Skattamál verði líklega „þeirra mesta klemma“

Alþingiskosningar 2024 | 21. desember 2024

Skattamál verði líklega „þeirra mesta klemma“

Hlutfall kvenna í nýju ríkisstjórninni er mjög hátt í sögulegu samhengi og öðruvísi bragur er á forystumönnum stjórnarflokkanna heldur en hjá fyrri stjórnum. Fyrirheit um talsvert aukin útgjöld án þess þó að hækka skatta gæti reynst ríkisstjórninni áskorun.

Skattamál verði líklega „þeirra mesta klemma“

Alþingiskosningar 2024 | 21. desember 2024

Ólafur Þ.Harðarson stjórnmálafræðingur ræddi við mbl.is um nýju ríkisstjórnina.
Ólafur Þ.Harðarson stjórnmálafræðingur ræddi við mbl.is um nýju ríkisstjórnina. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hlutfall kvenna í nýju ríkisstjórninni er mjög hátt í sögulegu samhengi og öðruvísi bragur er á forystumönnum stjórnarflokkanna heldur en hjá fyrri stjórnum. Fyrirheit um talsvert aukin útgjöld án þess þó að hækka skatta gæti reynst ríkisstjórninni áskorun.

Hlutfall kvenna í nýju ríkisstjórninni er mjög hátt í sögulegu samhengi og öðruvísi bragur er á forystumönnum stjórnarflokkanna heldur en hjá fyrri stjórnum. Fyrirheit um talsvert aukin útgjöld án þess þó að hækka skatta gæti reynst ríkisstjórninni áskorun.

Þetta segir Ólafur Þ. Harðarson, prófessor emeritus í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, í samtali við mbl.is um nýja ríkisstjórn Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Flokks fólksins.

„Það sem vekur fyrst athygli er að þetta er mikil kvennastjórn. Það hefur ekki gerst áður að þrjár konur leiði stjórnarflokkanna og svo erum við með sjö konur af ellefu í ríkisstjórninni, sem mér reiknar til að séu 64% konur. Ég veit ekki hvort það nái því að vera heimsmet en það er að minnsta kosti nálægt því,“ segir hann.

Boða stóraukin útgjöld en engar skattahækkanir 

Spurður hverjar helstu áskoranir þessarar ríkisstjórnar gætu verið næstu árin segir Ólafur að það gæti til dæmis verið skattamál í ljósi loforða um aukin útgjöld.

„Annars vegar þá boða þær í rauninni aðgerðir í velferðarmálum sem munu kosta mjög mikið, þó að margt af því eigi ekki að koma til framkvæmdar fyrr en líður á kjörtímabilið, en svona þegar líður fram þá gætu þær staðið fyrir því að það reynist erfitt að efna þeirra áætlanir um aukin útgjöld án þess að hækka skatta,“ segir Ólafur.

Ný ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur fyrir utan Bessastaði í dag.
Ný ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur fyrir utan Bessastaði í dag. mbl.is/Eyþór

Í stjórnarsáttmálanum segir meðal annars að rík­is­stjórn­in muni hækka ör­orku- og elli­líf­eyri á hverju ári til sam­ræm­is við hækk­un launa­vísi­tölu en þó aldrei minna en verðlag.

Þá á al­mennt frí­tekju­mark elli­líf­eyr­is að hækk­a í skref­um upp í 60 þúsund krón­ur á mánuði, tekið verður upp frí­tekju­mark elli­líf­eyr­is vegna vaxta­tekna og dregið úr skerðing­um líf­eyr­is vegna at­vinnu­tekna. Allt mun þetta kosta talsverða fjármuni. 

„Þær segjast ætla bara að auka auðlindagjöldin, herða skatteftirlit og vonast til þess að aukin framleiðni standi undir auknum kostnaði. Þó að það sé allt góðra gjalda vert þá er það nú oft þannig að þú getur ekki aukið verulega opinbera þjónustu án þess að á móti komi einhverjar skattahækkanir,“ segir Ólafur og bætir við:

„Þannig ég myndi halda að þetta væri líklegt til að verða þeirra mesta klemma.”

Stuttur stjórnarsáttmáli gæti reynst áskorun

Hann nefnir að önnur áskorun gæti verið sú að sökum þess hversu stuttur stjórnarsáttmálinn er, þá þurfi mikið traust að ríkja á milli formannanna.

Í löngum stjórnarsáttmálum eru flokkar venjulega fyrir fram búnir að koma sér saman um lausn í málum en með styttri stjórnarsáttmála þurfi að reiða sig á það að formennirnir nái saman jafnóðum.

„Og ef það tekst að halda slíku trausti út kjörtímabilið þá er engin ástæða til að ætla annað en að það geti gengið prýðilega,“ segir Ólafur.

Öðruvísi blær yfir stöllunum

Hann segir að það sé allt öðruvísi blær yfir Kristrúnu Frostadóttur, formanni Samfylkingarinnar, Þorgerði K. Gunnarsdóttur, formanni Viðreisnar, og Ingu Sæland, formanni Flokks fólksins, heldur en yfir fyrri stjórnarformönnum.

„Það er miklu meiri léttleiki yfir þeim, þær eru brosandi, það er greinilega mikið traust á milli þeirra og þær leyfa sér glaðlegri stíl heldur en karlarnir hafa venjulega gert. Þetta er hins vegar ekki á kostnað þess að þær greini skilmerkilega frá því hvað þær ætla að gera,“ segir Ólafur.

Stjórnarmyndunarviðræðurnar stóðu yfir í minna en þrjár vikur og það telst vera stuttur tími ef miðað er við hversu lengi stjórnarmyndunarviðræður hafa staðið yfir á síðustu árum.

Í sögunni sé þó að finna nokkur dæmi þess efnis að stjórnarmyndunarviðræður taki styttri tíma og nefnir hann sem dæmi Viðeyjarstjórnina sem var mynduð árið 1991.

mbl.is