Skjálfti nærri Kötlu minnir á stærð Bárðarbungu

Bárðarbunga | 14. janúar 2025

Skjálfti nærri Kötlu minnir á stærð Bárðarbungu

Jarðskjálfti reið yfir skammt norður af Mýrdalsjökli, innan Torfajökulsöskjunnar og nærri Hrafntinnuskeri, kl. 14.40 í dag.

Skjálfti nærri Kötlu minnir á stærð Bárðarbungu

Bárðarbunga | 14. janúar 2025

Skjálftinn varð norður af Kötlu, inni í Torfajökulsöskjunni.
Skjálftinn varð norður af Kötlu, inni í Torfajökulsöskjunni. Kort/map.is

Jarðskjálfti reið yfir skammt norður af Mýrdalsjökli, innan Torfajökulsöskjunnar og nærri Hrafntinnuskeri, kl. 14.40 í dag.

Jarðskjálfti reið yfir skammt norður af Mýrdalsjökli, innan Torfajökulsöskjunnar og nærri Hrafntinnuskeri, kl. 14.40 í dag.

Skjálftinn vekur athygli fyrir þær sakir að hann varð í raun á mörkum eldstöðvakerfis Bárðarbungu, þrátt fyrir mikla fjarlægð frá Vatnajökli.

Eldstöðvakerfið er enda eitt það stærsta á landinu, um 190 kílómetrar að lengd, og á sér meðal annars sögu um stór gos þar sem sprungusveimur þess liggur í suðvestur að Torfajökulsöskjunni.

Eldstöðvakerfið er víðfeðmt, hér merkt með svartri punktalínu. Hraun sem …
Eldstöðvakerfið er víðfeðmt, hér merkt með svartri punktalínu. Hraun sem runnið hafa úr kerfinu eru fjólublá að lit á kortinu. Kort/Íslenska eldfjallavefsjáin

Einkennist af löngum gossprungum

Um leið er kerfið sökum stærðar sinnar það eina til að eiga uppruna í bæði Norðurgosbeltinu og Austurgosbeltinu.

Nær það allt frá Dyngjufjöllum ytri, norðan Vatnajökuls, um Dyngjuháls, undir Vatnajökul norðvestanverðan og þaðan suðvestur um Veiðivötn og að Torfajökulssvæðinu.

Fjallað er um eldstöðvakerfið í bókinni Náttúruvá á Íslandi: Eldgos og náttúruvár, sem kom út árið 2013 eða áður en síðasta gos braust út í Holuhrauni árið 2014.

Segir þar að sprungureinin suðvestur úr Vatnajökli markist af gossprungum, misgengjum og gjám, í stefnunni norðaustur-suðvestur.

Reinin einkennist af löngum gossprungum, þeim lengstu allt að 65 kílómetra löngum, og stórum sigdölum á borð við Heljargjá þar sem samanlögð lóðrétt hreyfing nemur tugum metra.

Þrjú gos á sögulegum tíma

Í þessum hluta eldstöðvakerfisins, þar sem það teygir sig í suðvestur undan Vatnajökli, hafa orðið þrjú gos á sögulegum tíma. Fyrst um árið 870, svo um árið 1477 og loks á árunum 1862-1864.

Síðasta gosið hófst 30. júní 1862 á slitróttri gossprungu sem nær frá Köldukvíslarjökli og tæplega 20 kílómetra til suðvesturs að Gjáfjöllum, og varaði með hléum fram til ársins 1864.

Í því gosi rann Tröllahraun sem þekur um 28 kílómetra og magnið áætlað um 0,3 rúmkílómetrar, sem er svipað því sem komið hefur upp á Reykjanesskaga samtals undanfarin ár.

Torfajökulsaskjan liggur norður af Mýrdalsjökli.
Torfajökulsaskjan liggur norður af Mýrdalsjökli. mbl.is/RAX

Tætigos og tíu rúmkílómetrar af gjósku

Þar áður varð mun stærra gos, kennt við Veiðivötn og braust líklega út í febrúar 1477, á um 65 kílómetra langri gossprungu. Var það að mestu tætigos vegna hárrar grunnvatnsstöðu á suðvesturhluta gossprungunnar þar sem hún liggur um Veiðivatnadældina.

Megnið af kvikunni kom upp sem gjóska og var rúmmál hennar nýfallinnar yfir 10 rúmkílómetrar, sem samsvarar um 2,2 rúmkílómetrum af föstu bergi.

Um árið 870 varð svokallað Vatnaöldugos, á rúmlega 60 kílómetra langri gossprungu sem opnaðist í jaðri Veiðivatnadældarinnar. Var það að mestu tætigos eins og gosið árið 1477.

Þegar landnámslagið féll

Sprungan var ekki samfelld en teygðist frá gígum við Drekavatn um Vatnaöldur og Hnausapoll (Bláhyl), þvert í gegnum Torfajökulssvæðið um Hrafntinnuhraun og Laufahraun, suður í gíga umhverfis Skyggnisvatn.

Gosefnin voru að mestu basísk gjóska úr Vatnaöldugígunum, en alls óskyld súr og ljósari gjóska kom upp í Hrafntinnuhrauni. Gjóskulagið er því tvílitt og hefur verið kallað landnámslagið.

Nýfallin var hún um fimm rúmkílómetrar, sem samsvarar 1,1 rúmkílómetra af föstu bergi.

Stór svæði urðu að gróðurvana auðnum

Í síðastnefndu gosunum tveimur féll gjóska niður á meira en helming Íslands.

Áhrif þessa á hálendið voru mjög skaðleg og breyttu stórum svæðum í gróðurvana auðnir.

mbl.is