Bjarni Benediktsson, þingmaður og formaður Sjálfstæðisflokksins, segir starf forsætisráðherra vera krefjandi starf þar sem þurfi að vanda hvert skref. Þá sé mikilvægt að ríkisstjórnin gangi í takt við þingið sem sé vagga lýðræðisins.
Bjarni Benediktsson, þingmaður og formaður Sjálfstæðisflokksins, segir starf forsætisráðherra vera krefjandi starf þar sem þurfi að vanda hvert skref. Þá sé mikilvægt að ríkisstjórnin gangi í takt við þingið sem sé vagga lýðræðisins.
Bjarni Benediktsson, þingmaður og formaður Sjálfstæðisflokksins, segir starf forsætisráðherra vera krefjandi starf þar sem þurfi að vanda hvert skref. Þá sé mikilvægt að ríkisstjórnin gangi í takt við þingið sem sé vagga lýðræðisins.
Bjarni afhenti Kristrúnu Frostadóttur forsætisráðherra lyklana að forsætisráðuneytinu í dag klukkan 13.
Spurður hvaða ráð fyrrverandi forsætisráðherrann hafi til þess nýja segir Bjarni að það skipti máli að gera sér grein fyrir því að starfið sé krefjandi.
„Það eru engar einfaldar lausnir til á stórum verkefnum en ef menn leggja snemma af stað, gefa sér tíma og vanda undirbúninginn þá er hægt að ná miklum árangri.“
Nefnir hann að hann hafi setið í ríkisstjórn frá árinu 2013 og hafi samfélagið á þeim tíma séð stórkostlegar breytingar í þágu heimila og atvinnustarfsemi.
„Hér hefur verið mikill hagvöxtur og það byggir á því að hafa sýn til lengri tíma. Þannig að það þarf bara að vanda hvert skref en gera sér grein fyrir því að dagarnir eru misjafnir og aðstæður í stjórnmálum geta breyst á einni nóttu.“
Spurður um hvað beri að varast segir Bjarni að menn þurfi að gera sér grein fyrir því að valdið í íslenskum stjórnmálum liggi á endanum hjá þinginu.
„[...] og það er vagga lýðræðisins. Ef ríkisstjórnin gengur ekki í takt við þingið, sem er kosið af þjóðinni, þá boðar það almennt ákveðin vandræði.
Þannig að lýðræðisleg vinnubrögð þar sem þingið er ákveðin þungamiðja umræðunnar og ákvarðanatöku um stóru og breiðu línurnar, það er eitthvað sem ég held að aldrei megi gleymast,“ segir Bjarni og heldur áfram:
„Þó að fólk flytjist úr þinginu í Stjórnarráðið þá breytir það engu um það að þingið er vettvangurinn þar sem valdið á endanum liggur.“
Nú hefur þú áður verið í stjórnarandstöðu, hvað er skemmtilegast?
„Ég var í tíu ár þingmaður áður en ég fór í Stjórnarráðið og þar starfaði ég bæði í meirihluta og síðan heilt kjörtímabil í stjórnarandstöðu. Í stjórnarandstöðunni mun Sjálfstæðisflokknum gefast tækifæri til þess að skerpa á eigin áherslumálum og flytja þau út til þjóðarinnar. Veita ríkisstjórninni aðhald á eigin forsendum án málamiðlana við aðra flokka í stjórnarandstöðunni. Þetta eru mikil tækifæri fyrir hvern og einn þingmann Sjálfstæðisflokksins en líka fyrir flokkinn í heild. Okkur mun sömuleiðis gefast meira rými til þess að rækta samtalið við flokksmenn og líta inn á við,“ segir Bjarni og heldur áfram:
„Það er skemmtilegt. Menn eru ekki með jafn frjálsar hendur í stjórnarsamstarfi, og sérstaklega þriggja flokka samstarfi, eins og á við í stjórnarandstöðu. Kannski getum við sagt að á síðasta kjörtímabili þá hafi mörgum kannski þótt nóg um að einstakir þingmenn stjórnarflokkanna, og á köflum Sjálfstæðisflokksins, hafi einmitt viljað tala frjálsri röddu um sín hugarefni og menn litu á það sem veikleika fyrir stjórnina, þannig það er allt önnur staða að vera í stjórnarandstöðu í þessu tilliti.“
Bjarni gengst við því að meiri frítími fylgi brottför úr ríkisstjórn og segir að í raun sé ekki hægt að tala um frítíma þegar menn sitja í ríkisstjórn og þá sérstaklega þegar þeir eru í forystu fyrir flokk á sama tíma eða í forsætisráðuneytinu.
„Engu að síður er það áfram, á meðan ég er formaður flokksins, mjög mikil skuldbinding. Þeir sem að mest munu njóta góðs af því að ég hafi meiri tíma aflögu er fjölskyldan og það er nú kannski það sem ég er nú fyrst og fremst að hugsa um.
Þegar maður er í forystu í stjórnmálum þá er maður ekki bara að skuldbinda sjálfan sig heldur er maður að leggja mjög mikið á sína fjölskyldu í leiðinni,“ segir fyrrverandi forsætisráðherrann að lokum.