Líkur á norðurljósadýrð á gamlárskvöld

Veður | 30. desember 2024

Líkur á norðurljósadýrð á gamlárskvöld

Góðar líkur eru á norðurljósadýrð á gamlárskvöld, segir í nýlegri færslu Stjörnufræðivefsins á Facebook.

Líkur á norðurljósadýrð á gamlárskvöld

Veður | 30. desember 2024

Miklar líkur eru á norðurljósadýrð á gamlárskvöld.
Miklar líkur eru á norðurljósadýrð á gamlárskvöld. Morgunblaðið/Eggert

Góðar líkur eru á norðurljósadýrð á gamlárskvöld, segir í nýlegri færslu Stjörnufræðivefsins á Facebook.

Góðar líkur eru á norðurljósadýrð á gamlárskvöld, segir í nýlegri færslu Stjörnufræðivefsins á Facebook.

Sólvindur hafi að undanförnu verið hægur og því hafi virkni norðurljósa ekki verið mikil. Þetta sé þó líklega að breytast vegna þess að svokallað kórónugos stefni á jörðina á miklum hraða, um 600 km á sekúndu.

Það gefi til kynna miklar líkur á fallegum norðurljósum á gamlárskvöld. Þau verði líklega þau björtustu og litríkustu sem sést hafa síðan í október.

Norðurljós kvikna

Kórónugos einkennist af stórum skvettum rafhlaðinna agna sem geta myndast í kjölfar öflugra sólblossa.

Samkvæmt upplýsingum frá Stjörnufræðivefnum átti slíkur blossi sér stað í fyrradag og var hann nógu öflugur til að slöngva efni úr kórónu sólarinnar á miklum hraða í átt að jörðinni.

Í þessu rafagnaskýi er segulsvið sem annaðhvort snýr í norður eða suður.

Ef segulsviðið snýr í norður nær það ekki að tengjast segulsviði jarðar, sem gerir það að verkum að lítið sést á himni þrátt fyrir að hvasst sé í geimnum.

Ef segulsviðið snýr hins vegar í suður getur það tengst segulsviði jarðar og norðurljós kvikna.

Þrjár bjartar reikistjörnur

Talið er líklegt að svokallaður stormur hefjist aðfaranótt 31. desember, eða þegar taki að líða á daginn.

Hægt er að fylgjast með rauntímamælingum á geimveðri á vefsíðu Iceland at night, einkum Bz-gildinu, sem þarf að snúa í suður til að norðurljós kvikni.

Þá er áhugasömum einnig bent á að þrjár bjartar reikistjörnur prýði kvöldhimininn.

Nú skíni Venus mjög skært í suðvestri, Júpíter sé bjartur í austri og Mars sé áberandi í norðaustri. Satúrnus sé einnig á lofti en talsvert daufari.

mbl.is