„Ég er þvílík preppdrottning þegar kemur að mat“

Uppskriftir | 23. desember 2024

„Ég er þvílík preppdrottning þegar kemur að mat“

Sólveig Gyða Jónsdóttir lifir og hrærist í bakstri og eldamennsku en hún hefur starfað sem heimilisfræðikennari til fjölda ára og kennir nú í Réttarholtsskóla. Hún elskar að undirbúa jólin og baka og hugsar til bernskuáranna þegar kemur að jólaundirbúningi. Hún gefur uppskriftina af þessum spesíum sem koma úr smiðju móður hennar.

„Ég er þvílík preppdrottning þegar kemur að mat“

Uppskriftir | 23. desember 2024

Sólveig er alin upp í sveit og man vel þegar …
Sólveig er alin upp í sveit og man vel þegar fjölskyldan fékk rafmagn. mbl.is/Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir

Sólveig Gyða Jónsdóttir lifir og hrærist í bakstri og eldamennsku en hún hefur starfað sem heimilisfræðikennari til fjölda ára og kennir nú í Réttarholtsskóla. Hún elskar að undirbúa jólin og baka og hugsar til bernskuáranna þegar kemur að jólaundirbúningi. Hún gefur uppskriftina af þessum spesíum sem koma úr smiðju móður hennar.

Sólveig Gyða Jónsdóttir lifir og hrærist í bakstri og eldamennsku en hún hefur starfað sem heimilisfræðikennari til fjölda ára og kennir nú í Réttarholtsskóla. Hún elskar að undirbúa jólin og baka og hugsar til bernskuáranna þegar kemur að jólaundirbúningi. Hún gefur uppskriftina af þessum spesíum sem koma úr smiðju móður hennar.

Ég baka þessar spesíur alltaf fyrir jólin. Mamma bjó kökurnar ávallt til og stundum voru súkkulaðidropar á þeim, þetta er æskuminning sem yljar og svo eru þær bara svo einfaldar og góðar. Þær eru úr gamalli matreiðslubók sem pabbi gaf mömmu á sínum tíma sem heitir bara Matreiðslubók og er eftir Jóninnu Sigurðardóttur en hún kom út á fyrri hluta 20. aldar,“ segir Sólveig sem er ekki bara góður kokkur og bakari heldur mikil saumakona.

„Mér finnst dásamleg hugleiðsla felast í því að sauma þjóðbúninga, það er töfrum líkt að vera með eitthvað í höndunum sem mun að öllum líkindum standa af sér tískustrauma, flíkur sem kannski verða enn í notkun eftir 100 ár, hver veit,“ segir hún.

Sólveig Gyða Jónsdóttir gefur uppskriftina af þessum spesíum sem koma …
Sólveig Gyða Jónsdóttir gefur uppskriftina af þessum spesíum sem koma úr smiðju móður hennar. mbl.is/Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir

Myndi aldrei setja upp svart tískujólatré

Sólveig segist ekki skreyta úr hófi fram um jólin. „Ég set alltaf eitthvert jólaskraut upp, oftast fáa hluti sem hafa einhverja tengingu í lífinu. Ég myndi aldrei setja upp „tískutré“ í svörtu,“ segir hún og brosir. „Ég geri aðventukrans fyrir hver jól, ekkert flókinn eða flottan samt. Einhvern laugardag á aðventunni fáum við hjónin svo barnabörnin okkar í heimsókn og gerum með þeim piparkökuhús, þau eru oft ansi hlaðin sælgæti, en þannig á það nú að vera, er það ekki? Þetta er alltaf virkilega góð stund.“

Þótti ekki við hæfi að setja upp jólaskrautið fyrr en á aðfangadag

Hún ólst upp á sveitabænum Þverá á Snæfellsnesi og segir að það hafi aldrei verið skreytt fyrr en á aðfangadag. „Það þótti bara ekki við hæfi, dagurinn var góður og að kvöldi var ávallt heitt hangikjöt með kartöflumús, kartöflum, uppstúf og grænum baunum. Ég man svo aðallega eftir niðursoðnum ávöxtum í eftirrétt með rjóma, fyrr gerði mamma frómas en það var fyrir mitt minni. Eflaust hefur það verið mikill vinnusparnaður að opna dósina og þeyta rjómann, mannmargt heimili og ég yngst af sjö systkinum.“

