Rannsóknarsetur verslunarinnar hefur í nær 20 ár valið hvað er jólagjöf ársins. Þær hafa verið allt frá samverustundum og jogginggöllum upp
í nytjalist og GPS-staðsetningartæki. En hverjar voru jólagjafir ársins áratugina á undan? Margt áhugavert kemur í ljós þegar gamlar blaðagreinar og auglýsingar eru skoðaðar.
Rannsóknarsetur verslunarinnar hefur í nær 20 ár valið hvað er jólagjöf ársins. Þær hafa verið allt frá samverustundum og jogginggöllum upp
í nytjalist og GPS-staðsetningartæki. En hverjar voru jólagjafir ársins áratugina á undan? Margt áhugavert kemur í ljós þegar gamlar blaðagreinar og auglýsingar eru skoðaðar.
Rannsóknarsetur verslunarinnar hefur í nær 20 ár valið hvað er jólagjöf ársins. Þær hafa verið allt frá samverustundum og jogginggöllum upp
í nytjalist og GPS-staðsetningartæki. En hverjar voru jólagjafir ársins áratugina á undan? Margt áhugavert kemur í ljós þegar gamlar blaðagreinar og auglýsingar eru skoðaðar.
Þýskir hnotu- og birkilampar ásamt amerískum þriggja arma gólflömpum þykja eitt það flottasta sem hægt er að fá í stærri gerðina af jólapakka á 6. áratugnum.
Líka sérstök reykborð – með ljósum, öskubökkum, sígarettuboxi og vindlakveikjara. Það þótti ekkert dónalegt við að reykja inni, ekki einu sinni í fermingarveislum, og hvað þá að gefa sérstaka jólavindla, vindlaveski og zippo-kveikjara eða fallega heimilismuni sem geymdu sígarettur og hægt var að bera fram.
Annar pakki sem tók dálítið pláss undir trénu innihélt værðarvoð frá Álafossi og einum hlut var alls ekki pakkað inn; kæliskáp. Kæliskápur var jólagjöf þessara ára þegar hann varð að almenningseign en hafði áður verið gjöf þeirra efnuðu. Heimilistækin héldu innreið sína, hvort sem það voru hrærivélar, rafmagnsrakvélar, Baby-strauvélin eða Thor-þvottavélin.
Kjólar eru klassísk gjöf „handa henni“ og þótti sjálfsagt á efnaðri heimilum að skipta um kjól nokkrum sinnum á dag. Það var því hægt að gefa síðdegis- og kvöldkjóla og að sjálfsögðu greiðslusloppa. „Íslandsúlpan“ svokallaða var úlpa sem Vinnufatagerð Íslands framleiddi, hún var loðfóðruð, gjarnan með hettu, og konur jafnt sem karlar fengu slíka að gjöf.
„Heilsuhuggulegheit“ 6. áratugarins voru gigtarlampi og háfjallasól. Aðrar praktískar gjafir voru innkaupatöskur, gjarnan frá Ragnari Blöndal.
Eftir jólin glönnuðu karlmenn um göturnar með tékkneska Zeta-ferðaritvél, angandi af Old Spice og kannski klæddir í ný „Solid-jakkaföt“.
Eitt var æðið í pökkunum, en það voru lýsandi blóm í vasa, Kornelius Jónsson á Skólavörðustíg var meðal þeirra sem seldu, ýmist túlípana eða rósir. Keramik frá Funa tónaði vel við ljósin og hollenskir gangadreglar sómdu sér vel á löngum göngum.
Á meðan opnuðu börnin pakka sem innihéldu rafmagnsleikföng úr stáli og svo vinsæl voru þau að Rafmagnseftirlit ríkisins sá ástæðu til að auglýsa í blöðunum að þau mættu ekki selja meira en 32 volt. Þegar komið var upp í rúm var spánnýr Undraheimur dýranna lesinn.
Sérstök húsgögn fyrir börn, lítil borð og stólar sem hentuðu þeirra stærð, voru nýstárleg á 7. áratugnum og vinsæl til jólagjafa. Í litlum ruggustólum sátu því börnin með ítalskar brúður frá Furga en auk Barbie voru Tressy-brúðurnar vinsælar. Það var raunar allt vitlaust við jólatréð því „undraboltinn“ svokallaði fannst í annarri hverri barnagjöf, en hann hoppaði og skoppaði lengra en allir aðrar boltar, „superball“ hét hann upp á amerísku.
Alls kyns raftæki er sneru að útlitinu urðu vinsæl, svo sem Flamingo-hárþurrkan og svo útlitstæki sem voru ekki enn rafknúin, eins og Bellavita-magabeltið.
Stálhúsgögn og grillofnar í eldhúsið voru ofarlega á óskalistanum en stofugjafir voru rýjapúðar, kaffidúkar og klukkustrengir. Hestamynd eftir Halldór Pétursson var nokkuð sem margir óskuðu sér (sá sami og gerði merki Reykjavíkur og Grýluna og aðra karaktera í Vísnabókinni) og nú fengu margar húsmæður sérstaka símastóla í jólagjöf og Nilfisk-ryksugu. Unglingana langaði í skatthol og plötuspilara í unglingaherbergin sem og litfilmur og pelikana-penna.
Þarna mátti nota hatta án þess að þykja athyglissjúkur og rúskinnshattar voru vinsæl gjöf sem og treflahattar og -húfur. Ef þú gafst herranum þínum jakka varðstu að passa að hann væri með spæl, það er að segja þverbönd ofan á öxlunum.
