Mogens Mogensen forstöðumaður hlutabréfastýringar hjá Íslandssjóðum segir að árið 2025 lofi góðu fyrir innlendan hlutabréfamarkað enda eru væntingar um að verðbólgan haldi áfram að hjaðna og því geti vaxtalækkunarferlið haldið áfram á árinu enda eru raunstýrivextir enn háir og hagkerfið hafi hægt vel á sér. Þó sé ekki útilokað að það komi tímabundið bakslag í hjöðnun verðbólgunnar sem hægt getur á vaxtalækkunarferlinu.
Mogens Mogensen forstöðumaður hlutabréfastýringar hjá Íslandssjóðum segir að árið 2025 lofi góðu fyrir innlendan hlutabréfamarkað enda eru væntingar um að verðbólgan haldi áfram að hjaðna og því geti vaxtalækkunarferlið haldið áfram á árinu enda eru raunstýrivextir enn háir og hagkerfið hafi hægt vel á sér. Þó sé ekki útilokað að það komi tímabundið bakslag í hjöðnun verðbólgunnar sem hægt getur á vaxtalækkunarferlinu.
Mogens Mogensen forstöðumaður hlutabréfastýringar hjá Íslandssjóðum segir að árið 2025 lofi góðu fyrir innlendan hlutabréfamarkað enda eru væntingar um að verðbólgan haldi áfram að hjaðna og því geti vaxtalækkunarferlið haldið áfram á árinu enda eru raunstýrivextir enn háir og hagkerfið hafi hægt vel á sér. Þó sé ekki útilokað að það komi tímabundið bakslag í hjöðnun verðbólgunnar sem hægt getur á vaxtalækkunarferlinu.
„Það eru góðar fréttir fyrir hlutabréfamarkaðinn að búist sé við áframhaldandi vaxtalækkunum enda hafa lægri vextir jákvæð áhrif á fjármagnskostnað fyrirtækja og auka jafnframt virði þeirra þar sem verðmat á hlutabréfum ræðst af vaxtastigi á hverjum tíma. Þá eru einnig mjög góðar horfur varðandi flæði fjármuna inn á hlutabréfamarkaðinn á árinu enda eru hluthafar Marels nýbúnir að fá greiddar evrur að andvirði um 137 milljarða króna og má gera ráð fyrir að lífeyrissjóðir og aðrir innlendir fjárfestar, að fjárfestingafélaginu Eyri frátöldu, hafi fengið greidda í kringum 60 milljarða króna,“ segir Mogens og bætir við að ekki sé ljóst að hversu miklu leyti þessi fjármunir leiti aftur inn á hlutabréfamarkað en ljóst er að hluti þeirra mun gera það.
„Vægi innlendra hlutabréfa í eignasöfnum lífeyrissjóða mun til að mynda minnka við yfirtöku JBT á Marel enda fá þeir greiddan töluverðan hluta af fyrrgreindum 60 milljörðum auk þess sem eftirstandandi eignarhlutur þeirra í sameinuðu félagi JBT Marel verður hér eftir flokkaður sem erlend eign,“ segir Mogens.
Hann bætir við að einnig styttist í arðgreiðslur frá skráðum félögum og eru væntingar um að þær geti verið um 50 milljarðar króna.
„Auk arðgreiðslna er nokkur hluti félaganna í reglubundnum endurkaupum á eigin bréfum, sem skilar þá einnig fjármunum í vasa hlutahafa,“ segir Mogens.
Hann bendir jafnframt á að á undanförnum mánuðum hafi verið gríðarleg aukning í sparnaði heimilanna á óbundnum innlánsreikningum sem hafa verið að skila 8-9% vöxtum undanfarið ár.
Innstæður á slíkum reikningum voru í lok nóvember um 862 milljarðar króna og höfðu vaxið um 26% frá árslokum 2023, þar að auki eru heimilin með um 200 milljarða á veltureikningum.
„Þess má vænta að tilflutningur verði á sparnaði heimilanna yfir í áhættumeiri eignir eins og hlutabréf þegar vextir halda áfram að lækka enda er óverulegur hluti af sparnaði heimilanna nú í hlutabréfum eða hlutabréfasjóðum. Það hefur til dæmis verið töluvert útflæði úr hlutabréfasjóðum á undanförnum tveimur árum, í hávaxtaumhverfinu, en nú hefur sú þróun snúist yfir í innflæði í sjóðina. Það gæti þó vissulega breytt flæðismyndinni nokkuð ef tekin yrði ákvörðun af nýrri ríkisstjórn um að halda áfram með sölu á eftirstandandi 42,5% eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka. Markaðsvirði hlutarins er um 106 milljarðar króna og því myndi skipta töluverðu máli hvort slík sala yrði gerð í einu eða tvennu lagi enda um gríðarlegar fjárhæðir að ræða,“ segir Mogens.
