„Maður er að anda að sér eignum fólks“

Gróðureldar í Los Angeles | 11. janúar 2025

„Maður er að anda að sér eignum fólks“

Íslendingarnir Erla Dögg Ingjaldsdóttir og Tryggvi Þorvaldsson, sem búa ásamt dætrum sínum Carmen Ingu og Andreu Reyn í Santa Monica í Kaliforníu, segja fólk á svæðinu vera í áfalli vegna gróðureldanna en þau eru búsett skammt frá Palisades-hverfi í Los Angeles, þar sem stærstu eldarnir hafa logað.

„Maður er að anda að sér eignum fólks“

Gróðureldar í Los Angeles | 11. janúar 2025

Fjölskyldan er búsett í Santa Monica skammt frá gróðureldunum í …
Fjölskyldan er búsett í Santa Monica skammt frá gróðureldunum í Palisades. Samsett mynd/AFP/Aðsend

Íslendingarnir Erla Dögg Ingjaldsdóttir og Tryggvi Þorvaldsson, sem búa ásamt dætrum sínum Carmen Ingu og Andreu Reyn í Santa Monica í Kaliforníu, segja fólk á svæðinu vera í áfalli vegna gróðureldanna en þau eru búsett skammt frá Palisades-hverfi í Los Angeles, þar sem stærstu eldarnir hafa logað.

Íslendingarnir Erla Dögg Ingjaldsdóttir og Tryggvi Þorvaldsson, sem búa ásamt dætrum sínum Carmen Ingu og Andreu Reyn í Santa Monica í Kaliforníu, segja fólk á svæðinu vera í áfalli vegna gróðureldanna en þau eru búsett skammt frá Palisades-hverfi í Los Angeles, þar sem stærstu eldarnir hafa logað.

„Þetta er náttúrulega búið að vera hræðilegt, gjörsamlega, bara ömurlegt,“ segir Erla í samtali við mbl.is.

Virðast vera að ná einhverjum tökum á eldunum

Hún segir heilu íbúðahverfin vera farin vegna eldanna og að það sé skrýtið að sjá fjölskylduvini og vandamenn búna að missa húsin sín og aleiguna.

Nefnir hún þó að vindur á svæðinu hafi róast og að svo virðist sem slökkviliðsmenn séu að ná einhverjum tökum á þeim gróðureldum sem eru í Palisades-hverfinu.

Greint hefur verið frá að eldarnir í Palisades-hverfi nái yfir 80 ferkílómetra svæði, en yfirvöld vilja meina að tekist hafi að slökkva sex prósent þeirra.

Segir Erla að það gefi yfirleitt til kynna að gróðureldunum fari að ljúka.

Frá Palisades-hverfinu.
Frá Palisades-hverfinu. AFP/Apu Gomes

Eins og hálft Ísland væri á flótta

Hvernig er útsýnið þarna hjá ykkur?

„Bara eins og í styrjöld. Það er náttúrulega augljóst að það er búið að vera alveg hræðilegt andrúmsloft en það skiptir nú litlu máli í samhenginu. Maður er að anda að sér eignum fólks. Greyið fólkið sem missir allt og þetta eru heilu hverfin.“

Tryggi Þorvaldsson, eiginmaður Erlu, segir að talað sé um að um 7-8 þúsund hús hafi orðið gróðureldunum að bráð í Palisades-hverfinu, þar á meðal stórar íbúðabyggingar.

Þá séu alls um 200.000 manns á flótta í Los Angeles vegna gróðureldanna.

„Þetta er eins og hálft Ísland væri að flýja.“

Heilu hverfin hafa horfið.
Heilu hverfin hafa horfið. AFP/Apu Gomes

Búsett í Santa Monica síðan árið 1990

Aðspurð hvort það sé ekki kominn upp ótti hvað varðar búsetu á svæðinu og hvort hugmyndir um flutning hafi komið upp segja hjónin ekki svo vera og segir Tryggvi að þau hafi verið búsett í Santa Monica síðan árið 1990.

Nefnir Tryggvi að hann hafi verið úti árið 1993 þegar miklir gróðureldar loguðu í Malibu.

„Það var mjög stórt þá en ekki nálægt því eins og þetta er núna.“

Hann neitar því þó ekki að það sé sérstakt að búa við aðstæður eins og þessar.

Algjört fárviðri

Þegar mbl.is talaði við fjölskylduna á miðvikudaginn áttu þyrlur í erfiðleikum með að flytja vatn sem ætlað var slökkvistarfi vegna lélegs skyggnis sökum eldanna en segja þau ástandið hafa batnað síðan.

„Það var aðallega út af því að það var svo ofsalegt rok,“ segir Erla og nefnir að vindhraði hafi farið upp í um 160 kílómetra á klukkustund og hafi verið um algjört fárviðri að ræða.

„Þá geta engar þyrlur flogið. Þeir geta ekki stjórnað neinu. Núna eru þeir farnir að hafa betri stjórn á þessu.“

Mikil vinna er fram undan í Palisades-hverfinu.
Mikil vinna er fram undan í Palisades-hverfinu. AFP

Hjálp borist úr mörgum áttum

Segja hjónin að hjálp hafi líka borist víðs vegar frá til að ná tökum á eldunum og nefna að viðbragðsaðilar frá Kanada, Mexíkó og Arizona-ríki hafi veitt hjálparhönd á svæðinu.

„Það er rosa mikil samstaða. Það er mjög fallegt,“ segir Erla.

Mikil vinna fram undan

Tryggvi nefnir að þó að slökkvistarf sé nú komið í smá sókn, eftir að hafa náð smá tökum á eldunum, sé enn langt í land og að slökkvistarf muni halda áfram næstu daga.

Hann segir að venjulega þegar gróðureldar komi upp séu það nokkur hús sem skemmist en nú sé það öfugt - aðeins nokkur hús standandi eftir. En í þeim húsum sé jafnvel ekkert vatn eða rafmagn og því sé mikil vinna fram undan þegar kemur að uppbyggingu hverfanna.

„En þeir eru rosa fljótir. Þeir taka á þessu fljótt.“

mbl.is