„Ég fékk taugaáfall á staðnum og bara fraus“

Áhugavert fólk | 25. desember 2024

„Ég fékk taugaáfall á staðnum og bara fraus“

Hanna María Karlsdóttir hefur verið einn af burðarstólpum í leiklistarlífi þjóðarinnar í áraraðir, enda einn af okkar afkastamestu og hæfileikaríkustu leikurum. Ferill hennar teygir sig mörg ár aftur í tímann, alveg aftur til æskuáranna í Keflavík, þar sem fyrstu skrefin í leiklist voru tekin í byrjun sjöunda áratugarins. Hún útskrifaðist frá Leiklistarskóla Íslands árið 1978 og fékk strax fastráðningu sem leikkona hjá Leikfélagi Reykjavíkur, sem þá var til húsa í Iðnó, og var það engin önnur en Vigdís Finnbogadóttir, þáverandi leikhússtjóri, sem skrifaði undir fyrsta samning hennar. 

„Ég fékk taugaáfall á staðnum og bara fraus“

Áhugavert fólk | 25. desember 2024

Hanna María Karlsdóttir hefur átt afar farsælan feril.
Hanna María Karlsdóttir hefur átt afar farsælan feril. mbl.is/Karítas

Hanna María Karlsdóttir hefur verið einn af burðarstólpum í leiklistarlífi þjóðarinnar í áraraðir, enda einn af okkar afkastamestu og hæfileikaríkustu leikurum. Ferill hennar teygir sig mörg ár aftur í tímann, alveg aftur til æskuáranna í Keflavík, þar sem fyrstu skrefin í leiklist voru tekin í byrjun sjöunda áratugarins. Hún útskrifaðist frá Leiklistarskóla Íslands árið 1978 og fékk strax fastráðningu sem leikkona hjá Leikfélagi Reykjavíkur, sem þá var til húsa í Iðnó, og var það engin önnur en Vigdís Finnbogadóttir, þáverandi leikhússtjóri, sem skrifaði undir fyrsta samning hennar. 

Hanna María Karlsdóttir hefur verið einn af burðarstólpum í leiklistarlífi þjóðarinnar í áraraðir, enda einn af okkar afkastamestu og hæfileikaríkustu leikurum. Ferill hennar teygir sig mörg ár aftur í tímann, alveg aftur til æskuáranna í Keflavík, þar sem fyrstu skrefin í leiklist voru tekin í byrjun sjöunda áratugarins. Hún útskrifaðist frá Leiklistarskóla Íslands árið 1978 og fékk strax fastráðningu sem leikkona hjá Leikfélagi Reykjavíkur, sem þá var til húsa í Iðnó, og var það engin önnur en Vigdís Finnbogadóttir, þáverandi leikhússtjóri, sem skrifaði undir fyrsta samning hennar. 

Hanna María lét mjög til sín taka á sviðinu og lék í ríflega 100 sýningum hjá leikfélaginu næstu 37 árin og vakti ávallt mikla athygli fyrir leik sinn. Það kom henni því algjörlega að óvörum þegar nýráðinn leikhússtjóri, Kristín Eysteinsdóttir, sagði upp samningi hennar eftir aðeins fimm daga við stjórnvölinn árið 2014. Hanna María segir þetta eitt mesta áfall lífs síns og viðurkennir að árin á eftir hafi reynst henni afar erfið. 

Margt og misjafnt hefur á daga hennar drifið og fékkst hún góðfúslega til að deila viðburðarríkri sögu sinni með lesendum mbl.is.

„Það var fínt að vera krakki í Keflavík“

Eins og með allar góðar sögur þá er best að byrja á byrjuninni. 

„Já, hvað get ég sagt?

Ég er fædd í Keflavík, í hjónarúminu hjá mömmu og pabba, þann 19. nóvember 1948. Ég er yngsta barn foreldra minna, yngst og frekust,“ segir hún og glottir. Hanna María er dóttir Karls Guðjónssonar, rafvirkjameistara og útvarpsvirkja, og Dagrúnar Friðfinnsdóttur, saumakonu og klæðskera. 

„Ég átti bara yndislega barnæsku, það var fínt að vera krakki í Keflavík. Ég bjó alveg niður við Slippinn og hafði því nóg pláss til að leika.“

Hanna María ásamt systkinum sínum.
Hanna María ásamt systkinum sínum. Ljósmynd/Aðsend

Varstu aktífur krakki?

„Já, heldur betur. Ég var algjör Lína langsokkur, rauðhærð, freknótt, uppátækjasöm og sagði aldrei „má ég“, það var alltaf „ég má“.

