Óásættanlegt að taka atvinnu af öðrum

Veiðigjöld | 8. janúar 2025

Óásættanlegt að taka atvinnu af öðrum

Árni Sverrisson, formaður Félags skipstjórnarmanna, og Pálmi Gauti Hjörleifsson varaformaður segja óeðlilegt að allur fiskiskipaflotinn þurfi að sæta kvótaskerðingum á meðan strandveiðisjómenn þurfi ekki að verða fyrir slíku og með því hafi atvinnu af félagsmönnum þeirra og annarra sem nú hafa heilsársstörf í sjávarútvegi. Jafnframt efast þeir um að strandveiðarnar skili þjóðarbúinu jafn miklu og aðrar veiðar.

Óásættanlegt að taka atvinnu af öðrum

Veiðigjöld | 8. janúar 2025

Árni Sverrisson formaður Félags skipstjórnarmanna og Pálmi Gauti Hjörleifsson varaformaður …
Árni Sverrisson formaður Félags skipstjórnarmanna og Pálmi Gauti Hjörleifsson varaformaður telja óeðlilegt að hafa störf af sjómönnum á skipum og bátum og færa strandveiðisjómönnum. Samsett mynd

Árni Sverrisson, formaður Félags skipstjórnarmanna, og Pálmi Gauti Hjörleifsson varaformaður segja óeðlilegt að allur fiskiskipaflotinn þurfi að sæta kvótaskerðingum á meðan strandveiðisjómenn þurfi ekki að verða fyrir slíku og með því hafi atvinnu af félagsmönnum þeirra og annarra sem nú hafa heilsársstörf í sjávarútvegi. Jafnframt efast þeir um að strandveiðarnar skili þjóðarbúinu jafn miklu og aðrar veiðar.

Árni Sverrisson, formaður Félags skipstjórnarmanna, og Pálmi Gauti Hjörleifsson varaformaður segja óeðlilegt að allur fiskiskipaflotinn þurfi að sæta kvótaskerðingum á meðan strandveiðisjómenn þurfi ekki að verða fyrir slíku og með því hafi atvinnu af félagsmönnum þeirra og annarra sem nú hafa heilsársstörf í sjávarútvegi. Jafnframt efast þeir um að strandveiðarnar skili þjóðarbúinu jafn miklu og aðrar veiðar.

„Félag skipstjórnarmanna getur aldrei annað en staðið gegn aukningu á kvóta eða fjölgun daga til strandveiða, strandveiðar verða að sitja við sama borð og aðrir, óásættanlegt er að taka meiri veiðiheimildir af öðrum og flytja til strandveiðisjómanna,“ segja þeir í yfirlýsingu send 200 mílum.

„Þegar það er samdráttur í þorski og öðrum tegundum þá verða allir að taka þátt í þeim niðurskurði, þannig hefur það ekki verið með strandveiðisjómenn, þeir hafa ekki orðið fyrir niðurskurði, þvert á móti hefur hlutfall til strandveiða af heildarpotti verið aukið. Hér þarf að sýna skynsemi og sanngirni og allir verða að sitja við sama borð, það gengur ekki að hafa dagakerfi óháð fjölda báta, óháð heildarafla sem veiða má á hverju fiskveiðiári. Það gengur ekki að taka veiðiheimildir (atvinnu) af félagsmönnum okkar og færa til annara sumarstarfsmanna,“ segir í yfirlýsingunni.

Sjómenn að störfum.
Sjómenn að störfum. mbl.is/Þorgeir

Ríflega 20 þúsund tonn

Í stefnuyfirlýsingu nýrrar ríkisstjórnar Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins var greint frá því að ríkisstjórnin myndi tryggja öllum strandveiðibátum 48 veiðidaga nú strax í sumar. Yfirlýsingunni hefur ýmist verið mætt með fögnuði og gagnrýni.

Árni og Pálmi Gauti telja að spurja þurfi hvað það raunverulega þýði að strandveiðibátum verði tryggðir 48 dagar.

„Hvað þýðir það á mannamáli? Jú væntanlega mun strandveiði flotinn stækka, í fyrra voru bátarnir 759, það er líklegt að þeir verði enn fleiri á næstu vertíð. Í smíðum eru nú bátar sem kosta allt að 40 til 60 milljónir, svo menn eru stórhuga. Í fyrra var heimilt að veiða í 48 daga, hámarksafli í pottinum var 10.000 tonn af þorski, en bætt var við 2.000 tonnum, heildarveiðin varð 12.665 tonn. Veiðar voru stöðvaðar eftir 34 veiðidaga þann 16. júlí, aflinn var nánast allur þorskur. Líklegt er að strandveiðiflotinn verði stærri nú í ár en í fyrra, þannig að ef hver bátur fær að veiða sama magn og áður í 48 daga, þá er líklegt að aflinn verði á bilinu 15 til 20.000 tonn af þorski, jafnvel meiri, þar sem líklegt er að bátarnir verði fleiri í ár en í fyrra.“

Strandveiðifiskurinn seldur óunninn

„Margoft hefur því verið haldið fram að afli strandveiðibáta skipti engu máli, að það sé ekki hægt að ofveiða fisk á handfæri, að afli strandveiðibáta skipti engu máli í heildar myndinni. Að hafnirnar verði fullar af lífi og allt blómstri svo mikið við þessar veiðar, mikil rómantík eins og margir segja,“ segja þeir og spurja hvað verði um strandveiðiafla.

