Þorleifur Örn Arnarsson leikstjóri og Erna Mist Yamagata myndlistarmaður eru að skapa sér sinn heim á nýju heimili. Þau kynntust fyrir rúmlega ári og eru nú að vinna saman í fyrsta skipti við leikritið Köttur á heitu blikkþaki sem frumsýnt verður í Borgarleikhúsinu 28. desember. Hún er jólabarn en hann tengir meira við áramótin. Parið á von á barni sem er væntanlegt í janúar en fyrir á hann 13 ára gamlan son.
Þorleifur Örn Arnarsson leikstjóri og Erna Mist Yamagata myndlistarmaður eru að skapa sér sinn heim á nýju heimili. Þau kynntust fyrir rúmlega ári og eru nú að vinna saman í fyrsta skipti við leikritið Köttur á heitu blikkþaki sem frumsýnt verður í Borgarleikhúsinu 28. desember. Hún er jólabarn en hann tengir meira við áramótin. Parið á von á barni sem er væntanlegt í janúar en fyrir á hann 13 ára gamlan son.
Þorleifur Örn Arnarsson leikstjóri og Erna Mist Yamagata myndlistarmaður eru að skapa sér sinn heim á nýju heimili. Þau kynntust fyrir rúmlega ári og eru nú að vinna saman í fyrsta skipti við leikritið Köttur á heitu blikkþaki sem frumsýnt verður í Borgarleikhúsinu 28. desember. Hún er jólabarn en hann tengir meira við áramótin. Parið á von á barni sem er væntanlegt í janúar en fyrir á hann 13 ára gamlan son.
Þorleifur leikstýrir Ketti á heitu blikkþaki og Erna hannar leikmynd og búninga. Þegar þau eru spurð að því hvort gamall draumur sé að rætast við vinnu á verkinu segja þau svo vera.
„Þessi ameríska nýklassísk hefur alltaf höfðað til mín. Tennessee Williams tilheyrir þessari listrænu sprengingu sem varð í bandarískri leikritun á miðri síðustu öld, en nútímasjónvarpsseríur og kvikmyndir eiga rætur sínar að rekja til þessa tíma. Í verkum hans eru til að mynda rosalegar hliðstæður við þætti á borð við Succession og Yellowstone. Þetta er uppgjör við ofríki föðurins og valdastrúktúra. Umræðan um að setja þetta verk upp á Íslandi byrjaði á sama tíma og við vorum að kynnast. Þá kom í ljós að þetta er eitt af uppáhaldsverkum þínum,“ segir Þorleifur og horfir á Ernu og hún tekur undir.
„Fæðingarstund þessa verkefnis varð til í samtölunum okkar á milli um þematíkina, þræðina og erindi verksins við samtímann,“ segir Þorleifur.
„Það var samt ekkert ákveðið að ég myndi taka þátt í uppsetningunni,“ segir Erna.
„Ég var búinn að lýsa því yfir að mig langaði að vinna með þér,“ segir hann.
„Það ótrúlega við þetta verk er að það er leikið í rauntíma, á einni kvöldstund, í einu herbergi – en þrátt fyrir takmarkaðan ramma tekst því að ná utan um stærstu spurningar tilverunnar,“ segir hann.
Eins og hvaða spurningar?
„Það er verið að berjast um arfinn – sem í metafórísku samhengi er baráttan um framtíðina; hver fái að vera handhafi framtíðarinnar. Þess vegna minnir þetta á Succession. Þetta er slagur á milli bræðra um ríkidæmi föður síns en bardaginn er keyrður áfram af konum þeirra beggja. Annar bróðirinn og konan hans eiga fimm börn en hin eru barnlaus – sem setur þau í verri samningsstöðu svo að þau neyðast til að grípa til örþrifaráða. Faðirinn er búinn að vera veikur lengi og er við það að gera erfðaskrá. Á þessu eina kvöldi hefst uppgjör, sameiginleg tilraun þeirra allra til að greina sannleikann frá lygunum. Þetta er fjölskyldudrama þar sem hver og einn þarf að berjast fyrir sínu sjónarmiði, sinni lífssýn, sínum tilvistarlega eignarrétti. Við horfum á fjölskyldu mögulega brotna í sundur því þau geta ekki sameinast um miðlæga sýn á lífið,“ segir Þorleifur.
„Verkið segir í senn sértæka og víðtæka sögu, því karakterarnir eru í raun holdgervingar stærra kerfis. Átök milli hjóna eru í raun átök milli kynjanna, átök milli feðga eru átök milli kynslóða, átök milli bræðra eru átök milli stétta,“ segir Erna.
„Allir karakterar í þessu verki koma á einhverjum tímapunkti hræðilega og ósiðlega fram, en svo kemur óvænt sjónarhorn sem réttlætir, eða að minnsta kosti útskýrir, þetta allt saman. Verkið opnar í sífellu nýjar dyr sem fá mann til að efast um skoðunina sem maður myndaði sér fyrir korteri,“ segir hann.
Er það ekki bara svolítið eins og manneskjan er í raun og veru?
„Það er einmitt svo erfitt í samfélagsumræðunni þessa dagana hvað við erum gjörn á að taka einn neikvæðan viðburð úr ævi manneskju og fletja hann yfir allt líf viðkomandi. Fólk er ekki gott eða slæmt. Samhengi þess spilar stóra rullu. Í leikhúsinu ferðu í gegnum samkenndarþjálfun þar sem þú byrjar á því að halda með einhverjum, síðan ferðu að fyrirlíta viðkomandi, svo ferðu að vorkenna viðkomandi. Upplifunin dregur upp róf af margbreytileika manneskjunnar, sem er í eðli sínu margslungin og flókin. Á sterkustu augnablikunum okkar erum við óskaplega falleg og á veikustu augnablikunum getum við orðið ófyrirgefanlega grimm,“ segir hann.
Erna, hvernig túlkar þú leikmynd og búninga í þessu verki?
„Ég upphugsaði leikmyndina eins og málverkin mín. Í stað þess að líkja eftir raunverulegum stað safnaði ég saman sjónrænum tilvísunum og byggði úr þeim draumkenndan myndheim. Á miðju sviðinu er hjónarúm og áhorfendur sitja hringinn í kring. Fyrir ofan sviðið hangir ljósakróna úr grátandi vínglösum. Í stað þess að draga upp natúralískar aðstæður las ég verkið og leitaði að ljóðrænum kjarna, svo að hjartað í verkinu gæti sprungið út í myndlíkingu,“ segir hún.
„Hjónarúmið verður að vígvelli, þar sem áhorfendur sitja umhverfis persónurnar og fylgjast með þeim eins og skylmingaþrælum í gryfju,“ segir Þorleifur.
„Rúmið er þarna sem stöðug áminning um börnin sem þau eignuðust ekki,“ segir hún.
„Þetta verk er einhvers staðar á milli fjölskyldutragedíu og spennutryllis, og er eitt best skrifaða uppgjör á milli manneskja sem ég hef lesið í leikriti. Það er svo gaman að fara inn í þessar stóru senur. Maður verður svo þakklátur fyrir að eiga tiltölulega fallegt fjölskyldulíf,“ segir hann og horfir í kringum sig.