Blaðamaðurinn eins og trójuhestur á hótelinu

Dagmál | 23. desember 2024

Blaðamaðurinn eins og trójuhestur á hótelinu

„Fljótlega lendi ég í brekku þarna, ekkert ósvipað og hjá Fram,“ sagði Hannes Þór Halldórsson, fyrrverandi landsliðsmarkvörður Íslands í fótbolta, í Dagmálum.

Blaðamaðurinn eins og trójuhestur á hótelinu

Dagmál | 23. desember 2024

„Fljótlega lendi ég í brekku þarna, ekkert ósvipað og hjá Fram,“ sagði Hannes Þór Halldórsson, fyrrverandi landsliðsmarkvörður Íslands í fótbolta, í Dagmálum.

„Fljótlega lendi ég í brekku þarna, ekkert ósvipað og hjá Fram,“ sagði Hannes Þór Halldórsson, fyrrverandi landsliðsmarkvörður Íslands í fótbolta, í Dagmálum.

Hannes Þór, sem er fertugur, lagði skóna á hilluna haustið 2021 eftir afar farsælan feril þar sem hann var í lykilhlutverki hjá íslenska landsliðinu og fór á tvö stórmót með liðinu.

Gerði mistök gegn Ajax

Hannes Þór gekk til liðs við NEC Nijmegen í hollensku úrvalsdeildinni árið 2015 en hann gerði sig sekan um mistök í fyrstu leikjum sínum með liðinu.

„Ég gerði mistök í heimaleik á móti Ajax, ég fæ skot á mig og boltinn skoppar aðeins hærra en ég hafði reiknað með, og þarna fæ ég yfir mig alla heimsins pressu um að gæti ekki neitt,“ sagði Hannes.

„Ég sá það í andlitinu á markmannsþjálfaranum að það væri verið að tala um það og þá var komin mikil pressa í næsta leik. Þar tekst mér að halda hreinu en það var líka síðasti leikurinn fyrir landsleikinn gegn Hollandi á útivelli í undankeppni EM 2016,“ sagði Hannes.

Þurftu bara að hitta á markið

Ísland vann frækinn sigur gegn Hollandi í Amsterdam, 1:0, þar sem Hannes Þór stóð vaktina vel í markinu.

„Við vorum nálægt því að komast á EM þarna og það fylgir því alltaf pressa að spila landsleik. Ofan á þetta beindust spjótin að mér persónulega því einhverjir töldu að ég væri ekki nægilega góður til að spila í Hollandi.

Það kom til mín hollenskur blaðamaður fyrir leikinn og hann var eins og trójuhestur. Hann fór að segja mér allt sem allir voru að segja, hluti sem ég var búinn að reyna að blokka, daginn fyrir leik. Hann sagði mér að fólk talaði um það að Hollendingar þyrftu nú bara að hitta á markið til að skora og að leikurinn færi 7:0 með mig í markinu. 

Þú getur því rétt ímyndað þér tilfinninguna sem fylgdi því að vinna Holland 1:0 á útivelli og halda markinu hreinu í þokkabót,“ sagði Hannes Þór meðal annars.

Viðtalið við Hannes Þór í heild sinni má nálgast með því að smella hér eða á hlekkinn hér fyrir ofan.

Hannes Þór Halldórsson fagnar eftir sigurinn gegn Hollandi í Amsterdam.
Hannes Þór Halldórsson fagnar eftir sigurinn gegn Hollandi í Amsterdam. mbl.is/Skapti Hallgrímsson
mbl.is