Mogens segir að það verði margt spennandi að gerast hjá félögunum í Kauphöllinni á nýju ári. Áhugavert verði til að mynda að fylgjast með vaxtarfyrirtækjunum þremur, Alvotech, Oculis og Amaroq.
Alvotech verður komið með tvö lyf í sölu á Bandaríkjamarkaði og í Evrópu á árinu. Þar að auki komast þrjú lyf til viðbótar líklega í sölu síðar á árinu. Félagið byrjaði ekki að fá tekjur af vörusölu að neinu marki fyrr en á síðari hluta ársins 2024 og því verður fróðlegt að fylgjast með tekjuvexti félagsins á árinu 2025.
Oculis á von á áframhaldandi niðurstöðum úr lyfjarannsóknum á árinu vegna lyfja sem félagið er með í þróun við augnsjúkdómum og geta skilað gríðarlegum verðmætum takist vel til.
Amaroq náði svo nýverið þeim áfanga að byrja að vinna fyrsta gullið úr Nalunaq-námunni og á von á nýju auðlindamati á fyrsta ársfjórðungi sem staðfestir betur magn og gæði gulls í námunni. Þá eru þeir einnig farnir að bora í annarri námu sem heitir Nanoq og er 20 km frá hinni námunni, auk þess að vera með aðgang að töluverðu landsvæði til rannsókna á Grænlandi.
Mogens segir einnig að aðstæður í rekstri tryggingarfélaga verði mjög hagfelldar á næstunni þar sem hagkerfið er í hægagangi og þá fækki yfirleitt tjónum. Einnig megi búast við mjög góðum gangi í fjárfestingarstarfsemi félaganna þar sem vextir hafa verið háir og eru byrjaðir að lækka, sem mun hækka virðið á fjárfestingareignum félaganna.
„Bankarnir munu svo njóta góðs af því þegar hagkerfið fer að taka betur við sér í vaxtalækkunarferlinu, sem mun hafa jákvæð áhrif á þóknanatekjur á fjárfestingarbankahlið starfseminnar, það er að segja hjá verðbréfamiðlun, fyrirtækjaráðgjöf og eignastýringu. Arion banki mun njóta góðs af tryggingarstarfsemi Varðar og Kvika nýtur enn góðs af því að eiga TM en beðið er eftir niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins til að klára sölu TM til Landsbankans. Ef salan gengur í gegn, sem gæti mögulega orðið á fyrsta ársfjórðungi, hyggst Kvika greiða út um 20 milljarða króna til hluthafa sinna af um 30 milljarða króna söluandvirði. Arion banki er einnig með umtalsverð dulin verðmæti í Arnarlandi í Garðabæ og Blikastaðalandi í Mosfellsbæ, sem geta haft jákvæð áhrif á afkomuna á árinu, sem mun þó ráðast af framgangi þessara fasteignaþróunarverkefna,“ segir Mogens.
Hann bendir á að það hafi verið aðeins óljósari horfurnar hjá flugfélögunum og sjávarútvegsfélögunum. Hjá flugfélögunum ræðst afkoman að töluverðu leyti af þróun á eldsneytisverði sem hefur verið tiltölulega hagstætt undanfarið. Launakostnaður vegur einnig þungt í rekstri þeirra en á árinu renna út kjarasamningar hjá flugmönnum, flugfreyjum og flugvirkjum hjá Icelandair, sem fróðlegt verður að fylgjast með að sögn Mogens. Þá hefur einnig verið töluverð samkeppni á markaðnum yfir hafið (á milli Ameríku og Evrópu) með tilheyrandi pressu á fargjöldum.
„Þessi markaður hefur vegið nokkuð þungt í tekjum Icelandair og Play að undanförnu en nú hefur Play ákveðið að draga verulega úr vægi sínu á þessum markaði. Þar að auki hefur ekki verið jafn mikil fjölgun á ferðamönnum til Íslands og búist var við enda hafa jarðhræringar nálægt íbúðabyggð og samkeppnishæfni Íslands sem ferðamannastaðar líklega haft sitt að segja varðandi áhuga erlendra ferðamanna á að heimsækja landið,“ segir Mogens.
Sjávarútvegsfélögin glíma einnig við frekar óljósar horfur þar sem ekki hefur fundist nægjanleg loðna til að gefa út loðnukvóta en leitað verður þó áfram á komandi vikum. Þá hefur nýja ríkisstjórnin boðað auknar álögur á greinina með hækkun á veiðigjöldum auk þess að ætla að gefa leyfi til aukinna strandveiða. Töluverðar kostnaðarhækkanir hafa verið hjá greininni meðal annars á kolefnisgjöldum og orkukostnaði þar sem umhverfisvæn orka er af skornum skammti.
Greinin í heild sinni birtist í ViðskiptaMogganum sl. miðvikudag.