Hvað skulu gæludýraeigendur forðast yfir áramót

Áramót | 30. desember 2024

Hvað skulu gæludýraeigendur forðast yfir áramót

Áramót og flugeldar geta reynst fjórfætlingum erfið.

Hvað skulu gæludýraeigendur forðast yfir áramót

Áramót | 30. desember 2024

Áramótin og meðfylgjandi flugeldar geta reynst fjórfætlingum erfiðar aðstæður.
Áramótin og meðfylgjandi flugeldar geta reynst fjórfætlingum erfiðar aðstæður. Ljósmynd/Colourbox

Áramót og flugeldar geta reynst fjórfætlingum erfið.

Áramót og flugeldar geta reynst fjórfætlingum erfið.

Hávaðahræðsla er til að mynda þekkt hjá hundum og köttum og þá sérstaklega hræðsla við flugelda. Sumir eru hræddir við hljóðin og drunurnar en ljósin geta líka vakið hræðslu. Þetta segir í tilkynningu til dýraeigenda frá Dýraspítalanum í Garðabæ.

Eðlilegt sé að dýri bregði eða það verði hrætt við lætin en jafni sig uns hávaðanum lýkur. Sum dýr eigi þó erfiðara með að jafna sig og geti þurft aðstoð í kringum áramót.

Mikilvægast sé þá að skilja dýrið ekki eitt eftir á þessum tíma.

Þá sé einnig mikilvægt að minnka allt áreiti á dýrið og draga úr hávaða eftir bestu getu, finna dýrinu skjól og nota jafnvel lyf til að minnka hræðslu og kvíða og láta það finna til öryggis.

Lyfjanotkun

Í tilkynningunni segir að lyf geti slegið á mesta ótta dýrsins við ástandið en verkun geti verið mismunandi eftir hverju þeirra.

Slík lyf séu lyfseðilsskyld og nauðsynlegt sé að fá þau fyrir hvert dýr fyrir sig og fylgja leiðbeiningum dýralæknis.

Þá sé ekki skynsamlegt að gefa dýrum lyf sem fólk á sjálft heima þar sem skammtar og verkun þeirra hæfa ekki dýrum.

Þá er tekið fram að eðlilegt sé að hræddir kettir borði lítið eða jafnvel ekkert á hræðslutíma.

Fjölskyldumeðlimir haldi rónni

Tekið er fram að í undirbúningi fyrir kvöldið sé gott að nota tækifærið þegar ró er í nágrenninu til að viðra dýrin vel áður en lætin hefjast.

Þá sé skynsamlegt að halda dýrunum inni þegar mestu lætin eru, annars geti þau rokið í burtu í hræðslukasti og týnst.

Jafnvel óhræddum dýrum sé gott að halda inni. Óhræddir kettir geti farið að elta flugeldana og óhöpp eða slys geti orðið til þess að áður óhræddur hundur sé markaður af ótta fyrir lífstíð.

Þá skuli ekki skamma hund fyrir smáslys sem geta orðið sökum hræðslu.

Mikilvægt sé fyrir fjölskyldumeðlimi að gera sem minnst úr látunum, halda sjálf ró sinni og leyfa hundinum að leita afsíðis eða öryggis hjá einhverjum.

Mælt er með því að sitja hjá þeim og veita þeim stuðning, það gerir maður helst með því að halda ró sinni sjálfur og vera sem eðlilegastur. Þá er gott að tala til dýranna í rólegum og lágum tón.

Í óvissuaðstæðum eiga dýrin það til að leita sér skjóls …
Í óvissuaðstæðum eiga dýrin það til að leita sér skjóls á öruggum stöðum. Ljósmynd/Kristinn Ingvarsson

Leitað í skjól

Í óvissuaðstæðum eiga dýrin það til að leita sér skjóls á öruggum stöðum.

Hundar leita gjarnan í skjól undir húsgögnum eða í búrinu sínu, gott er þá að breiða teppi yfir búrið til að stuðla að meiri öryggistilfinningu.

Þá eru kettir mjög sniðugir að finna sér góða felustaði. Gott er að veita þeim aðgang að búri sem breitt er yfir eða herbergi þar sem þeir geta ekki farið sér að voða. Hafa kveikt ljós og kveikt á útvarpi eða sjónvarpi.

Aldrei skal neyða hund úr fylgsni sínu, það eykur á óttann og um leið líkurnar á að hundurinn bíti frá sér í varnarskyni. Mikilvægt er að hundurinn fái að leita sér skjóls og ekki sé komið í veg fyrir það.

Þá skal varast að börn komist að hræddum dýrum.

Hundur í ofsahræðslu getur ekki brugðist öðruvísi við en reyna að verja sig ef reynt er að ná í hann úr skjóli sem hann hefur leitað í.

Þá er eðlilegt að dýr haldi sig til hlés í nokkra daga eftir lætin. 

Til að mynda getur hundur verið var um sig og einstaka hundur þorir þá ekki út að gera þarfir sínar. Það líður þó hjá á nokkrum dögum.

mbl.is