Hanna María segir að hún hafi smitast af leiklistarbakteríunni snemma. 

„Ég var byrjuð að leika og syngja fyrir gesti og gangandi þegar ég var fjögurra ára gömul og vissi snemma hvert hugurinn stefndi. Ég steig mín fyrstu skref á leiksviðinu hjá Leikfélagi Keflavíkur aðeins 14 ára gömul og þá var ekki aftur snúið. 

„Ég var algjör hippi“

Hanna María fluttist til Reykjavíkur þegar hún var tvítug. 

„Ég sótti um starf í utanríkisráðuneytinu og var ráðin sem einkaritari Péturs Thorsteinssonar, þáverandi ráðuneytisstjóra. 

Hvernig kom það til?

„Kærasti minn á þeim tíma var nýfluttur til Bandaríkjanna með foreldrum sínum, íslenskri móður og bandarískum föður, þegar þau fréttu að ritarinn í íslenska sendiráðinu í Washington væri að hætta og þar með sótti ég um starfið, til að vera með honum. Ég var prófuð í þrjá mánuði í ráðuneytinu í Reykjavík áður en ég var send út.“

Hanna María var búsett í Virginíu í byrjun áttunda áratugarins, eða á árunum 1970 til 1974, og starfaði fyrir þrjá sendiherra í Washington á því tímabili. Hún segir tímann í höfuðborginni hafa einkennst af mótmælaöldu gegn stríði og leitinni að ást og friði.

„Hipparnir voru allsráðandi þar vestra,“ segir Hanna María. „Þetta var æðislegur, villtur og sögulegur tími í heimssögunni. Richard Nixon, þáverandi forseti Bandaríkjanna, neyddist til að segja af sér í kjölfar Watergate-hneykslisins og Víetnam-stríðið var í algleymingi. Þetta voru fín ár, þetta var hippatíminn. Ég var einkaritari á daginn og algjör hippi á kvöldin og um helgar. Ég fór í mótmælagöngur en mátti það sko alls ekki sem sendiráðsstarfsmaður,“ segir hún og hlær.

Hanna María naut áranna í Bandaríkjunum.
Hanna María naut áranna í Bandaríkjunum. mbl.is/Karítas

Hvað fékk þig til að halda heim?

„Sko, það stóð til að fara að færa mig eitthvað til í starfi, ég hefði getað verið send til Moskvu, Parísar eða guð veit hvert, en ég vissi innst inni að mig langaði ekki bara að vera starfsmaður í sendiráði. Ég átti mér draum, mig langaði að komast í leiklistarnám.

Ég sótti að vísu um í leiklistarskóla í Virginíu en svo þorði ég ekki þegar kom að inntökuprófinu, ég guggnaði, hætti við á síðustu stundu. Ég var hrædd, enda er fátt erfiðara en að elta stóra drauminn.“

„Hringdi í Helgu Hjörvar“

Eftir ævintýraleg ár í Bandaríkjunum flutti Hanna María aftur heim til Íslands og varð fljótt hluti af hópi íslenskra ungmenna sem öll höfðu brennandi áhuga á leiklist. 

„Stuttu eftir að ég kom heim þá hringdi ég í Helgu Hjörvar, sem síðar varð skólastjóri Leiklistarskólans, til að forvitnast um hvaða möguleikar væru í boði fyrir eina unga og áhugasama. 

Hún sagði mér að það væri fólk, allt áhugafólk um leiklist, að hittast á Fríkirkjuvegi 11 til að undirbúa stofnun leiklistarskóla. Ég sótti um inngöngu í Leiklistarskóla SÁL, sem er skammstöfun fyrir Samtök áhugafólks um leiklistarnám, og var þar veturinn 1974 til 1975, það var skemmtilegasti vetur lífs míns. Ég vann í utanríkisráðuneytinu á daginn og fór svo rakleitt í skólann og var þar til miðnættis, það var hreint út sagt geggjað.“

Bekkjarfélagar Hönnu Maríu voru ekki af verri endanum, en meðal samnemenda hennar voru þau Tinna Gunnlaugsdóttir, Andrés Sigurvinsson, Björn Karlsson, Þröstur Guðbjartsson og Sigfús Már Pétursson. „Því miður er stórt skarð höggvið í hópinn, fjögur eru látin, en við sem enn lifum hittumst oft og njótum samverunnar.“

Eins og áður var sagt þá hlaut Hanna María fastráðningu hjá Leikfélagi Reykjavíkur fljótlega eftir útskrift. 

„Það var dásamlegt að tilheyra atvinnuleikhúsi, ég fann fljótt að ég væri á réttri hillu. Fyrstu hlutverkin mín hjá LR voru í Kvartett eftir Pam Gems í leikstjórn Guðrúnar Ásmundsdóttur og í Kirsuberjagarðinum eftir Anton Tsjekhov, ég lék hina ungu og saklausu Dúnjöshu.

Ég hef leikið fjöldann allan af hlutverkum, um og yfir 100, og það er skemmtilegt að segja frá því að ég á hvert einasta handrit,“ segir hún. 

Hanna María viðurkennir að hafa þjáðst af sviðsskrekk í langan tíma. 

„Það var alls ekki auðvelt að stíga á svið fyrstu árin. Ég kastaði upp fyrir hverja einustu frumsýningu, það var sko ekki ánægjulegt. Ég losnaði samt aldrei alveg við kvíðann. Ég veit ekki hversu oft ég sagði við sjálfa mig: „Af hverju ertu að gera þetta, þér líður svo illa, hættu þessu“. En, hvað get ég sagt, það er erfitt að gefa ástríðuna upp á bátinn.“

Hanna María fann fyrir sviðsskrekk í langan tíma.
Hanna María fann fyrir sviðsskrekk í langan tíma. mbl.is/Karítas

Ógleymanlegt atvik í leikhúsinu?

„Úff, þau eru mörg, ekki öll jákvæð en þó flest. Ég var mjög heppin, ég fékk alls konar rullur, dramatískar, gamansamar og bara allt milli himins og jarðar. Það var yndislegt að fá að leika í sýningunni Öndvegiskonum ásamt þeim Margréti Helgu Jóhannsdóttur og Sigrúnu Eddu Björnsdóttur, það var eintóm unun. 

Ég gleymi líka aldrei frumsýningardeginum á verkinu Sumarið '37. Ég fór með þögult hlutverk 100 ára gamallar konu og sagði ekki orð alla sýninguna. Frumsýningin var daginn sem mamma dó. Ég var hjá henni um morguninn þegar hún kvaddi og steig á svið um kvöldið. Ég fann fyrir mömmu á sviðinu, hún leiddi mig í gegnum sýninguna.“

„Ég var í sjö ár að jafna mig“

Hanna María var ein þriggja fastráðinna leikara við Borgarleikhúsið sem var sagt upp þegar Kristín Eysteinsdóttir tók við starfi leikhússtjóra árið 2014. 

„Hún var búin að vera fimm daga sem leikhússtjóri þegar hún sagði mér upp. Þetta er eitt mesta áfall í lífi mínu. Ég var í sjö ár að jafna mig, ég fékk taugaáfall á staðnum og bara fraus. 

Ég man þennan dag eins og hann hafi gerst í gær. Ég var boðuð á fund og hélt bara að það væri verið að bjóða mér hlutverk fyrir komandi vetur, en svo var ekki. Mér var sagt upp, ég gapti. Á dauða mínum átti ég von en alls ekki þessu. Þetta er versti dagur lífs míns.“

Geturðu lýst þessum degi?

„Mig langaði til þess að garga alveg ofboðslega hátt, en ég gerði það ekki. Ég hafði tekið með mér ávaxtakörfu til að færa Kristínu, nýjum leikhússtjóra Borgarleikhússins, og þegar hún var búin að segja mér þetta þá fór ég ofan í pokann, ég gleymi þessu aldrei, náði í ávaxtakörfuna, setti fyrir framan hana og óskaði henni til hamingju og velfarnaðar í starfi. Ég dauðsé eftir því, ég hefði átt að borða þessa ávexti sjálf.“

Árin eftir uppsögnina voru Hönnu Maríu afar erfið.
Árin eftir uppsögnina voru Hönnu Maríu afar erfið. mbl.is/Karítas

Hvernig voru þessir fyrstu dagar eftir uppsögnina?

„Ég man ekki þessa fyrstu daga, en ég man að þessi orðaskipti hömruðu í hausnum á mér allan liðlangan daginn um margra mánaða skeið.

Ég var mjög reið í langan tíma og fannst þetta óverðskuldað. Vegna mikillar ólgu í kjölfar uppsagnarinnar, stjórn Leikfélags Reykjavíkur vissi til að mynda ekkert um þetta, var ákvörðunin endurskoðuð, ekki dregin til baka, og ég fékk tímabundinn ráðningarsamning og laun til 67 ára aldurs, sem mér þykir virkilega vænt um.“

Hanna María steig ekki fæti inn í leikhúsið í langan tíma.

„Ég bara hreinlega gat það ekki, ég gat ekki stigið fæti inn í leikhúsið í mörg ár á eftir og átti mjög erfitt með að njóta sýninga úr áhorfendasalnum, ég hágrét eftir sýningar og hugsaði með mér: „Af hverju er ég ekki á sviðinu með vinum mínum?“ 

Það tók mig heil sjö ár að komast yfir þetta. Ég hélt að ferlinum mínum væri lokið, en svo var sem betur fer ekki. Ég hef fengið ótalmörg skemmtileg tækifæri síðustu ár og hef meðal annars leikið í Svörtum söndum, Húsó, talað inn teiknimyndir og auglýsingar og fer með hlutverk móður Vigdísar Finnbogadóttur í nýrri þáttaröð um líf þessarar merku konu. Síðast en ekki síst aðalhlutverkið í Heima er best eftir Tinnu Hrafnsdóttur sem sýnt var í Sjónvarpi Símans.“ 

Hvernig vannstu úr áfallinu?

„Ég leitaði mér hjálpar hjá geðlækni, enda uppfull af vondum hugsunum. Ég glímdi við þunglyndi í kjölfarið og upplifði mikla vanlíðan. Ég þekkti mig ekki í langan tíma. Þetta var mjög erfiður tími og ég var lengi að ná mér aftur á strik. Ég vildi að þetta hefði aldrei gerst.“

Hanna María var gerð að heiðursfélaga Leikfélags Reykjavíkur árið 2021. Hún lítur á viðurkenninguna sem plástur á sárið.

„Ég fór að gráta þegar ég fékk þær upplýsingar, óviss hvort ég ætti að þiggja þessa viðurkenningu, en ég gerði það og þykir mjög vænt um að vera heiðursfélagi LR.“

„Ég var inni í skápnum í 15 ár“

Hanna María kom út úr skápnum þegar hún fór að nálgast fertugsaldurinn. 

Hvernig leið þér að koma út úr skápnum?

„Ég var inni í skápnum í tæp 15 ár, það var algjört helvíti. Ég vissi að ég væri samkynhneigð en ég vildi ekki vera samkynhneigð. Ég bældi tilfinningarnar niður í langan tíma, ætlaði oft að kála mér.

Ég beið með að segja foreldrum mínum frá þessu en sagði mömmu þetta eftir að pabbi lést. Einn daginn þá settist ég við hlið hennar og sagði henni að ég væri samkynhneigð. Hún horfði bara á mig og sagði: „Þú ert barnið mitt, heldurðu virkilega að mér þyki eitthvað minna vænt um þig?“

Það var mikill léttir að segja henni frá þessu en svo fékk ég að heyra frá systur minni að mamma hefði grátið í viku.“

Hanna María er gift Sigurborgu Daðadóttur dýralækni. Þær kynntust árið 1991 þegar Leikfélag Reykjavíkur lánaði Hönnu Maríu til Leikfélags Akureyrar.

Hanna María ásamt eiginkonu sinni, Sigurborgu Daðadóttur, á brúðkaupsdaginn.
Hanna María ásamt eiginkonu sinni, Sigurborgu Daðadóttur, á brúðkaupsdaginn. Ljósmynd/Aðsend

„Ég fór til Akureyrar til að leika í sýningunni Stálblómi (e. Steel Magnolias) þar sem ég lék hlutverk Dolly Parton. Margir veltu því fyrir sér hvort ég þyrfti að fara í brjóstastækkun til að leika það,“ segir hún og hlær. 

Sigurborg, eða Bogga eins og hún er gjarnan kölluð, var þá búsett á Akureyri, nýskilin, og við bara kynntumst þar og erum búnar að vera saman síðan. Við giftum okkur árið 1997 í Árbæjarsafnskirkju og vorum fyrsta samkynhneigða parið til að ganga í hjónaband í kirkju á Íslandi. Við héldum 250 manna veislu á heimili okkar, sem þá var í Hafnarfirði, og það var heljarinnar stuð.“

Hver er lykillinn að hjónabandinu?

„Skaplyndið okkar fer ágætlega saman, við rífumst ekki. Ég kann ekki að rífast. Bogga er mikil hestakona og ég þurfti að læra að ríða út. Hún bauð mér í mína fyrstu hestaferð stuttu eftir að við kynntumst og það var hálfgerð háskaför yfir hálendið. Ég ætla ekki að lýsa þessum hörmungum, ég hélt að ég myndi deyja,“ segir Hanna María og hlær.

Hanna María og Sigurborg eru miklar ævintýrakonur og elska að ferðast og njóta náttúrunnar, bæði innanlands og utan. Fram undan er ævintýraferð með nokkrum vinkonum sem ég segi síðar frá,“ segir hún í lokin.

mbl.is