„Samkvæmt upplýsingum frá hagstofu íslands þá eykst útflutningur á óunnum fiski frá Íslandi yfir strandveiði tímabilið, sem dæmi var útflutningur á heilum þorski 956 tonn í apríl 2024, en fyrsta mánuð strandveiða var útflutningurinn 1.632 tonn, í júní 1.223 tonn, í júlí 1.494 tonn, í ágúst 698 tonn, en strandveiðar voru stöðvaðar 16. Júlí 2024. Strandveiðiaflinn er ekki allur unninn í þessum höfnum út um allt land eins og margir kannski halda, honum er keyrt frá höfnunum á næsta fiskmarkað og í framhaldinu að hluta settur í gáma til vinnslu í öðru landi.“

Segjast þeir árni og Pálmi Gauti velta fyrir sér hvort stjórnvöld hafi skoðað skattspor strandveiða og lagt mat á hver afkoma ríkis og sveitarfélaga sé af veiðunum.

„Hver er afkoma strandveiði einkahlutafélaga? Hverjir stunda strandveiðar? Hver er tekjuskattur og útsvar strandveiðisjómanna? Hver er kostnaður samfélagsins af þessum veiðum? Hver er olíunotkun á veitt kg af fiski? Er offjárfesting í strandveiðum, vegna allt of margra atvinnutækja að sækja þennan fisk? Hvað viljum við að strandveiðibátar veiði hátt hlutfall af þorskaflanum? Hvenær er nóg nóg, 10, 20 eða 30 prósent? Viljum við snúa við úr þeirri hagræðingu sem orðið hefur í sjávarútvegi yfir í óhagræði? Hvaða atvinnuþróun viljum við? Eða viljum við að kvótinn skili samfélaginu sem mestum tekjum og ekki síður, öruggum störfum allt árið í kring?“

Tryggja föst vel launuð störf

Formaðurinn og varaformaðurinn benda á að 20 þúsund tonn er meiri þorskkvóti en Brim hf. og Síldarvinnslan hf. eru með samanlagt, en Brim er með um það bil 12 þúsund tonna þorskkvóta og Síldarvinnslan 4.500 tonn.

„Hjá þessum fyrirtækjum hefur fólk vinnu allt árið, eða þannig var það áður fyrr, en síðustu ár hafa næstum allar stærstu útgerðirnar þurft að stöðva fiskvinnslurnar vegna hráefnisskorts. Er það bara allt í lagi að minnka vinnu hjá öðrum til að færa til annara? Er í lagi að færa fiskvinnslu úr landi? Þessar strandveiðar eru ekkert annað en tilfærsla á atvinnu frá atvinnusjómönnum og fiskverkafólki til sumarsjómanna (strandveiðar eru eingungis fjóra mánuði á ári) og til starfsfólk í fiskvinnslum erlendis.“

Þá spurja þeir hvaða hlutverki sjávarútvegurinn eigi að gegna í íslensku samfélagi.

„Viljum við að hann skili sem mestum útflutningsverðmætum og gjaldeyristekjum? Viljum við hámarka nýtingu og verðmæti þess afla sem berst á land með auknum fjárfestingum í frekari tækni og framförum sem Íslenskur sjávarútvegur hefur borið uppi síðustu ár? Viljum við halda áfram að tryggja föst vel launuð störf allt árið um kring, eða viljum við fara til baka, með óhagræði, offjárfestingar og minni vinnslu afurða hér heima? Er það eftirsóknarverð þróun?“

mbl.is/Þorgeir Baldursson

Umræðan á villigötum

Efast þeir ekki að flestir séu sammála um að sjávarútvegurinn í dag sé vel rekin, en deilt sé um upphæðir auðlindagjalda þar sem margir vilja að greinin skili enn meiri arði til samfélagsins.

„Í löndunum í kringum okkur er sjávarútvegur víðast hvar ekki sjálfbær, hann er ríkisstyrktur. Stundum finnst manni umræðan um sjávarútveg á villigötum, að fólki finnist að sjávarútvegur eigi að vera illa rekinn, ekki megi heyrast að fyrirtækin skili hagnaði af veiðum og vinnslu sjávarafurða.“

„Umræða um sjávarútveg er því miður oft á villigötum, orðræðan hjá mörgum er þannig að sjávarútvegsfyrirtækin svindli, steli og arðræni þjóðina. Þannig er það auðvitað ekki, en erfitt er að koma réttum upplýsingum til þjóðarinnar vegna sérhagsmunahópa eins og strandveiðisjómanna sem margir nota hvert tækifæri til að koma fram með gífuryrði og rangfærslur, saka útgerðir um að stela af þjóðinni og fara illa með auðlindina,“ segja þeir.

Árni og Pálmi Gauti segja marga strandveiðisjómenn rakka niður sjómenn sem vinna hjá stærri útgerðum. „Segja þá ganga erinda útgerðarinnar eins og skósveinar, en á sama tíma skjóta þeir niður dróna fiskistofu sem samkvæmt lögum á að hafa eftirlit með veiðum á þjóarauðlind okkar. Það hefur gengið svo langt að formaður hagsmunafélags smábátasjómanna hefur stigið fram og réttlætt þennan gjörning. Hvað gengur mönnum til? Hafa menn eitthvað að fela? Hvernig er hægt að réttlæta lögbrot fyrir almenningi sem þetta og á sama tíma níða skóinn af öðrum og saka þá um slæma umgengn?“

Rétt er að geta þess að sá er skaut að dróna Fiskistofu var ekki á strandveiðum, en formaður Landssambands smábátaeigenda sagði samtali við Fiskifréttir að hann myndi sjálfur ekki hika við að skjóta á dróna stofnunarinnar.

Uppfært kl 14:02 – Árni og Pálmi Gauti létu orð falla sem mætti skilja þannig að strandveiðisjómenn hefðu skotið á dróna Fiskistofu. Atvikið átti sér stað í nóvember og var ekki um bát á strandveiðum að ræða enda engar strandveiðar á þeim árstíma, þó var um smábát að ræða.

mbl.is