Formaður landsstjórnar Grænlands segir landið opið fyrir nánari tengslum við Bandaríkin á sviðum á borð við námugröft.
Formaður landsstjórnar Grænlands segir landið opið fyrir nánari tengslum við Bandaríkin á sviðum á borð við námugröft.
Formaður landsstjórnar Grænlands segir landið opið fyrir nánari tengslum við Bandaríkin á sviðum á borð við námugröft.
„Við þurfum að eiga viðskipti við Bandaríkin. Við höfum hafið viðræður og leitað tækifæra til samstarfs við Trump,“ sagði formaðurinn Múte Egede á blaðamannafundi á Grænlandi.
Samkvæmt umfjöllun Guardian kvaðst hann helst horfa til samstarfs á sviði námugraftar en gat þess þó ekki hvort honum hugnaðist að Trump næði þar yfirráðum á Grænlandi.
Grænland er, eins og flestum er kunnugt, danskt sjálfstjórnarsvæði en Donald Trump, fyrrverandi og tilvonandi Bandaríkjaforseti, hefur gert sér vonir um að festa kaup á landinu og kveðst ekki útiloka að beita hervaldi til að ná því á sitt vald.
Grænlendingar hafa lengi haft hug á sjálfstæði frá Danmörku. Egede lýsti því nýverið yfir að Grænlendingar þyrftu að taka skref í átt að sjálfstæði sínu.
Í opinberri heimsókn til Danmerkur í síðustu viku sagði Egede að Norðurskautssvæðið væri að ganga inn í nýtt tímabil á nýju ári þar sem Grænland væri í raun „nafli alheimsins“.
Hann sagði að Grænland héldi áfram samstarfi við Bandaríkin en lagði áherslu á að það yrði á þeirra eigin forsendum og að grænlenska þjóðin myndi ákveða eigin framtíð.
„Við viljum ekki vera Danir. Við viljum ekki vera Bandaríkjamenn. Auðvitað viljum við vera Grænlendingar,“ sagði hann.
Auk mikilvægrar staðsetningar Grænlands er þar mikið af ósnertum jarðefna- og olíuauðlindum, þrátt fyrir að olíu- og úranleit sé bönnuð, sem kunna að hafa hrifið Trump.
Vakti það athygli í síðustu viku að elsti sonur hans heimsótti landið í nokkra klukkutíma, en Donald Trump yngri hélt því fram að hann væri þar eingöngu í þeim tilgangi að ræða við heimamenn.
Tilvonandi varaforseti Trump, JD Vance, hafði orð á því í viðtali við Fox News um helgina að Bandaríkin væru nú þegar með hermenn á Grænlandi í herstöð á norðvesturhluta landsins.
Trump talaði fyrst um kaup á Grænlandi árið 2019, þegar fyrra kjörtímabil hans var að líða undir lokin.
Forsætisráðherra Danmerkur, Mette Frederikssen, tók alfarið fyrir möguleikann á slíkum kaupum þá sem nú og segir „Grænland tilheyra Grænlendingum“.
Bandamenn Trumps úr Repúblikanaflokknum í fulltrúadeild Bandaríkjaþingsins vinna nú að því að afla nægs stuðnings við drög að frumvarpi sem myndi heimila viðræður á slíkum kaupum.
Hafa ráðamenn víða í Evrópu brugðist við ummælunum og ýmist biðlað til fólks að taka þau ekki of alvarlega enn sem komið er, eða varað Trump við því að hóta ríki innan Evrópusambandsins.