„Tónlistin blundaði alltaf í mér“

Borgarferðir | 18. desember 2024

„Tónlistin blundaði alltaf í mér“

Helga Margrét Clarke er 41 árs, ættuð frá Akureyri en búsett í Reykjavík ásamt eiginkonu sinni Annettu Ragnarsdóttur og börnunum þeirra tveimur. Helga starfar sem verkefnastjóri hjá Embætti landlæknis og er söngkona í hjáverkum.

„Tónlistin blundaði alltaf í mér“

Borgarferðir | 18. desember 2024

Ljósmynd/Aðsend

Helga Margrét Clarke er 41 árs, ættuð frá Akureyri en búsett í Reykjavík ásamt eiginkonu sinni Annettu Ragnarsdóttur og börnunum þeirra tveimur. Helga starfar sem verkefnastjóri hjá Embætti landlæknis og er söngkona í hjáverkum.

Helga Margrét Clarke er 41 árs, ættuð frá Akureyri en búsett í Reykjavík ásamt eiginkonu sinni Annettu Ragnarsdóttur og börnunum þeirra tveimur. Helga starfar sem verkefnastjóri hjá Embætti landlæknis og er söngkona í hjáverkum.

Hún syngur nýtt jólalag Björgvins Þórs Valdimarssonar, Það koma alltaf aftur jól, sem kom út í desember.

„Samstarf okkar Björgvins hófst þegar hann birtist eins og þruma úr heiðskíru lofti á tónleikum hjá mér í Fríkirkjunni.“ Helga segir þau hafa tekið tal saman eftir tónleikana og að afraksturinn hafi verið jólalagið sem Björgvin samdi.

Helga á ekki langt að sækja tónlistarhæfileikana enda báðir foreldrar hennar klassískir tónlistarmenn og sjálf hóf hún klassískt píanónám við Tónlistarskólann á Akureyri þegar hún var þriggja ára.

Ljósmynd/Aðsend
Ljósmynd/Aðsend

Góðar minningar frá Manchester

Þegar Helga var sjö ára fluttist fjölskyldan til Manchester þar sem pabbi hennar fór í mastersnám í klassískum söng. Hverfið sem þau bjuggu í var mjög blandað, að sögn Helgu, og garðurinn stór.

„Pabbi og mamma keyptu strax rólur og hjól og vinirnir streymdu til okkar sem varð til þess að við náðum enskunni mjög fljótt og Manchester-mállískunni.“

Ljósmynd/Aðsend


Þetta ár sem þau bjuggu í Manchester standa helst upp úr minningabrotin úr gönguferðum sem Helga fór í með foreldrum sínum. Þau gengu ýmist upp í Pennína-fjöllin eða í Debdale-garðinn, trjá-og blómagarð þar sem oftar en ekki voru íkornar að leik.

Helgu er einnig minnisstætt þegar þau fóru í innandyra tívólíið Gmex. „Þetta var gömul járnbrautarstöð sem breytt var í aðstöðu fyrir stórar sýningar og ýmsa viðburði og er enn í fullum gangi.“

Ljósmynd/Aðsend

Blandaðar jólahefðir

Allt þar til þau fluttu til Manchester höfðu þau haldið aðfangadag hátíðlegan heima hjá móðurömmu hennar á Akureyri og voru það „hefðbundin íslensk jól“. Móðir hennar og amma voru duglegar við að baka smákökur og ein jólin voru sortirnar 22. „En nú bakar mamma átta.“

Faðir Helgu er enskur og þau héldu ávallt ensk jól á jóladag ásamt tveimur öðrum fjölskyldum. Þá var kalkúnn með öllu tilheyrandi s.s. brauðsósu, rósakáli og trönuberjahlaupi og jólabúðingur með vanillusósu, rjóma og koníakssmjöri í eftirmat.

„Þegar við fluttum út til Manchester kynntumst við aðdraganda jólanna í skólanum og í borgarlífinu.“ Amma og afi Helgu, sem búsett voru í Nottingham, buðu þeim systrum á jólasýningu (Pantomine-sýningu), sér breskt fyrirbæri þar sem ruglað er saman klassískum ævintýrum og áhorfendur taka fullan þátt með framíköllum.

„Þetta er mér mjög minnisstætt.“

Ljósmynd/Aðsend

Ýmsar jólahefðir komu með foreldrum Helgu frá Bandaríkjunum, þar sem þau bjuggu áður, t.d. að þræða poppkorn upp á tvinna og búa til lengjur sem sveipað er yfir jólatréð eins og jólasnjó.

Eftir búsetuna í Manchester bættust við enskar hefðir og þannig hefur fjölskyldan blandað saman því besta frá jólahefðum þriggja landa og búið til sína eigin. 

Ljósmynd/Aðsend
Ljósmynd/Aðsend

Tónlistin alltaf átt hugann og hjartað

Helga stundaði píanónámið við Tónlistarskólann á Akureyri til tvítugs. Hún segir að upphaflega hafi stefnan verið að fara erlendis í frekara nám og leggja píanóið alfarið fyrir sig. Hins vegar var hún einnig yfirþjálfari hjá Skautafélagi Akureyrar og tók þátt í að byggja upp öfluga listhlaupadeild félagsins.

„Ég brann fyrir því starfi og ákvað að vera áfram á Akureyri og skráði mig í nám í hjúkrun við Háskólann á Akureyri og útskrifaðist þaðan 2007.“

Árið 2010 fluttist hún til Reykjavíkur og hóf nám í lýðheilsufræðum við Háskóla Íslands þaðan sem hún útskrifaðist 2013. „En tónlistin blundaði alltaf í mér.“

Ljósmynd/Aðsend

Helga og systir hennar stofnuðu hljómsveitina Sister Sister og hófu að spila hingað og þangað um bæinn. Nokkrum árum síðar skráði Helga sig í Tónlistarskóla FÍH og útskrifaðist þaðan í maí 2024 með burtfararpróf í rytmískum söng.

„Eftir það hefur boltinn farið að rúlla,“ segir Helga enda hefur hún átt í nógu að snúast við að koma fram með reyndu tónlistarfólki, í Reykjavík og á Akureyri. Þá má segja að fókusinn hafi verið á hinsegin tónlist og gaf hún út sitt fyrsta lag í ágúst, Chasing Rainbows, sem hún tileinkaði trans einstaklingum. Þrátt fyrir þann fókus ná tónsmíðar hennar þvert á allar tónlistarstefnur eins og heyra má á EP-plötu sem væntanleg er frá henni komandi vor.

Ljósmynd/Aðsend
Ljósmynd/Aðsend
Ljósmynd/Aðsend
Ljósmynd/Aðsend
mbl.is