Tilfinningaríkustu viðtöl ársins hreyfðu við fólki

Ársuppgjör 2024 | 31. desember 2024

Tilfinningaríkustu viðtöl ársins hreyfðu við fólki

Nú þegar árið er senn á enda er tilvalið að rifja upp nokkur viðtöl sem hreyfðu við landanum og vöktu mikil viðbrögð í samfélaginu.

Tilfinningaríkustu viðtöl ársins hreyfðu við fólki

Ársuppgjör 2024 | 31. desember 2024

Jakob S. Jónsson, Hulda Sif Gunnarsdóttir og Sunna Dóra Möller.
Jakob S. Jónsson, Hulda Sif Gunnarsdóttir og Sunna Dóra Möller. Samsett mynd

Nú þegar árið er senn á enda er tilvalið að rifja upp nokkur viðtöl sem hreyfðu við landanum og vöktu mikil viðbrögð í samfélaginu.

Nú þegar árið er senn á enda er tilvalið að rifja upp nokkur viðtöl sem hreyfðu við landanum og vöktu mikil viðbrögð í samfélaginu.

Jakob ræddi opinskátt og af miklu hugrekki um baráttu sína …
Jakob ræddi opinskátt og af miklu hugrekki um baráttu sína við Bakkus. Morgunblaðið/Eyþór

Barðist við Bakkus í hálfa öld

Jakob S. Jónsson var margslunginn maður sem átti sér mikla sögu. Hann tók fyrsta sopann af áfengi á táningsaldri og myndaði náið og nánast órjúfanlegt tilfinningasamband við Bakkus fljótlega eftir það. Brennivínsflaskan varð helsti fylgdarmaður hans og leiðarvísir í ríflega hálfa öld en fáir vissu af þessu vandamáli þar sem hann kaus að drekka á bak við luktar dyr einrúmsins.

„Í föðurfjölskyldu minni hafði oft verið ótæpilega drukkið. Það var ákveðin brennivínsmenning við lýði en flestir gátu haldið því innan skynsamlegra marka en aðrir ekki, eins og gengur og gerist. Ég varð fljótt einn af þeim sem gátu ómögulega haldið drykkjunni innan skynsamlegra marka.

Innan móðurfjölskyldunnar var þetta svipað, afi og amma voru bindindisfólk og börnin þeirra urðu ýmist bindindisfólk eða ekki. Ég var því með drykkjumenningu beggja vegna í fjölskyldunni, bæði föður- og móðurmegin,“ útskýrir Jakob. „Ég ólst upp við alkóhólisma og varð alkóhólisti, fyllibytta við fyrsta sopa.“

Jakob leitaði sér hjálpar undir lok síðasta árs og fór í innlögn á Vog.

„Ég fór þangað og hitti fjöldann allan af almennilegu fólki. Hið besta fólk sem átti við þennan sama vanda að stríða. Það gat ómögulega haft stjórn á áfengisneyslu sinni, ekki fremur en ég.

Á Vogi fékk ég að heyra um Vík sem er eftirmeðferðarstaður. Honum var lýst þannig fyrir mér, einkanlega af þeim sem voru með mér í meðferðinni, að þar væri unnið æðislegt starf. Veruleikafælni mín minnkaði við þetta en áður en ég fór inn á Vog hafði ég tekið þá ákvörðun að þangað væri ég mættur til að hætta að drekka. Ég var ekki á leið í meðferð til að læra að minnka við mig drykkjuna og reyna að stjórna því sem ég gat í raun ekki stjórnað heldur var ég að fara inn á Vog af því að ég ætlaði að hætta að drekka og það fyrir fullt og allt.“

Jakob tókst að verða edrú og var alsæll með að vera búinn að endurheimta líf sitt.

Jakob varð bráðkvaddur á heimili sínu í Reykjanesbæ 18. júlí síðastliðinn, aðeins fimm dögum eftir að viðtalið birtist á mbl.is.

