„Það hefur gengið mjög vel og starfsmenn eiga mikið hrós skilið fyrir að láta hlutina ganga upp.“
„Það hefur gengið mjög vel og starfsmenn eiga mikið hrós skilið fyrir að láta hlutina ganga upp.“
„Það hefur gengið mjög vel og starfsmenn eiga mikið hrós skilið fyrir að láta hlutina ganga upp.“
Þetta segir Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri sölu, rekstrar og þjónustu hjá Bláa lóninu, í samtali við mbl.is en starfsemi hófst á nýjan leik í Bláa lóninu fyrir sex dögum eftir rúma tveggja vikna lokun í kjölfar eldgossins í Sundhnúkagígaröðinni.
Helga segir að ýmis verkefni tengd því að ferja gesti Bláa lónsins frá Grindavík hafi verið áskorun en það hafi allt gengið vel og gestir lónsins hafi sýnt stöðunni mikinn og góðan skilning.
„Við gerum ráð fyrir að breytingar verði á þessu um helgina en þangað til munum við halda áfram að ferja gesti okkar með skutlum frá Grindavík,“ segir hún.
Spurð hvernig gestir Bláa lónsins hafi tekið því að þurfa að ferðast með skutlunum frá Grindavík segir hún:
„Gestir sýna stöðunni skilning og við finnum ekki annað en að þeir séu ánægðir með að Bláa lónið sé opið og að þeir geti heimsótt okkur. Auðvitað kallar þetta á auka snúninga en það sýna þessu allir skilning,“ segir Helga.
Hún segir að aðsókn í lónið sé góð.
„Við fögnum því og þykir vænt um það að ferðamenn leggi þetta á sig til að komast til okkar og njóta alls þess sem við höfum upp á að bjóða. Við finnum fyrir því að þeir kunna vel að meta að við getum haldið starfseminni opinni.“
Sem kunnugt er fór allt bílaplan Bláa lónsins undir hraun í gosinu sem lauk á mánudaginn en Helga segir að vonandi verði hægt að nýta nýtt bílaplan á næstu dögum. Þau bílastæði eru staðsett innan varnargarðanna, norðan við lónið.