Fáir Íslendingar búa yfir jafn mikilli þekkingu og yfirsýn á utanríkis- og varnarmálum og Björn Bjarnason. Hann er nýjasti gestur Spursmála.
Fáir Íslendingar búa yfir jafn mikilli þekkingu og yfirsýn á utanríkis- og varnarmálum og Björn Bjarnason. Hann er nýjasti gestur Spursmála.
Fáir Íslendingar búa yfir jafn mikilli þekkingu og yfirsýn á utanríkis- og varnarmálum og Björn Bjarnason. Hann er nýjasti gestur Spursmála.
Hann segir að það hafi komið á óvart í liðinni viku hversu hratt veldi Bashars al-Assads forseta Sýrlands hrundi. Þar hafi rússneski björninn ekki getað komið til hjálpar eins og væntingar voru um í Damaskus.
„Pútín hefur engan þrótt, hann einbeitir sér allur að Úkraínu. Hann getur ekki beitt neinu valdi, hann minnir svolítið á þegar Berlínarmúrinn hrundi, þegar Gorbatchev hafði þá sagt við stjórnendur kommúnistanna í Austur-Þýskalandi, ég get ekki bjargað ykkur, þið verðið að leysa vanda ykkar sjálfir, ég hef engan mátt til að aðstoða ykkur.“
Segir Björn að gríðarleg gerjun eigi sér nú stað í alþjóðamálum, ekki aðeins með falli einræðisherrans í Sýrlandi. Hið sama eigi við um fall Hezbollah-samtakanna í Líbanon, Hamas-samtakanna á Gasasvæðinu og þannig mætti áfram telja.
Spurningin sé hvar næstu stórviðburðir verði. Einhverjir leyfi sér að benda beinlínis á Rússland sjálft í því sambandi.
„Það getur náttúrlega það sama gerst, menn eru að skrifa um það að efnahagur Rússlands sé orðinn svo slæmur að það minni helst á síðustu daga Sovétríkjanna. Að það kunni að gerast eitthvað slíkt í Rússlandi. Ég er ekki að spá því vegna þess að Kínverjar eru komnir svo mikið þarna inn og þeir hafa ekki hag af því að Rússland falli saman eins og Sovétríkin gerðu en þetta er á einhverjum svona punkti.“
Þá segir Björn að það séu fleiri stórir straumar að verki þessi dægrin.
„En það má líka segja að frá 5. nóvember, þegar Trump var kjörinn forseti, höfum við orðið vitni að einhverjum straumum innan Þýskalands, í Frakklandi, í Sýrlandi, í öllu þessu umhverfi sem er þannig að við erum kannski komin inn í nýtt ferli, einhver þáttaskil hafa orðið sem við erum að upplifa en áttum okkur ekki á,“ segir Björn.
Þá bendi margt til þess að hryðjuverkaárásin sem gerð var í Ísrael í október 2023 hafi hrundið af stað atburðarás sem hermdarverkamennirnir hafi ekki séð fyrir. Þar hafi þeir misreiknað sig hrapallega.
Mun ítarlegra samtal við Björn er aðgengilegt á vettvangi Spursmála á mbl.is og einnig á Spotify og Youtube. Hlekkur á það er hér að neðan: