Brynleifur Siglaugsson, 54 ára, er húsasmíðameistari í eigin rekstri og búsettur í Hveragerði, ásamt tveimur sonum sínum. Hann hefur fundið draumastaðinn í Kenía og reisti þar 900 fermetra herragarð, þar sem hann er með annan fótinn.
Brynleifur Siglaugsson, 54 ára, er húsasmíðameistari í eigin rekstri og búsettur í Hveragerði, ásamt tveimur sonum sínum. Hann hefur fundið draumastaðinn í Kenía og reisti þar 900 fermetra herragarð, þar sem hann er með annan fótinn.
Brynleifur Siglaugsson, 54 ára, er húsasmíðameistari í eigin rekstri og búsettur í Hveragerði, ásamt tveimur sonum sínum. Hann hefur fundið draumastaðinn í Kenía og reisti þar 900 fermetra herragarð, þar sem hann er með annan fótinn.
Jólunum varði Brynleifur á Íslandi þetta árið, líkt og önnur hver jól, en í dag heldur hann til Kenía og ætlar að dvelja þar fram í maí.
Hvernig hófst ævintýrið í Kenía?
„Ég fór fyrst til Kenía ásamt góðum vinahjónum mínum haustið 2019. Þau eiga gamalt hús nálægt ströndinni,“ segir Brynleifur og kolféll hann fyrir landinu um leið. „Það er rosalega fallegt þarna, náttúran æðisleg og margt að sjá. Diani Beach í Kenía er náttúrulega við miðbaug svo hitastigið er alltaf í kringum þrjátíu gráður.“
Brynleifur lætur vel af Kenía-búum og segir heimamenn glaðsinna, kurteisa og hjálpsama. Hann hefur eignast þar marga góða vini m.a. í gegnum sjóstangveiði- og viskíklúbb sem hann er meðlimur í, enda mikill áhugamaður um viskí, að eigin sögn.
Herragarðurinn sem Brynleifur byggði sjálfur stendur við Diani-ströndina, sem hefur marg oft verið valin ein af topp fimm ströndum í Afríku. Herragarðurinn stendur í tíu húsa samstæðu, á afgirtu svæði, þar sem búa að hluta heimamenn og að hluta aðfluttir, Svíar, Belgar og Bretar.
Hvenær ákvaðstu að reisa þér hús þarna?
„Fyrir tíu árum ákvað ég að byggja mér hús erlendis. Ég á lóðir í Brasilíu og ætlaði mér upphaflega að byggja þar. Þegar ég kom til Kenía þá tók ég ákvörðun um að þar skyldi húsið standa.“ Brynleifur segir staðsetninguna betri m.a. vegna þess að allir tali ensku á svæðinu sem sé þægilegra upp á samskiptamátann. Í Kenía sé allt sem Brasilía hefur og meira til.
Spurður segist hann hafa klárað húsið í liðnum nóvember. Hann stefnir á að verja jólunum hérlendis en á flug út til Kenía í dag og ætlar að dvelja þar fram í maí. Þrátt fyrir langtímadvöl geti hann vel sinnt vinnu hérlendis enda stýri hann verkefnum á Íslandi í gegnum síma og tölvu með aðstoð sona sinna.
Hann hefur í nógu að snúast því verkefnin hafa einnig færst utan en nú vinnur hann með innlendum arkitektum við að kanna möguleikann á að reisa íbúðir í Kenía fyrir innfædda.
Herragarðurinn Villa Branca stendur í annarri götu frá Diani-ströndinni þar sem er hvítur sandur, kóralrif og skrautfiskar en Brynleifur lýsir staðnum sem algjörri paradís.
„Þetta er klikkað hús, algjör herragarður,“ segir Brynleifur. Húsið er byggt í spænskum stíl en hann segir að það hefði aldrei verið möguleiki fyrir hann að reisa slíka eign á Íslandi. „Ég er ekki milljarðamæringur svo það er ekki séns.“
Herragarðurinn telur alls 900 fermetra í fasteignum á lóðinni. Í húsinu eru fimm svítur, tvö eldhús, líkamsrækt og auðvitað vínkjallari. Innandyra er lýsingin tölvustýrð, það er loftkæling og innbyggt hljóðkerfi.
Þar eru tvær sundlaugar og nuddaðstaða. Við sundlaugina er sundlaugarbar og á lóðinni stendur gestahús sem rúmar tvo til fjóra.
Húsið stendur í bæ þar sem nokkuð er um ferðamenn, mikið um hótel og glæsihýsi, veitingahús, kaffihús og verslanir. Bærinn er í um klukkustundar fjarlægð með flugi frá höfuðborg Kenía, Naíróbí.
„Þetta er öruggur staður,“ og segir Brynleifur aldrei neitt hafa komið upp á.
Staðurinn er í mikilli uppbyggingu svo jafnt og þétt bætist í þjónustuna á svæðinu. „Svo er flottur golfvöllur þarna rétt hjá og einnig er hægt að fara í safarí.“
Spurður segist Brynleifur leigja húsið út til ferðamanna. Gestir geti ýmist leigt allt húsið eða einstaka herbergi. Leigan felur í sér fulla þjónustu en á staðnum eru kokkur, þerna og bryti, garðyrkjumaður og öryggisvörður. Innifalið er morgunmatur og kvöldverður, léttvín hússins, bjór og gos.
„Þú mætir á staðinn og hefur ekki áhyggjur af neinu.“
Sjálfur segist Brynleifur hafa farið um tuttugu sinnum til Kenía síðastliðin fjögur til fimm ár. Hann fer yfir vetrartímann og í hvert skipti reynir hann að verja þar nokkrum tíma en skýst heim ef þess þarf. „Það eru bara svo mikil lífsgæði í að geta drukkið kaffið sitt klukkan sjö á morgnana úti á verönd í 28 gráðum. Að vera í hlýju loftslagi og þurfa aldrei að skafa eða hafa áhyggjur af ófærð eða slíku.“
Spurður um afþreyingu á svæðinu segir hann að hægt sé að fara í safari-ferðir, ýmist með gistingu eða án hennar. Þá sé t.d. hægt að fljúga í loftbelg yfir Maasai Mara-þjóðgarðinn sem teygir sig milli Kenía og Tansaníu.
Maturinn er mjög góður, sérstaklega á svæðinu við Diani-ströndina, því þar sé mikið um ferskan fisk. Brynleifur segir túnfiskinn sérlega góðan og humarinn einnig. Annars sé fæðuúrvalið fjölbreytt og borða Kenía-búar mikið af kjúklingi, nautakjöti, baunum og svokölluðu ugali sem er einhvers konar maísstappa. Þá sé þónokkuð um veitingastaði sem reknir eru af Evrópubúum, en Brynleifur hefur enn ekki fundið kebab-stað og segir mega ráða bót á því.
Einn af kostum staðarins er hve lítið er um pöddur og „kvikindi“ sem „böggast“ í fólki. En Brynleifur segist meira bitinn af lúsmýinu í Hveragerði heldur en af moskítóflugum í Kenía.
„Að koma þarna er eins og að vera á Íslandi fyrir fimmtíu árum. Takturinn er allt annar. Fólk er svo laust við stress og alltaf tilbúið að hjálpa án þess að sníkja pening. Fólk sem kemur þarna kemur alltaf aftur og aftur.“