Vildu yfirráð Íslands á Grænlandi

Vildu yfirráð Íslands á Grænlandi

Staða Grænlands er á ný komin í alþjóðlegt sviðsljós eftir að Donald Trump, sem tekur við embætti Bandaríkjaforseta síðar í þessum mánuði, lýsti því yfir á ný að nauðsynlegt væri að landið kæmist undir bandarísk yfirráð.

Vildu yfirráð Íslands á Grænlandi

Donald Trump verðandi Bandaríkjaforseti | 9. janúar 2025

Sleðahundar hvíla sig við Qeqertarsuaq.
Sleðahundar hvíla sig við Qeqertarsuaq. AFP

Staða Grænlands er á ný komin í alþjóðlegt sviðsljós eftir að Donald Trump, sem tekur við embætti Bandaríkjaforseta síðar í þessum mánuði, lýsti því yfir á ný að nauðsynlegt væri að landið kæmist undir bandarísk yfirráð.

Staða Grænlands er á ný komin í alþjóðlegt sviðsljós eftir að Donald Trump, sem tekur við embætti Bandaríkjaforseta síðar í þessum mánuði, lýsti því yfir á ný að nauðsynlegt væri að landið kæmist undir bandarísk yfirráð.

Múte B. Egede, formaður landsstjórnar Grænlands, hefur í kjölfarið sagt að Grænlendingar þurfi á næstu árum að taka mikilvæg skref í átt að sjálfstæði frá Danmörku.

Trump sýndi Grænlandi raunar einnig áhuga árið 2019 þegar hann var forseti og þá skrifaði Skúli Halldórsson aðstoðarfréttastjóri mbl.is ítarlega grein á vefinn þar sem hann rifjaði upp hugmyndir sem voru nokkuð áberandi á síðustu öld um að Ísland ætti að gera tilkall til Grænlands.

„Þrætulaust og óefað“

Í grein Skúla kom fram að rekja mætti þessar hugmyndir meðal annars til þess að Einar Benediktsson skáld og athafnamaður skrifaði grein undir yfirskriftinni Réttarstaða Grænlands í vikublaðið Ingólf, málgagn Landvarnarflokksins, í október árið 1914 þegar heimsstyrjöldin fyrri var nýhafin.

Skrifaði Einar að þeir viðburðir sem væru að gerast á meginlandinu og þær horfur sem þegar væru orðnar um afar víðtækar breytingar á stöðum þjóða og landa ættu einnig að vekja Íslendinga til athugunar um ytri málefni sín.

Ísland hafi „þrætulaust og óefað, frá því fyrsta, móðurlandsins rétt gagnvart landnámsríkinu vestra“, sem byggst hafi og búið undir sömu lögum og skipan og réð á Íslandi, þótt Grænland hafi byggst nokkru síðar. Síðan hafi þetta mikla, náttúruauðuga nýlenduríki Íslands verið féþúfa danskra kaupokrara og aldrei fengið að uppfylla möguleika sína frá því að byggð Íslendinga þar fór í eyði.

„Eftir því sem þjóð vorri vex fiskur um hrygg verður það tilfinnanlegra, að oss er bannað að stíga þar fæti á land, sem íslenzkir menn bjuggu í þjóðfélagsskap við heimalandið, og þetta er oss því sárara þegar oss rekur minni til þess með hverju samvizkuleysi og léttúð hinnar erlendu óstjórnar bróðurþjóð Íslendinga var vanrækt til bana þar vestra,“ skrifaði Einar.

Krafa Íslendinga til Grænlands

Einar Benediktsson hélt árið 1923 opinn fjölmennan fund um Grænlandsmálið í Bárubúð við Vonarstræti, einu helsta tónlistarhúsi Reykjavíkur á þeim árum.

Í bók Björns Th. Björnssonar, Seld norðurljós, er haft eftir dr. Alexander Jóhannessyni, sem var fundarstjóri, að fundurinn hafi samþykkt tillögu sem Einar hafði samið, þar sem hann bar fram kröfu Íslendinga til Grænlands.