Hulda Sif var flutt með hraði á sjúkrahús.
Hulda Sif var flutt með hraði á sjúkrahús.

Var nær dauða en lífi

Hulda Sif Gunnarsdóttir geislaði af gleði og hamingju síðla síðasta árs. Hún var þá nýbúin að komast að því að hún ætti von á öðru barni sínu og var farin að huga að komandi tímum þegar hún upplifði fósturmissi. Huldu Sif var tilkynnt af læknum að hún hefði fengið utanlegsfóstur sem endaði á að rífa upp sár á öðrum eggjaleiðaranum og endaði hún á gjörgæslu í kjölfar mikils blóðláts.

„Dagurinn fór vel af stað, markmiðið var að koma öllum af stað til vinnu og í leikskóla, og það gekk eftir. Ég fann ekki fyrir neinu en það átti eftir að breytast snögglega, eða um klukkan 11.30. Þá byrja ég að fá verk í kviðinn. Á stuttum tíma var verkurinn orðinn óbærilegur og eftir smástund er mér hætt að lítast á blikuna og hringi þá í Atla Frey úr vinnunni og bið hann að sækja mig,“ útskýrir Hulda Sif.

Hulda Sif og Atli Freyr héldu heim í þeirri von að þetta myndi lagast en eftir mjög stutt stopp heima stigmagnaðist verkurinn. „Atli hringir á sjúkrabíl sem kemur á aðeins örfáum mínútum og ég á sjúkraflutningsmönnunum allt að þakka. Þeir sáu að það þurfti að bregðast snöggt við og fluttu mig rakleiðis á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja.“

Stoppið var stutt í Keflavík. „Það var ákveðið að flytja mig beint til Reykjavíkur. Heilbrigðisstarfsfólkið sem tók á móti mér í Keflavík bjargaði án efa lífi mínu þegar það tók þá ákvörðun að senda mig til Reykjavíkur, en það var gert strax og nánast án þess að ég væri skoðuð. Þau bara vissu að þetta væri aðkallandi og á ég þeim líf mitt að launa.“

Reynslusaga Sunnu Dóru sýnir okkur að það geta allir átt …
Reynslusaga Sunnu Dóru sýnir okkur að það geta allir átt í innri baráttu, baráttu upp á líf og dauða, líka það fólk sem hefur margsinnis komið öðrum til hjálpar á neyðarstundu og þar eru prestar ekki undanskildir. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta kom algjörlega aftan að mér“

Litlu mátti muna að Sunna Dóra Möller prestur kveddi þetta líf fyrir fullt og allt í maí á síðasta ári. Í viðtali í Smartlandsblaðinu fyrr á árinu sagði Sunna Dóra frá því hvernig hún reyndi að svipta sig lífi en var bjargað.

„Á þessum tíma var þrautseigja mín vel tognuð og taugakerfið löngu búið með yfirdráttinn, ef svo má að orði komast. Þetta var á þriðjudegi og hann byrjaði vel. Það finnst mér vera það óhugnanlegasta í öllu þessu þegar ég hugsa til baka. Hvað gerðist eiginlega?

Ég bý í Vesturbænum og eftir vinnu keyrði ég út á Eiðistorg og keypti mér þar eina rauðvínsbelju, fer svo heim og byrja að drekka úr henni. Nokkrum klukkustundum seinna var ég búin að tæma úr pilluboxum sem höfðu að geyma svefnlyf, kvíðalyf og róandi lyf. Það var augljóst hvert stefndi, ég vildi ekki vera til.“

Í lyfjavímunni sendi Sunna Dóra símaskilaboð á börnin sín þrjú og sagðist elska þau. „Það er svo merkilegt að önnur dóttir mín og sonur minn hafa samband sín á milli eftir þetta og lásu eitthvað meira úr skilaboðunum en í þeim stóð. Auk þess var orðalagið í þeim ólíkt því sem ég er vön að senda á þau, það var sterkara og gaf sennilega til kynna að eitthvað meira byggi þarna á bak við. Ég var vön að senda á þau kærleikskveðjur en ekki með þessum orðum. Þetta varð mér til lífs. Börnin mín voru sammála um að eitthvað væri að hjá mér og dóttir mín, sem býr skammt frá mér, stökk því af stað og fann mig hálfrænulausa. Hún hringdi strax á Neyðarlínuna og sjúkrabíll var jafnharðan sendur á staðinn.“

Tinna Bergmann Jónsdóttir fatahönnuður.
Tinna Bergmann Jónsdóttir fatahönnuður. Morgunblaðið/Árni Sæberg

Kom heim með brotið hjarta og kynntist kærastanum

Tinna Bergmann Jónsdóttir fatahönnuður á sér langan feril í tískuheiminum. Eftir nám í Bretlandi stofnaði hún sitt eigið fatamerki og starfaði sem stílisti fyrir þekktustu tískuhús heims í London. Ástin dró hana heim til Íslands og telur hún framtíðina í hátísku vera í lítilli verslun sem hún opnaði nýverið í miðbæ Reykjavíkur. „Það var alveg ógeðslega, hallærislega fyndið. Ég kom heim með brotið hjarta eftir einn Breta. Kom heim í þrjá daga yfir jól aðeins með náttföt í tösku. Á þessum þremur dögum hitti ég Guðbrand, kærasta minn. Það var eiginlega bara þannig,“ segir Tinna. Hún flutti þó ekki strax heim, var með annan fótinn hér á landi en hinn úti í London og starfaði sem stílisti. Parið vildi vera saman og segir Tinna að hún hafi fljótt áttað sig á því að hún yrði að flytja heim.

„Hann er hæstaréttarlögmaður og erfiðara fyrir hann að flytja. En ég var með kvíðakast. Þessi heimur er ekki til hérna heima. Svo það var erfitt að flytja heim en ég gerði það hægt,“ segir Tinna. Það leið ekki á löngu þar til Tinna og Guðbrandur ákváðu að stofna saman fjölskyldu og fæddi Tinna tvö börn á undir tveimur árum. „Þegar ég eignaðist börnin þá fannst mér ég lenda. Þá var ég ótrúlega ánægð með að vera hér. Mér fannst London einblína annaðhvort á fjölskylduna eða ferilinn. Það sem skiptir mig mestu máli er öryggi barnanna minna og hér er öryggið mikið. Fjölskyldan kom mér niður á jörðina.“ Hún viðurkennir þó að hún eigi það til að hugsa til Bretlands með trega. „Þetta á að einfalda hlutina en flækir þá í rauninni. Ég get átt erfitt með að horfa á breska þætti. Svo verður maður lélegri á báðum tungumálum,“ hlær Tinna.

Bergur Guðnason fatahönnuður.
Bergur Guðnason fatahönnuður. Morgunblaðið/Karítas

„Svo fæ ég tölvupóst frá Louis Vuitton“

Bergur Guðnason fatahönnuður ólst meðal annars upp í Englandi þar sem faðir hans var atvinnumaður í fótbolta. Hann segist hafa upplifað utanaðkomandi pressu á að verða atvinnumaður sjálfur en varð að hætta vegna meiðsla aðeins nítján ára. Þá sótti hann um nám í fatahönnun hjá Listaháskóla Íslands, starfaði meðal annars hjá stórum tískuhúsum í París en er í dag hönnuður hjá 66°Norður. Hann segir íþróttina hafa hjálpað sér í tískuheiminum, samskipti hafi verið hans sterkasta hlið og hann eigi auðvelt með að koma sér áfram, taka upp símann og láta hlutina gerast.

