Stefnuyfirlýsing, sem oft er kölluð stjórnarsáttmáli, Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins var kynntur í Hafnarborg í Hafnarfirði í dag.
Stefnuyfirlýsing, sem oft er kölluð stjórnarsáttmáli, Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins var kynntur í Hafnarborg í Hafnarfirði í dag.
Hér að neðan má lesa stefnuyfirlýsinguna í heild sinni:
Ný ríkisstjórn gengur samstíga til verka.
Fyrsta verk er að ná stöðugleika í efnahagslífi og lækkun vaxta, með styrkri stjórn á fjármálum ríkisins.
Um leið mun ríkisstjórnin rjúfa kyrrstöðu og vinna að aukinni verðmætasköpun í atvinnulífi.
Lífskjör landsmanna verða bætt með samstöðu um þessi verkefni. En fleira þarf til. Ríkisstjórnin setur húsnæðisöryggi fólks í forgang með bráðaaðgerðum og kerfisbreytingum til lengri tíma. Þá verður gripið til aðgerða til að uppræta fátækt og lyfta greiðslum almannatrygginga til tekjulægri lífeyrisþega.
Ríkisstjórnin hyggst einfalda stjórnsýslu og hagræða í ríkisrekstri. Í því efni verður stigið fram af festu strax í upphafi kjörtímabils. Samhliða því mun ríkisstjórnin fjárfesta í innviðum til að auka verðmætasköpun og efla heilbrigðis- og velferðarþjónustu um land allt.
Sérstaklega verður hugað að íslenskri tungu, menningu og náttúru til að varðveita og styrkja sjálfsmynd þjóðar. Mannréttindi og virðing fyrir fjölbreytileika verða leiðarstef og leitast verður við að skapa breiða sátt um þau málefni sem skipta þjóðina mestu.
Markmiðum sínum hyggst ríkisstjórnin ná með eftirfarandi aðgerðum:
- Með því að ná stjórn á fjármálum ríkisins og skapa skilyrði fyrir lækkun vaxta, m.a. með stöðugleikareglu og stöðvun hallareksturs. Eitt af forgangsverkefnum nýrrar ríkisstjórnar verður að hagræða, einfalda stjórnsýslu og sameina stofnanir. Á sama tíma hyggst ríkisstjórnin bæta skattskil, loka glufum og fækka undanþágum í skattkerfinu.
- Með mótun auðlindastefnu um sjálfbæra nýtingu og réttlát auðlindagjöld sem renni að hluta til nærsamfélags. Ríkisstjórnin mun hafa forgöngu um að samþykkt verði ákvæði í stjórnarskrá um auðlindir í þjóðareign.
- Með því að auka fjárfestingu í samgöngum og hefja kraftmiklar framkvæmdir um land allt. Ríkisstjórnin mun rjúfa kyrrstöðu í jarðgangagerð og vinna á viðhaldsskuld í vegakerfinu. Ráðist verður í mikilvægar úrbætur í samræmi við samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins til að greiða fyrir umferð á stofnvegum, efla almenningssamgöngur og styðja við fjölbreytta ferðamáta. Hafist verður handa við framkvæmd Sundabrautar og verkefnið fjármagnað með innheimtu veggjalda.
- Með bráðaaðgerðum til að fjölga íbúðum hratt og kerfisbreytingum sem miða að jafnvægi á húsnæðismarkaði. Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir því að fleiri íbúðir nýtist sem heimili fólks, m.a. með breyttum reglum um skammtímaleigu, auk þess að liðka fyrir uppbyggingu á færanlegum einingahúsum og umbreytingu atvinnuhúsnæðis í íbúðir. Ríkislóðir verða nýttar til uppbyggingar, regluverk einfaldað í mannvirkja- og skipulagsmálum og stigin skref til að minnka vægi verðtryggingar. Hlutdeildarlán verða fest í sessi með skilvirkari framkvæmd, staða leigjenda styrkt og stutt við húsnæðisfélög án hagnaðarsjónarmiða. Þá vill ríkisstjórnin hvetja til aðkomu lífeyrissjóða að húsnæðismarkaði og til byggingar á nýjum íbúðahverfum, svo sem með heildstæðum samningum við sveitarfélög um lóðaframboð og innviðauppbyggingu.
- Með atvinnustefnu sem stuðlar að sjálfbærum vexti atvinnugreina, aukinni framleiðni og heilbrigðum vinnumarkaði. Ný ríkisstjórn hyggst taka fast á félagslegum undirboðum, m.a. með því að herða eftirlit með starfsmannaleigum, innleiða keðjuábyrgð í stærri verklegum framkvæmdum, efla heimildir til vinnustaðaeftirlits og lögfesta skýrari refsiákvæði vegna vinnumansals.