Pabbi málaði ljósaperur í jólalitum

Faðir hennar, Jón Gunnarsson, sett upp heimarafstöð árið 1951. „Við urðum því loksins alveg rafvædd, pabbi smíðaði líka frystiklefa þannig að þarna upp úr 1951 gat mamma gert rjómaís. það að hafa heimarafstöð þýddi líka að sett voru upp útiljós á streng milli fjárhúss og íbúðarhúss sem mislitar ljósaperur héngu í sem pabbi hafði málað með lakkmálningu. Svona jólaljós var ekki almennt hægt að hafa því rafmagn var dýrt og framleitt með dísilrafstöðvum á bæjum á þessum tíma.“ Sólveig segir að systkinin hafi undanfarin þrjú ár komið saman á sveitabænum sínum, Þverá, til að heiðra minningu foreldra sinna og þess að hafa fengið rafmagn á bæinn. „Við verjum deginum saman og í góðu yfirlæti og borðum hangikjöt. Við vorum í algerri forréttindastöðu að fá rafmagn á bæinn á þessum tíma, þetta voru mikil lífsgæði.“

Heldur enn í hangikjötshefðina

Í dag er aðfangadagur ósköp rólegur hjá okkur fjölskyldunni. „Ég er stundum með Riz á l'amande í hádeginu og svo er hangikjötið sett yfir suðu sem kemur hægt upp, ohh ég fæ bara vatn í munninn við tilhugsunina. Ég hélt hangikjötshefðinni og í mörg ár hef ég fengið besta kjöt sem hægt er að fá frá Halldóri bróður mínum og Áslaugu konu hans en þau eru bændur á Þverá, æskujörðinni minni. Nú er komið að því að fara á milli hjá börnunum svo hangikjötið heita er ekki alltaf á aðfangadag núna.“

„Mamma var snillingur í sósugerð“

Sólveig er mikill matgæðingur en hvar skyldi áhuginn hafa kviknað? „Matreiðsluáhuginn kemur til vegna þess að þegar maður fær góðan mat þá langar mann að gera eins, svo var mamma mín snillingur í sósugerð, það toppar fátt góða sósu,“ bætir hún við og segir auk þess að sennilega væri hún síst til í að sleppa jólahangikjötinu með kartöflumús á jólunum því það veki svo sterkar æskuminningar.

Bók er efst á jólagjafalista hennar í ár og hún segir nauðsynlegt að fá góða bók um hver jól. „Það er svo notalegt að eiga stund með sínum uppáhaldsrithöfundi. Bestu jólin eru þegar frænka mín, hún Vilborg Davíðsdóttir, sendir frá sér bók, en svo eru það Auður Ava og fleiri sem heilla á þessu sviði.“

Er þvílík „preppdrottning“

Skipulag er nokkuð sem Gyða segist vera góð í eða eins og hún orðar það: „Ég er þvílík „preppdrottning“ þegar kemur að mat og matarundirbúningi og er þekkt fyrir það enda get ég ekki gert hluti á síðustu stundu, ég held að þetta komi úr vinnunni. Ég meina það mætir enginn heimilisfræðikennari með tómar hendur, það þarf að gera klárt, panta inn, finna uppskriftir, passa að nýta allt hráefnið vel og ganga frá. Til að minnka jólastressið skrifa ég svo niður hvað á að fara í pakkana og spái í það nokkru fyrir jól.“

Spesíurnar hennar mömmu

Uppskriftin er á eina ofnplötu

  • 120 g hveiti
  • 60 g flórsykur
  • 100 g smjör, við stofuhita

Aðferð:

  1. Hnoðið allt hráefnið saman, búið síðan til lengjur og rúllið upp úr sykri.
  2. Setjið deigið síðan í kæli í u.þ.b. eina klukkustund, má einnig setja í frysti.
  3. Þegar þið takið deigið út kveikið þá á ofninum, stillið hann á 180°C og notið yfir/undirhita, ekki blástur.
  4. Takið deigið út og sneiðið í heldur þunnar sneiðar og raðið á ofnplötu, bakið í u.þ.b. 10 mínútur eða þar til kökurnar eru orðnar gullnar að lit.
  5. Ef þið viljið má setja súkkulaðibita á þegar kökurnar koma heitar út úr ofninum.
  6. Auðvelt er að stækka þessa uppskrift.
  7. Látið kólna á grind og njótið.
mbl.is