Kaup á Grænlandi og Íslandi skoðuð 1867

Grænland | 12. janúar 2025

Kaup á Grænlandi og Íslandi skoðuð 1867

Rúm ein og hálf öld er liðin frá því að fyrst var viðruð sú hugmynd að Bandaríkin keyptu Grænland, og raunar einnig Ísland, af Dönum.

Kaup á Grænlandi og Íslandi skoðuð 1867

Grænland | 12. janúar 2025

Bandarískar flugvélar á herflugvellinum í Thule-herstöðinni á Grænlandi árið 2017. …
Bandarískar flugvélar á herflugvellinum í Thule-herstöðinni á Grænlandi árið 2017. Herstöðin nefnist nú Pituffik-geimherstöðin. Getty Images/AFP/Mario Tama

Rúm ein og hálf öld er liðin frá því að fyrst var viðruð sú hugmynd að Bandaríkin keyptu Grænland, og raunar einnig Ísland, af Dönum.

Rúm ein og hálf öld er liðin frá því að fyrst var viðruð sú hugmynd að Bandaríkin keyptu Grænland, og raunar einnig Ísland, af Dönum.

Árið 1867 samdi William H. Seward, þáverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna, við Rússa um að kaupa Alaska fyrir 7,2 milljónir dala. Seward hóf í kjöfarið viðræður við Dani um að kaupa af þeim Dönsku Vestur-Indíur, eyjar í Karíbahafi.

Robert J. Walker, sem áður hafði m.a. gegnt embætti fjármálaráðherra Bandaríkjanna, stakk þá upp á því við Seward að kaupa einnig Grænland og Ísland af Dönum. Seward tók vel í þessa hugmynd og bað Walker að skrifa skýrslu sem hægt væri grípa til ef með þyrfti. Nokkrum mánuðum síðar skilaði Walker skýrslu um auðlindir landanna þar sem einkum var bent á að málmar á Grænlandi og fiskimiðin við Ísland og Grænland gætu verið til hagsbóta fyrir Bandaríkin auk þess sem yfirráð yfir hafsvæðinu kynnu að nýtast við lagningu sæsímastrengs.

Í bandarískum blaðafréttum 1868 kom fram að verið væri að semja um kaupin og verðið sagt 5,5 milljónir dala. En þessar hugmyndir vöktu mismikla hrifningu og samkvæmt heimildum, sem Hannes H. Gissurarson hefur m.a. vitnað til í umfjöllun um málið, töluðu bandarískir þingmenn í hæðnistón um nauðsyn þess að kaupa verðmæta jökla Grænlands og goshveri Íslands. Bandaríkjaþing hafnaði síðan að staðfesta samning við Dani um kaup á Karíbahafseyjunum. En hálfri öld síðar, árið 1917, keyptu Bandaríkin loks eyjarnar af Dönum fyrir jafnvirði 25 milljóna dala í gulli til að styrkja stöðu bandaríska flotans í Karíbahafi í fyrri heimsstyrjöldinni. Eftir það hétu eyjarnar Bandarísku Jómfrúreyjar.

100 milljónir dala í gulli

Þegar Bandaríkin hófu þátttöku í síðari heimsstyrjöld árið 1941 fengu þau leyfi útlagastjórnar Dana til að reisa herstöðvar á Grænlandi og voru með mikil umsvif þar. Eftir styrjöldina vaknaði á ný áhugi Bandaríkjastjórnar á að kaupa Grænland, aðallega í hernaðarlegum tilgangi en litið var á Grænland sem þungamiðju í vörnum Norður-Ameríku í ljósi vaxandi ógnunar frá Sovétríkjunum.

Skjöl sem fjallað var um opinberlega árið 1991 benda til þess að málið hafi fyrst komið til umræðu í nóvember 1945. Í apríl árið eftir sat John Hickerson, embættismaður í bandaríska utanríkisráðuneytinu, fund skipulagsnefndar bandaríska herráðsins og í minnisblaði sem hann skrifaði um þann fund sagði hann að nánast allir fundarmenn hefðu verið þeirrar skoðunar að kaupa ætti Grænland af Dönum. Herráðið hafði áður komist að þeirri niðurstöðu að Grænland og Ísland væru tveir af þremur mikilvægustu stöðunum til að koma upp bandarískum herstöðvum.

Í opna skjöldu

Í kjölfarið lagði William C. Trimble, sem fór með mál Norður-Evrópu í utanríkisráðuneytinu, til að Bandaríkin byðu Dönum jafnvirði 100 milljóna dala í gulli fyrir eyjuna, enda hefðu Danir engan raunverulegan áhuga á Grænlandi. Samkvæmt skjölunum var einnig rætt um þann möguleika að Danir fengju hluta af Alaska við Point Barrow í skiptum fyrir þau svæði á Grænlandi sem Bandaríkin töldu vera hernaðarlega mikilvæg. Gert var ráð fyrir því í þessum hugmyndum að Danir fengju vinnslurétt á olíu sem kynni að finnast á þessu svæði í Alaska en yrðu að selja Bandaríkjunum olíuna.

Þegar Gustav Rasmussen, þáverandi utanríkisráðherra Dana, kom í heimsókn til Bandaríkjanna í desember 1946 ræddi hann við James Byrnes, starfsbróður sinn, um öryggismál á Grænlandi. Byrnes sagðist þá hafa sagt við Rasmussen að hugsanlega væri bein sala á Grænlandi til Bandaríkjanna besta lausnin.

„Þarfir okkar … virtust koma Rasmussen í opna skjöldu en hann hafnaði ekki tillögu minni alfarið og sagðist myndu skoða minnisblað sem ég afhenti honum,“ sagði Byrnes í símskeyti til bandaríska sendiráðsins í Kaupmannahöfn.

Í umfjöllun Morgunblaðsins árið 2017 um bók, sem kom út árið áður um pólitísk átök Bandaríkjanna og Dana um yfirráð á Grænlandi á dögum kalda stríðsins, segir hins vegar að tilgangur ferðar Rasmussens til Bandaríkjanna hafi verið að tjá bandarískum yfirvöldum að tími væri kominn á heraflann í Grænlandi; þeir skyldu nú yfirgefa landið. Útspil Bandaríkjamanna hafi hneykslað Dani og þeir hafnað kauptilboðinu tafarlaust.

Bandaríkin og Danmörk gerðu varnarsamning árið 1951 og í kjölfarið reistu Bandaríkjamenn Thule-herstöðina á norðvesturströnd Grænlands. Upphaflega var stöðin eldsneytisbirgðastöð fyrir sprengjuflugvélar en hún þróaðist í ratsjársjárstöð sem einkum var ætlað að greina árás langdrægra eldflauga á fyrstu stigum. Árið 2023 fékk stöðin nýtt nafn, Pituffik-geimherstöðin, og tengist svonefndum geimher Bandaríkjanna.

mbl.is