„Ég byrjaði mjög lítill að pæla í hverju fólk var í, hvernig litirnir voru saman settir og forminu á fötunum. Ég byrjaði fjögurra ára í skóla í Englandi, í jakkafötum og með skjalatösku svo alveg frá því ég man eftir mér var ég að spá og spekúlera í þessu,“ segir Bergur. „Það ýtti undir að ég bjó í Englandi, pabbi var atvinnumaður og það var mikill glamúr í kringum það og maður sá ýmislegt fyndið.“

Bergur var 19 ára gamall þegar hann meiddist og neyddist samkvæmt læknisráði til að hætta í fótbolta. „Ég ákvað að kýla á það að fara í fatahönnun. Fyrst ætlaði ég að elta félaga mína í viðskiptafræði, aðallega af því að ég saknaði þessarar klefastemningar sem myndast í fótboltanum. Það er svo félagslegt. Ég hugsaði bara, æi, ég fer með strákunum í viðskiptafræði. En það breyttist og samhliða starfinu hjá JÖR bjó ég til möppu og ákvað að kýla á að sækja um í Listaháskóla Íslands og kemst svo þar inn.“

Arna Magnea Danks.
Arna Magnea Danks. Ljósmynd/Sunna Ben

Örlögin geta stundum verið grimm

Arna Magnea Danks fæddist árið 1970 í Reykjavík. Hún kom inn í þennan heim í líkama drengs en fann sig aldrei í því hlutverki enda komst hún fljótt að því að hún væri í hjarta sínu kvenkyns. Á fyrstu árum ævi Örnu Magneu var henni gjarnan strítt fyrir kvenlega hegðun og mátti hún þola ýmislegt vegna þess, meðal annars innan veggja heimilis síns.

„Ég ólst ekki upp á hamingjusömu heimili,“ segir Arna Magnea hikandi. „Pabbi var mikill ofbeldismaður, algjör stólpakjaftur, og mamma var þunglynd og ánetjaðist snemma ópíóíðum og svefntöflum. Barnæskan var flókin. Ég og systir mín, sem er einu ári yngri en ég, vorum sendar í fóstur til ættingja okkar í tíma og ótíma, við vorum eins og jójó. Þannig hélt það áfram, eða þangað til við vorum orðnar nógu gamlar til að byrja að vinna fyrir kallinn, við áttum ekkert val.“ Faðir Örnu Magneu var mjög orðljótur í hennar garð og sýndi lítinn skilning á þörfum hennar, bæði í æsku og á fullorðinsárum. Hann hikaði ekki við að beita börn sín ofbeldi, líkamlegu og andlegu. „Barnssálin er næm. Ég lærði því fljótt að taka ábyrgð á ofbeldinu. Það var mér að kenna að mamma var lasin og pabbi reiður. Ég gerði aldrei neitt rétt og átti bara skilið að verða lamin. Stór hluti af minningum æskuáranna er að ég var sífellt að reyna að þóknast öðrum, þá sérstaklega kallinum, og bæta fyrir það að hafa fæðst röng og vond. Hann kallaði mig frík, kellingu og píku og viðurkenndi fyrir mér mörgum árum seinna að hann hefði bara verið að reyna að berja úr mér hommann.“

Eftir mjög erfið ár á Íslandi flutti Arna Magnea til Bretlands í leit að nýju, breyttu og bættu lífi. Þar komst að sínu sanna sjálfi.

„Ég vissi alltaf að ég væri hinsegin en reyndi allt hvað ég gat til að bæla slíkar hugsanir niður. Það var ekki fyrr en um vorið 2003, nýútskrifuð sem sviðsbardagakennari, að ég rakst á „metró-blað“ eða svokallað samgöngutímarit. Ég settist niður og byrjaði að lesa hverja greinina á fætur annarri og tók svo eftir lítilli grein eftir trans konu frá Blackpool. Ég las greinina aftur og aftur og aftur og upplifði þetta aha-móment, það kviknaði á ljósaperu. Ég var 32 ára gömul og komst loksins að sannleikanum. Þetta var rosalegur léttir en í framhaldi hófst mikil og erfið barátta.“

mbl.is