Engin hátíðahöld í Betlehem um jólin

Ísrael/Palestína | 24. desember 2024

Engin hátíðahöld í Betlehem um jólin

Annað árið í röð eru engar jólaskreytingar á torginu framan við Fæðingarkirkjuna í Betlehem sem stendur þar sem sagt er að Jesús Kristur hafi fæðst.

Engin hátíðahöld í Betlehem um jólin

Ísrael/Palestína | 24. desember 2024

Kaþólskar nunnur standa utan við aðalinnganginn að Fæðingarkirkjunni í Betlehem.
Kaþólskar nunnur standa utan við aðalinnganginn að Fæðingarkirkjunni í Betlehem. AFP/Hazem Bader

Annað árið í röð eru engar jólaskreytingar á torginu framan við Fæðingarkirkjuna í Betlehem sem stendur þar sem sagt er að Jesús Kristur hafi fæðst.

Annað árið í röð eru engar jólaskreytingar á torginu framan við Fæðingarkirkjuna í Betlehem sem stendur þar sem sagt er að Jesús Kristur hafi fæðst.

Og inni í kirkjunni rýfur aðeins söngur armenskra munka þögnina.

„Venjulega voru 3-4 þúsund manns inni í kirkjunni á þessum tíma,“ hefur AFP-fréttastofan eftir Mohammed Sabeh, öryggisverði í kirkjunni.

Betlehem tilheyrir Vesturbakkanum, svæði Palestínumanna. Ofbeldiverk á svæðinu hafa færst mjög í vöxt frá því stríðið á Gasasvæðinu braust út í október á síðasta ári. Og þótt frekar rólegt hafi verið í Betlehem hefur ástandið sett sinn svip á borgina. Erlendir ferðamenn, sem hafa verið helsta tekjulindin í Betlehem, sjást þar ekki lengur vegna stríðsins. Og Ísraelsher hefur hert takmarkanir á ferðafrelsi Palestínumanna með því að setja upp varðstöðvar víða á svæðinu. Anton Salman bæjarstjóri Betlehem segir við AFP að auk þeirra varðstöðva sem fyrir voru hafi Ísraelsher sett upp nýja vegartálma við bæinn.

Salman segir raunar að hátíðahöld í Betlehem í tilefni jólanna væru ekki viðeigandi í ljósi ástandsins á svæðum Palestínumanna.

„Við viljum sýna umheiminum að það eru ekki venjuleg jól í Betlehem,“ sagði hann.

Bænahald verður í kirkjunni og patríarki kaþólsku kirkjunnar mun koma frá Jerúsalem samkvæmt venju en jólahaldið verður að mestu á trúarlegum nótum í stað líflegra almennra hátíðahalda sem áður settu svip á Fæðingartorgið og kirkjuna.

Engir viðskiptavinir

Joseph Giacaman, eigandi minjagripaverslunar á Fæðingartorginu, segist nú aðeins opna verslunina einu sinni eða tvisvar í viku til að taka til vegna þess að þangað koma engir viðskiptavinir.

Annar minjagripakaupmaður, About, segir að margar fjölskyldur hafi misst viðurværi sitt vegna þess að ferðamenn komi ekki lengur til Betlehem.

Í elsta hluta Jerúsalem, sem er í átta kílómetra fjarlægð en hinum megin við vegginn sem Ísraelsmenn reistu á sínum tíma, hafa kristnir íbúar einnig dregið úr hátíðahöldum vegna jólanna. Þannig er ekkert jólatré við hliðið þar sem gengið er inn á svæðið og engar jólaskreytingar sjáanlegar.

Hert öryggisgæsla umhverfis Betlehem og versnandi efnahagsástand hafa leitt til þess að margir íbúar hafa flutt á brott, bæði Palestínumenn og kristnir. Salman borgarstjóri segist telja að um 470 kristnar fjölskyldur hafi flutt frá Betlehem á síðasta ári en um 11% af íbúum borgarinnar hafa tilheyrt kristnum söfnuðum.

Fayrouz Aboud, formaður Alliance Francaise í Betlehem, segir við AFP að margt ungt fólk hafi að undanförnu sótt frönskunámskeið til að búa sig undir að flytja til annarra landa vegna þess að það hafi misst alla von um bjartari framtíð á svæðinu.

mbl.is