Ljúffengt sjávarréttapasta á vel við um að njóta í góðum félagsskap. Þessi pastaréttur er einn af mínum uppáhalds og hægt er að leika sér með meðlætið eftir hvaða stemning er að hverju sinni.
Ljúffengt sjávarréttapasta á vel við um að njóta í góðum félagsskap. Þessi pastaréttur er einn af mínum uppáhalds og hægt er að leika sér með meðlætið eftir hvaða stemning er að hverju sinni.
Hér blanda ég saman sjávarréttatvennu, humri og risarækju með góðri útkomu. Í stað þess að setja hvítvín út í rjómasósuna set ég smá kampavín. Það passar undursamlega vel með sjávarfangi.
Til að gera matarupplifunina enn betri ber ég fram nýbakað japanskt mjólkurbrauð með, annaðhvort heimabakað eða keypt í handverksbakaríi, og ferskt salat með salatosti, bláberjum, blönduðum kokteiltómötum og ferskum sprettum.
Ferskt salat með salatosti, bláberjum, blönduðum kokteiltómötum og japanskt mjólkurbrauð á vel við með réttinum.
mbl.is/Sjöfn Þórðar
Sjávarréttapasta með risarækjum og humri
Fyrir 4-5
- 1 pk linguine eða tagliatelle pasta frá Olifa
- 500 g skelflettur humar (afþíða)
- 500 g skelflett risarækja (afþíða)
- 6 hvítlauksrif, söxuð eða tvo litla hvítlauka
- 4-6 sítrónubátar
- 3 stk. ferskt rautt chili, saxað
- 1 búnt fersk steinselja, gróft söxuð
- ¼ búnt fersk basilíka, saxa hluta og nýta nokkur heil blöð til að skreyta réttinn með.
- 1-2 tsk. þurrkuð basilika frá Olifa
- ½-1 l rjómi, magn fer eftir smekk hvers og eins
- Kampavín eftir smekk, má sleppa
- Hvítur pipar eftir smekk
- Chili-flögur eftir smekk
- Ólífuolíu til steikingar, velja góða ólífuolíu
- Örlítið smjör til að steikja sjávarfangið upp úr
- Parmesanostur og ferskar sprettur frá VAXA til að bragðbæta og skreyta í lokin.
Aðferð:
- Byrjið á því að hita ólífuolíu á meðalstórri pönnu.
- Þegar olían hefur hitnað, steikið þá hvítlauk, chili og ¼ af steinseljubúntinu þar til grænmetið verður mjúkt.
- Setjið sjávarfangið út á pönnuna og léttsteikið.
- Kryddið til með hvítum pipar og chili-flögum eftir smekk
- Takið sjávarfangið af pönnunni og setjið í skál til hliðar en skilið grænmetið eftir á pönnunni.
- Hellið rjómanum út á pönnuna og látið suðuna koma upp.
- Lækkið síðan hitann og látið sósuna malla í um það bil 10 mínútur. Hellið síðan smá kampavíni út ef vill. Virkilega gott að fá sósuna til að freyða aðeins, hafa hana froðukennda. Þá má sleppa kampavíninu.
- Kreistið einn sítrónubát út í rjómasósuna.
- Setjið vatn yfir pastað í pott og bíðið eftir að suða komi upp.
- Setjið pastað út í vatnið og sjóðið eftir leiðbeiningum á pakka.
- Hellið vatninu af og setjið pastað síðan á diska eða í skálar sem þið ætlið að framreiða réttinn á eða í.
- Mjög gott er að setja smá ólífuolíu yfir pastað.
- Bætið síðan sjávarfanginu út í rjómasósuna, en skilið eftir nokkrar rækjur til setja ofan á réttina í lokin, á meðan pasta sýður og látið malla í um það bil 2-3 mínútur.
- Síðan er sjávarréttarjómasósunni dreift yfir pastað á diskunum eða í skálunum með ausu eða skeið á fallegan hátt.
- Skreytt og bragðbætt með risarækjum, rifnum parmesanosti, ferskri steinselju, basilíku og sprettum eftir smekk.
- Mjög gott að bera fram með heitu japönsku mjólkurbrauði og vera með þeytt smjör með sjávarsalti, góðri ólífuolíu og oreganó til að dýfa brauðinu í og fersku salati að eigin vali.
- Njótið réttarins með freyðandi drykk við hönd.