„Tillagan var samþykkt með yfirgnæfandi meirihluta, og var mér falið sem fundarstjóra að afhenda ríkisstjórninni tillöguna, sem ég og gerði,“ er haft eftir Alexander í bókinni.

Grænlenskir áhorfendur á íþróttavelli í bænum Qeqertarsuaq á Diskóeyju, stærstu …
Grænlenskir áhorfendur á íþróttavelli í bænum Qeqertarsuaq á Diskóeyju, stærstu grænlensku eyjunni. AFP

Land Eiríks rauða

Grænlandsmálið komst aftur í hámæli árið 1931 þegar fimm norskir menn námu landsvæði á austurströnd Grænlands í nafni Noregskonungs og nefndu það Eirik Raudes Land – Land Eiríks rauða.

Skömmu síðar ákvað norska ríkisstjórnin að innlima svæðið í Noreg. Var sjóhernum enn fremur gert að verja þessa nýlendu samkvæmt fyrirskipun norska varnarmálaráðherrans, Vidkuns Quislings, sem síðar stýrði leppstjórn nasista í Noregi.

Hatrammar deilur urðu vegna landnámsins á milli nágrannaþjóðanna tveggja en Danir vísuðu til yfirlýsingar sinnar frá árinu 1921 um að gjörvallt Grænland og sjórinn umhverfis það tilheyrði Dönum. Samþykkti Alþingi á sama tíma að skora á ríkisstjórnina að gæta hagsmuna Íslands í þessari deilu.

Norðmenn yfirgáfu Grænland 5. apríl 1933, en þá hafði Alþjóðadómstóllinn í Haag dæmt landnám þeirra ólöglegt. Var m.a. vísað til þess að sérstaklega hefði verið tekið fram í Kílarsamningnum árið 1814 að Grænland, Ísland og Færeyjar gengju ekki með Noregi undan yfirráðum dönsku krúnunnar.

Þingsályktunartillaga um Grænland

Grænlandsmálið svonefnda lá að mestu í dvala hér á landi næstu árin þótt það kæmi nokkrum sinnum til umræðu.

Þannig lagði Pétur Ottesen þingmaður Sjálfstæðisflokksins sex sinnum fram þingsáþyktunartillögu á Alþingi um Grænland, þá fyrstu árið 1946, um að Alþingi skoraði á ríkisstjórnina að gera gangskör að því að viðurkenndur yrði réttur Íslendinga til atvinnurekstrar á Grænlandi og við strendur þess. Tillögunum var flestum vísað til utanríkismálanefndar þingsins.

Í greinargerð með þessari fyrstu tillögu Péturs segir m.a. að engan veginn megi slá því lengur á frest að Íslendingar krefjist réttar síns á Grænlandi, hinni fornu nýlendu vorri, og láti þar til skarar skríða. „Rétturinn er vor, hvort sem litið er á fornstöðu eða nýstöðu landsins í sambandi við ríkjandi réttarhugmyndir nútímans.“

Pétur vitnar í greinargerðinni einnig til skrifa Einars Benediktssonar og fræðimannsins Jóns Dúasonar, sem hafði varið drjúgum hluta af ævistarfi sínu til þess að viða að sér heimildum sem hann hafi notað sem efnivið í merkar bækur um þetta mál þar sem réttur Íslands til Grænlands sé studdur sterkum rökum.

Vísað til Grágásar

Jón Dúason, sem fæddist 1888, varði árið 1926 doktorsritgerð við Óslóarháskóla um réttarstöðu Grænlands. Fram kemur í grein Skúla Halldórssonar að helstu rökin sem Jón Dúason hafi alla tíð fært fyrir tilkalli Íslands til Grænlands hafi verið eftirfarandi:

Í Grágás, þeirri fornu lagaskrá sem rituð var á þjóðveldisöld, sé Grænland ekki skilgreint sem sérstakt þjóðfélag heldur sé það í „várum lögum“. Ekkert sé minnst á grænlenska menn, en þó sé minnst á enska, færeyska, sænska og norræna menn. Lög Íslands hefðu því verið í gildi á Grænlandi, Grænlendingar hefðu verið íslenskir þegnar og grænlenskir dómar gilt á Íslandi.

