlagafrumvarpsins í september og fjármálaáætlunar 2025-2029 í apríl.
Spurð hvort að þetta setji eitthvað strik í reikninginn segir Kristrún:
„Þetta hefur auðvitað áhrif á það hvernig við hugsum ákveðnar aðgerðir en þetta er bara staðan eins og hún er og við þurfum bara að vinna með hana. Ég segi að það sé bara gott að það stefni mögulega í að nýtt fólk taki við vegna þess að þetta bú er afleiðing af ákveðnu stjórnarfari sem hér hefur verið til staðar,“ segir Kristrún.
Hún segir að fráfarandi ríkisstjórn hafi verið að eyða tekjum sem ekki var innistæða fyrir og að hagkerfið hafi ekki reynst jafn sterkt og búist var við.
Hún segir augljóst að það þurfi að breyta um stefnu í efnahagsmálum og passa betur upp á afkomuna. Fyrsta verkefni nýrrar ríkisstjórnar verði að forgangsraða útgjöldum og taka á hallanum. Ef það verði ekki gert þá verði það vandamál út kjörtímabilið.
„Við setjum það ekkert fyrir okkur að taka á þessu af festu og það mun þýða að það verði mun meira svigrúm til ákveðinna annarra útgjalda eða viðbótar í þjónustu þar sem það þarf.“
Kemur til greina að fara í minni fjárfestingu fyrri hluta kjörtímabilsins og þá kannski frekari fjárfestingu seinni hluta kjörtímabilsins vegna stöðunnar?
„Við erum að minnsta kosti að skanna hagkerfið, ef svo má segja, varðandi þenslu og passa upp á það að við sjáum áframhaldandi lækkun vaxta og verðbólgu. Ef við förum af stað í útgjöld sem tefla því ferli í tvísýnu þá fáum við það aftur í fangið, við erum fullmeðvitaðar um það. Það eru hins vegar ákveðnar breytingar sem er hægt að gera strax. Sumar kosta ekki neitt, aðrar kosta minna. Sumar er hægt að sækja tekjur fyrir strax, eða hagræða fyrir strax,“ segir Kristrún.
Vinnuhópar skipaðir fulltrúum flokkanna hófu störf í dag og fara yfir efnahagsmál, kjaramál, húsnæðismál og heilbrigðismál. Á morgun fjölgar vinnuhópum sem munu fara yfir fleiri málaflokka.