- Með aðgerðum til að auka orkuöflun, styrkja flutningskerfi og bæta orkunýtni þannig að stutt verði við orkuskipti og verðmætasköpun um allt land. Ferli leyfisveitinga verður einfaldað, tímafrestir lögbundnir og verkefni í nýtingarflokki rammaáætlunar látin njóta forgangs í stjórnsýslu orkumála. Ríkisstjórnin mun vinna að breiðri sátt um lagaumgjörð vindorkunýtingar og sjá til þess að stærri hluti tekna af orkumannvirkjum renni til nærsamfélags. Raforkulögum verður breytt til að tryggja forgang heimila og almennra notenda.
- Með markvissum loftslagsaðgerðum svo að Ísland nái kolefnishlutleysi fyrir árið 2040 og verði áfram í fremstu röð í baráttu gegn hnattrænni hlýnun. Ríkisstjórnin mun ýta undir orkuskipti í samgöngum og iðnaði, vinna gegn losun frá landi og greiða götu tæknilausna og nýsköpunar á sviði loftslagsmála. Þá verður stutt við líffræðilega fjölbreytni og ráðist í aðgerðir til að vernda hafsvæði og ósnortin víðerni.
- Með því að stöðva strax kjaragliðnun launa og lífeyris og stíga stór skref til að uppræta fátækt. Ríkisstjórnin mun hækka örorku- og ellilífeyri á hverju ári til samræmis við hækkun launavísitölu en þó aldrei minna en verðlag. Almennt frítekjumark ellilífeyris hækkar í skrefum upp í 60 þúsund krónur á mánuði, tekið verður upp frítekjumark ellilífeyris vegna vaxtatekna og dregið úr skerðingum lífeyris vegna atvinnutekna. Sérstökum hagsmunafulltrúa eldra fólks verður falið að standa vörð um réttindi þess. Bundið verður í lög að aldursviðbót á lífeyri öryrkja haldist ævilangt. Þá verður gripið til frekari aðgerða til að bæta grunnframfærslu tekjulágra lífeyrisþega umfram vísitöluþróun. Við innleiðingu á nýju örorkulífeyriskerfi verður litið til þess að tryggja sjálfstæði og afkomuöryggi öryrkja.
- Með því að lögfesta samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og fjármagna þann fjölda samninga um notendastýrða persónulega aðstoð (NPA) sem gefin hafa verið fyrirheit um. Stofnaður verður aðgengis- og aðlögunarsjóður til að styrkja fatlað fólk til breytinga á húsnæði. Stutt verður við atvinnuþátttöku fatlaðs fólks og hugað sérstaklega að stöðu þess í menntakerfinu.
- Með því að vinna að fjölbreytni í atvinnulífi, sterku samkeppniseftirliti, öflugri neytendavernd og hagstæðum rekstrarskilyrðum fyrirtækja. Ríkisstjórnin hyggst auka skilvirkni í samskiptum fyrirtækja og hins opinbera. Áfram verður stutt við vöxt hugverkaiðnaðar, nýsköpunar og tækni. Unnið verður að skýrri lagaumgjörð um gervigreind.
- Með því að stuðla að verðmætasköpun, öryggi og álagsstýringu í ferðaþjónustu. Vinsælustu ferðamannastaðir landsins eru í eigu þjóðarinnar og ríkisstjórnin hyggst taka upp auðlindagjald fyrir aðgang ferðamanna að náttúruperlum Íslands. Á meðan unnið er að útfærslu verða innheimt komugjöld.
- Með því að ýta undir vöxt og verðmætasköpun í matvælaframleiðslu. Í sjávarútvegi verða gerðar auknar kröfur um gagnsæi í eignarhaldi og skerpt á skilgreiningu tengdra aðila. Ríkisstjórnin mun tryggja 48 daga til strandveiða. Gripið verður til aðgerða til að efla nýsköpun í landbúnaði, auðvelda nýliðun og kynslóðaskipti og draga úr orkukostnaði garðyrkjubænda. Jarðalögum verður breytt til að vinna gegn samþjöppun og stuðla að nýtingu á ræktarlandi til búrekstrar. Ríkisstjórnin mun styrkja lagaumgjörð fiskeldis til að sporna gegn neikvæðum áhrifum á lífríki og innleiða hvata til eldis á ófrjóum laxi og til eldis í lokuðum kvíum.
- Með því að styðja við listir og menningu með myndarlegum hætti. Lögð verður áhersla á að auka aðgengi landsmanna að menningarlífi óháð efnahag og búsetu. Ríkisstjórnin mun hlúa að íslenskri tungu og menningararfi þjóðarinnar og leitast við að auka enn frekar útflutning og verðmætasköpun í skapandi greinum.