Fyrir þessi jól varð alger sprenging í sölu á vindsængum til jólagjafa og segja má að nýstirni 7. áratugarins í jólagjöfum séu nuddtæki og -púðar. Relax-nuddpúðinn þá sérstaklega.
Á 8. áratugnum voru margir að safna í stell og fá kannski mjólkurkönnur eða sósuskál í hippalegu Taffel-, Maya- eða grænu Örnu-keramiksettin sænsku. Handmálaðir öskubakkar vekja lukku sem og nýtískulegir og góðir ljóskastarar til að lýsa upp málverk stofunnar. Svokallaður Feneyjakristall, til dæmis höfrungur, var góð gjöf sem og handofið veggteppi, frá Íran eða Afganistan. Mestu greifarnir gáfu fjölskyldunni viðarklæðningu í veggi og loft.
Loðfóðraður fatnaður, mokkaföt, kom upp úr hverjum bögglinum á fætur öðrum, einnig flauelsföt og flegnar herraskyrtur, til dæmis frá Faco. Þær slógu í gegn við támjóa herraskó.
Marga langaði til að fá almennilegar veðurniðurstöður og fengu loftvog með hreindýrshaus.
Börnin fengu spyrnubíla, bílabrautir og ofurmennið Súperman og óþokkann Lex Luthor ásamt Rally- og Útvegsspilinu.
Þeir sem voru nýmóðins gáfu kassettutæki, hljómplötur, sýningarvélar og sýningartjöld, gufubað, Canon-reiknivasavélar, og að sjálfsögðu statíf fyrir kassettur.
Eftirprentanir á myndum frægra listamanna voru gefnar sem og skákborð.
Það var hátíð í bæ á 9. áratugnum þegar djúpsteikingarpottur varð ein vinsælasta jólagjöf áratugarins og nú beið fjölskyldan eftir að djúpsteikja þorsk eftir jólin.
Alls kyns raftæki unnu hylli og jólin fóru að verða að hátíð raftækja. Allt frá krullubursta upp í litasjónvarp og örbylgjuofn. Allir fengu útvarpsklukkuvekjara. Krakkarnir báðu um geisladiska með hipphopptónlist í jólagjafir, nintendo-leikjatölvur og Trivial Pursuit. Bolluskálar undir rauðfjólubláa drykki áramótanna biðu innpakkaðar undir trénu og eldföst mót til að bera fram heita rétti. Kertastjakarnir „snjóboltarnir“ og sveppalamparnir úr Kosta Boda voru á óskalista margra sem og partígrill, þar sem hver og einn partígestur skóflaði osti, pylsum og beikoni á lítið grill á miðju borðstofuborðsins.
Vinsældir leikfanga fóru algerlega eftir hvaða bíómynd var vinsæl hverju sinni. Þannig var draugabanadót vinsælt undir lok áratugarins, þar sem hægt var að fá Sykurpúðakarlinn og draugamæli til að mæla ástand handanheimsins við tréð. Brúður höfðu nú öðlast málþroska og töluðu, samt ekki eins vel og nokkur vélmennin. Að finna góða gestaþraut undir trénu sló líka í gegn og eina eða tvær wilbur-brúður til að hengja upp á vegg.
9. áratugurinn er í seinni tíð orðinn viðurkenndur áratugur hallærislegheitanna og eitthvað bar því á innibrunnum á þessum árum og þó nokkrir fengu gosbrunn sem komið var fyrir í stigaholinu frá sinni heittelskuðu eða heittelskaða. Silkiblóm í næsta nágrenni gosbrunnsins voru ekki óalgeng gjöf heldur.
Hárböndin voru húfur þessara ára og kjólarnir voru að lúffa fyrir dragtinni. Þá voru allir á leiðinni út að trimma og fatnaður er tengdist trimminu var vinsæl gjöf.
Með tilkomu örbylgjuofnanna var hægt að kaupa ýmiss konar „aukabúnað“ fyrir ofninn, svo sem sérstök ílát til að poppa í, gufusuðuílát, steikingabretti og kjöthitamæla. Þessi búnaður er að mestu horfinn.
Heimabíó með bakhátalara, miðjuhátalara og útvarpsmagnara sprengdi þökin í úthverfunum (mátti ekki nota í timburhúsunum í miðbænum) á 10. áratugnum. Matvinnsluvélar bættu í hávaðann en landsfrægir kokkar lögðu nafn sitt við að elska hina og þessa tegundina af tryllitækjunum. Eilítið hljóðlátari voru brauðvélarnar enda áttu þær að vinna að nóttu til.
Mannhæðarháir stálkertastjakar voru gjöf sem erfitt var að pakka inn en vinsæl engu að síður, karlmenn óskuðu sér þess að fá vesti að gjöf og víðir náttbolakjólar voru undir trénu. Heimasímar, með alls konar hæfileikabúnaði, svo sem 10 númera minni, hraðvali, fjarstýranlegir og með tónvali, voru í mörgum bögglum enda talsvert í að gemsar og svo snjallsímar tryggðu stöðu sina.
Flíspeysur og útivistarfatnaður varð að risaiðnaði með auknum vinsældum hvers kyns hreyfingar hjá þjóðinni þar sem til dæmis vel þekktar íþróttagreinar eins og golf öðluðust alveg nýjan sess.