Ekki er búist við stóru jökulhlaupi úr Grímsvötnum sem kemur nú fram undan Skeiðarárjökli og rennur í Gígjukvísl en náttúruvársérfræðingar Veðurstofu Íslands eru þó aðeins meira á tánum en venjulega þar sem eldstöð Grímsvatna er tilbúin til að gjósa.
Ekki er búist við stóru jökulhlaupi úr Grímsvötnum sem kemur nú fram undan Skeiðarárjökli og rennur í Gígjukvísl en náttúruvársérfræðingar Veðurstofu Íslands eru þó aðeins meira á tánum en venjulega þar sem eldstöð Grímsvatna er tilbúin til að gjósa.
Ekki er búist við stóru jökulhlaupi úr Grímsvötnum sem kemur nú fram undan Skeiðarárjökli og rennur í Gígjukvísl en náttúruvársérfræðingar Veðurstofu Íslands eru þó aðeins meira á tánum en venjulega þar sem eldstöð Grímsvatna er tilbúin til að gjósa.
Þetta segir Jóhanna Malen Skúladóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands.
Hún segir GPS-tæki Jarðvísindastofnunar sem er á íshellunni á Grímsvötnum ekki hafa sent gögn til Veðurstofunnar núna sökum þess að það sé knúið á sólarorku og geti því orðið rafmagnslaust á þessum tíma árs.
Aðrir mælar á borð við skjálftamæla og vatnshæðarmæla hafa þó verið að nema hlaupóróa og vatnshækkun í Gígjukvísl.
Jóhanna segir að erfitt hafi verið að greina hlaupvatn í Gígjukvísl sökum úrkomu sem hefur verið á svæðinu undanfarna daga en að nú virðist vera sem að vatn sé farið að skila sér þangað.
„Við erum ekki að búast við stóru hlaupi. Það er ekki innistæða fyrir miklu hlaupi. Hlaupið fyrir ári síðan var mjög viðráðanlegt og þetta verður sennilega enn þá minna,“ segir náttúruvásérfræðingurinn og tekur fram að um „nokkuð hefðbundið hlaup“ sé að ræða enn sem komið er.
„En við fylgjumst bara áfram mjög vel með og auðvitað þá hefur það komið fyrir að við þennan þrýstilétti sem verður þegar vatnið fer úr Grímsvötnum að þá hafa komið eldgos ef að eldstöðin er tilbúin til að gjósa og hún er það svo sem þannig við erum svona aðeins aukalega á tánum út af því,“ segir Jóhanna og heldur áfram:
„En svona alla jafna þá gerist það nú ekki. Það gerðist síðast árið 2004 en síðan þá hafa orðið 13 jökulhlaup án þess að gos komi í kjölfarið. Síðasta gos var árið 2011 og það var ekki í kjölfar jökulhlaups. Þannig þetta er svona frekar undantekning á reglunni heldur en hitt, þannig við erum aðeins meira á tánum af því þetta hefur gerst en við gerum kannski ekki ráð fyrir gosi.“
Segir Jóhanna að á morgun muni svo vatnasérfræðingar frá Veðurstofunni fara á staðinn þar sem rafleiðni verður mæld í Gígjukvísl og mælar og aðstæður athugaðar.
Þá nefnir hún að brennisteinsmengun geti einnig fylgt jökulhlaupum eins og þessum.
„Það getur orðið vart gasmengunar við árfarveginn og aðallega við sporðinn á Skeiðarárjökli. Það verður eflaust mælt á morgun ef að veður leyfir.“