- Með fjárfestingu sem styrkir stoðir heilbrigðis- og öldrunarþjónustu um land allt. Ríkisstjórnin mun leiða þjóðarátak í umönnun eldra fólks, m.a. fjölga hjúkrunarrýmum og efla heimahjúkrun, og vinna að þjóðarmarkmiði um fastan heimilislækni fyrir alla landsmenn. Sérstök áhersla verður lögð á að stytta biðlista barna, auka aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu og fjármagna meðferðarúrræði vegna fíknivanda. Skipulega verður dregið úr skriffinnsku í heilbrigðiskerfinu með hagnýtingu tækni og nýsköpunar. Áfram verður stuðst við fjölbreytt rekstrarform þó að þungamiðja þjónustunnar verði í opinberum rekstri.
- Með því að hefja sókn í menntamálum og bæta umhverfi nemenda og kennara. Lögð verður áhersla á íslenskukennslu, læsi og aðgengi að fjölbreyttum námsgögnum. Styðja þarf skólakerfið til að mæta áskorunum, tryggja inngildingu barna sem ekki hafa íslensku að móðurmáli og snemmtæka íhlutun fyrir börn með fjölþættan vanda. Framhaldsskólar og háskólar fá stuðning til að efla menntun, nýsköpun og aðgengi um allt land, auk þess sem hugað verður sérstaklega að iðnog verknámi, sí- og endurmenntun og raunfærnimati. Ríkisstjórnin hyggst móta ungmennastefnu og beita sér fyrir jöfnu aðgengi allra barna að íþróttum, listum og frístundastarfi. Skoðað verður hvort setja eigi samræmdar reglur um notkun snjalltækja og samfélagsmiðla í skólum.
- Með því að leggja áherslu á jafna stöðu og jöfn réttindi allra, standa með jaðarsettum hópum og uppræta rótgróna fordóma í samfélaginu, m.a. með jafnréttis- og hinseginfræðslu. Áfram verður unnið að því að leiðrétta kerfisbundið vanmat á virði kvennastarfa. Ríkisstjórnin einsetur sér að vinna gegn sundrung og tortryggni og byggja undir traust og samheldni í íslensku samfélagi.
- Með því að innflytjendur fái tækifæri til að læra íslensku og taka virkan þátt í samfélaginu. Ríkisstjórnin vill gæta samræmis við reglur nágrannaríkja á sviði útlendingamála og styrkja stjórnsýslu til að tryggja mannúðlegt og skilvirkt móttökukerfi fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd. Heimilt verður að afturkalla alþjóðlega vernd og brottvísa fólki sem fremur alvarleg afbrot eða ógnar öryggi ríkisins.
- Með því að auka öryggi almennings og fjölga verulega lögreglumönnum á kjörtímabilinu. Tekið verður fast á skipulagðri glæpastarfsemi, netbrotum, mansali og kynbundnu ofbeldi. Samhliða þessu verða aðrir þættir réttarkerfisins styrktir til að tryggja hraða og örugga málsmeðferð.
- Með því að bæta samskipti ríkis og sveitarfélaga og treysta stoðir hinna dreifðu byggða. Áhersla verður lögð á jafnt aðgengi að heilbrigðisþjónustu og annarri opinberri þjónustu, óháð búsetu. Unnið verður að eflingu fjarskiptainnviða á landsbyggðinni og frekari skref stigin til jöfnunar á dreifikostnaði raforku.
- Með breytingum á fæðingarorlofskerfinu til að styrkja afkomuöryggi fjölskyldna. Tryggt verður að tekjulægri foreldrar haldi óskertum tekjum í fæðingarorlofi. Ríkisstjórnin mun hækka fæðingarstyrki námsmanna og fólks utan vinnumarkaðar og bæta hag fjölburaforeldra og þeirra sem veikjast í kjölfar fæðingar eða á meðgöngu. Þróun barnabóta verður komið í fastar skorður svo að fjárhæðir fylgi launaþróun og stuðningur haldist stöðugur.
- Með því að vinna áfram með Grindavíkurbæ og framkvæmdanefnd um málefni Grindavíkur að viðunandi lausn fyrir sveitarfélagið og íbúa þess, atvinnurekendur og fasteignaeigendur.
- Með breytingu á kosningalögum til að auka jafnræði í atkvæðavægi og þingsætadreifingu.
- Með utanríkisstefnu sem byggir á mannréttindum, friði, virðingufyrir alþjóðalögum og náinni samvinnu við Evrópusambandið, önnur norræn ríki og Atlantshafsbandalagið. Mótuð verður öryggis- og varnarmálastefna. Þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu fer fram eigi síðar en árið 2027. Í upphafi kjörtímabilsins verður óháðum erlendum sérfræðingum falið að vinna skýrslu um kosti og galla krónunnar og valkosti Íslands í gjaldmiðlamálum.