Gamli sáttmáli, þegar Íslendingar gengu Noregskonungi á hönd árið 1262, hefði gilt á milli konungs og alls íslenska réttarsamfélagsins og þannig sömuleiðis fyrir Grænland. Enginn konungur hefði nokkru sinni látið hylla sig á Grænlandi og hylling konungs á Íslandi verið talin nægileg.

Ísland hefði aldrei afsalað sér Grænlandi, heldur hefði það komið sem íslenskt land með Íslandi í sambandið við Noreg og síðar Danmörku. Þótt enginn fyrirvari hefði verið gerður um Grænland, við fullveldið árið 1918, væri Íslendingum enn fært að krefjast réttar síns.

Hjáseta Íslands

Árið 1953 gekk í gildi ný stjórnarskrá í Danmörku, þar sem kveðið var á um að Grænland væri ekki lengur nýlenda Dana heldur sérstakt amt innan konungsríkisins.

Í samræmi við þessa nýju stöðu Grænlands fóru Danir fram á það við Sameinuðu þjóðirnar að þær hættu að krefjast reglulegra skýrslna frá Dönum um hvernig yfirráðum þeirra á Grænlandi væri háttað.

Fram kemur í grein Skúla að ýmsir þingmenn hér á landi vildu mótmæla því að Dönum yrði heimilt að hætta skýrslugerðinni, til að opna leiðir fyrir kröfur Íslendinga um ítök og réttindi á Grænlandi. Að lokum lagði ríkisstjórnin til að fulltrúa Íslands hjá SÞ yrði fyrirskipað að sitja hjá við atkvæðagreiðslu um málið. Var tillagan samþykkt á þingi með þrjátíu atkvæðum gegn tuttugu.

Íslensk samtök, þar á meðal Farmanna- og fiskimannasambands Íslands og Alþýðusamband Íslands, gagnrýndu þessa niðurstöðu. Sama dag og atkvæði voru greidd á Alþingi um tillögu ríkisstjórnarinnar stóð yfir þing Alþýðusambands Íslands. Var þar samþykkt einróma ályktun þar sem innlimun Grænlands í danska ríkið var mótmælt þar sem Íslendingar ættu þar réttar og hagsmuna að gæta.

„Þingið skorar því á alla sanna Íslendinga að standa vel á verði og vernda þessi og önnur réttindi sín. Þá krefst þingið þess að fulltrúar íslands á þingi S.Þ. greiði atkvæði gegn innlimun Grænlands í Danmörku.“

Full yfirráð

Árið 1953 og 1954 lagði Pétur Ottesen enn á ný fram þingsályktunartillögur á Alþingi um Grænlandsmál og var þar kveðið fastar að orði en í þeim fyrri: „Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að bera nú þegar fram við ríkisstjórn Danmerkur kröfu um, að hún viðurkenni full yfirráð Íslendinga yfir Grænlandi. Fallist danska stjórnin ekki á þá kröfu, lýsi Alþingi yfir þeim vilja sinum, að leitað verði um málið úrskurðar alþjóðadómstólsins i Haag.“

Árið 1954 var samþykkt að vísa tillögunni til allsherjarnefndar þingsins. Nefndin segir í umsögn í kjölfarið að telja verði vafasamt að henni hafi borið nokkur skylda til að fjalla um þetta mál, þó að því væri til hennar vísað gegn þingsköpum. Samt sem áður hafi hún tekið það til meðferðar og rætt það á þremur fundum, en að sjálfsögðu hafi hún átt óhægara um vik við athugun málsins en utanríkismálanefnd, sem hefði getað notið hvers konar sérfræðilegrar aðstoðar.

„Alþingi hefur oftar en einu sinni gert ályktanir um þetta mál og aldrei afturkallað þær. Standa þær því enn í fullu gildi. Nefndin sér því ekki, að ný þingsályktun um málið geti haft verulega þýðingu, heldur sé mest undir framkvæmdinni komið, þ.e. hvað ríkisstjórninni kann að verða ágengt í samningum við stjórn Danmerkur um réttindi Íslendinga á Grænlandi. Leggur nefndin því til, að till. þessari verði vísað til ríkisstjórnarinnar,“ segir í nefndarálitinu.

mbl.is