Anton Bjarki Olsen er ungur fatahönnuður sem hefur verið að hanna í um tíu ár. Fyrir nokkrum árum ákvað hann að endurmarka fatamerkið og fór að velja gæðameiri efni. Í desember gaf hann út nýja línu sem hann segist mjög stoltur af.
Anton Bjarki Olsen er ungur fatahönnuður sem hefur verið að hanna í um tíu ár. Fyrir nokkrum árum ákvað hann að endurmarka fatamerkið og fór að velja gæðameiri efni. Í desember gaf hann út nýja línu sem hann segist mjög stoltur af.
Anton Bjarki Olsen er ungur fatahönnuður sem hefur verið að hanna í um tíu ár. Fyrir nokkrum árum ákvað hann að endurmarka fatamerkið og fór að velja gæðameiri efni. Í desember gaf hann út nýja línu sem hann segist mjög stoltur af.
Vinnan við gerð línunnar gekk þó ekki áfallalaust fyrir sig en hann greindist með sjaldgæfa gerð krabbameins sem kallast Sarcoma í miðju hönnunarferli. Hann segir þessa lífsbreytandi reynslu hafa bætt enn meiri dýpt í vinnuna og ýtt honum til að fagna fegurðinni og seiglunni sem skapandi ferli felur í sér.
Anton var ungur þegar hann fór að hafa áhuga á fötum. Eftir grunnskóla skráði hann sig í fatahönnun í Fjölbrautarskólann í Breiðholti.
„Ég kláraði ekki námið því það hentaði mér illa. Það eru mörg ár síðan þetta var en á þessum tíma var námsáætlunin þannig að ég var að sauma kjóla og pils þar til ég útskrifaðist og fékk aldrei að sauma neitt á sjálfa mig,“ segir Anton.
„Sem gerði það að verkum að þegar ég kláraði verkefnin í skólanum fór ég heim og saumaði á sjálfan mig. Ég var komin langt á undan áætlun. Fólk var svo farið að biðja mig um að sauma föt á sig svo ég ákvað að hætta í skólanum því mér fannst ég ekki vera að fá mikið út úr náminu.“
Síðustu tíu ár hefur hann starfað sem fatahönnuður en Anton segir merkið sitt hafa verið öðruvísi þegar hann byrjaði fyrst. „Ég endurmarkaði merkið og gaf út fyrstu línuna árið 2023 sem fékk mjög góðar viðtökur. Þá var mér meðal annars boðið að taka þátt í Erlendur Fashion Week,“ segir Anton. Erlendur Fashion Week er viðburður sem fór fram á Hvalasafninu haustið 2024 og nokkrir hönnuðir sýndu tískulínur sínar.
„Ég var byrjaður á nýrri línu þegar þau hafa samband og ég samþykkti það og ákvað að halda áfram. Það tók mig alveg ellefu mánuði að klára línuna áður en ég gaf hana út en í miðju ferli þá greinist ég með krabbamein.“
Hvernig kemur það í ljós?
„Ég var búinn að vera með kúlu í lærinu í kringum tvö ár. Ég fór fyrst til heilsugæslunnar sem skoðaði það og sendi mig í sýnatöku. Þá var mér sagt að þetta væri góðkynja æxli og þá lægi ekki á að taka það nema það myndi valda mér óþægindum,“ segir Anton.
Æxlið hélt áfram að stækka og olli honum miklum óþægindum. „Ég bað um að fá að láta taka það og mér var sagt að það myndi gerast á næstunni. En það gerðist ekki,“ segir hann og flissar.
„Eftir um það bil hálft ár þá hef ég samband við lækninn og hann segir mér að það styttist í aðgerðina og að það sé verið að reyna að koma mér að. Þetta heldur áfram næstu sex mánuði en ég hef alltaf samband við lækninn einu sinni í mánuði til að spyrja frekar út í þetta. Einn daginn svarar ritarinn og segir mér að læknirinn sé að hætta og ég yrði sendur til annars læknis. Ég hafði ekki mikla trú á því satt að segja miðað við hvað hafði gengið á,“ segir Anton.
Hann fór aftur upp á heilsugæslu og hitti frábæran lækni að hans sögn. Sá læknir beindi honum áfram til sérfræðings. „Hann kom mér í aðgerð innan tveggja vikna og ég hef verið hjá honum síðan, algjörlega frábær. Hann sendi mig í aðgerð en viku eftir aðgerðina þá hringir hann og segir mér að sýnatakan sem ég hafði farið í hafi verið misgreind, æxlið væri illkynja og ég greinist með mjög sjaldgæfa gerð af krabbameini sem heitir Sarcoma. Það er í kringum einn á þriggja ára fresti sem greinist með þetta hér. En ég var sendur í fleiri aðgerðir, þrjátíu skipta geislameðferð og nú er ég að klára meðferð.“
Nýja línan er fyrir vor/sumar 2025, eins og tíðkast í tískuheiminum sem er ávallt nokkrum mánuðum á undan, og er afrakstur eins árs skapandi ferlis, þar sem hrifning af vönduðum efnum og hráefnum fléttast saman við mynstur og þætti sem minna á íslenskan uppruna. Hún er sterk blanda af fágun, rokkinspireruðum áhrifum og menningarlegri arfleifð, innblásin af íslenskum uppruna og persónulegri vegferð. Línan sameinar einstaka handverkslist og notkun á efnum eins og íslensku fiskileðri og lambaskinni. Hvert einasta verk segir sögu um fegurð, handverk og íslenska menningu. Anton er ánægður með útkomuna þrátt fyrir mikla vinnu við gerð hennar.
„Ég náði til dæmis ekki að klára allt fyrir sýninguna sem ég hefði viljað því ég var smá slæmur. Það var erfitt fyrir mig að sauma. Ég stóð stundum við saumavélina að reyna að gera þetta svo allt tafðist frekar mikið,“ segir hann.
„En ég náði flestu.“
Hann segir línuna dregna frá því sem hafði áhrif á hann í æsku og þeirra sem hann leit mikið upp til. „Ég er undir miklum rokkáhrifum frá afa mínum. Hann var aðalfyrirmyndin mín frá því ég var að alast upp,” segir hann.
„Fiskiroðið kom til dæmis frá því þegar ég var að skoða leðurflíkur frá merki sem ég lít mikið til og fór að hugsa að það vantaði eitthvað svipað íslenskt. Ég komst að því að það er geðveikt efni og ég elska að vinna með það.”
Hvernig er að vinna með fiskiroð, er það viðkvæmt efni?
„Það er það alls ekki, það er mjög sterkt. Þetta er mjög þunnt leður en þú myndir sennilega ekki ná að rífa það í tvennt þó að þú reyndir.“
Efni, áferð og mynstur er áberandi í línunni. „Mig langaði að byrja að vinna með miklu betra efni, gæðameira lúxusefni. Þetta kemur í raun frá því að ég er að reyna að vinna með eins frábær efni og ég get.“
Saumarðu allt sjálfur? „Já.“
Á þessu ári er hann með stóra drauma og fyrirætlanir. „Mig langar að opna mína eigin búð og er með stór plön fyrir næsta ár. Mögulega koma mér út frá Íslandi, hvort sem það væri að vera með aðstöðu hér og reyna að koma merkinu út eða opna í útlöndum. Ég væri þá líklegast spenntastur fyrir Berlín.“