Bárðarbunga er stórt eldstöðvakerfi og gos geta orðið í megineldstöðinni eða á ýmsum stöðum á sprungusveiminum.
Bárðarbunga er stórt eldstöðvakerfi og gos geta orðið í megineldstöðinni eða á ýmsum stöðum á sprungusveiminum.
Bárðarbunga er stórt eldstöðvakerfi og gos geta orðið í megineldstöðinni eða á ýmsum stöðum á sprungusveiminum.
Gerð þeirra fer að einhverju leyti eftir því á hvaða hluta eldstöðvakerfisins virknin er.
Farið er yfir mögulega atburðarás eldgosa á íslensku eldfjallavefsjánni, sem haldið er úti af Veðurstofunni, Háskóla Íslands og almannavörnum.
Er hún rifjuð upp hér í ljósi kröftugrar skjálftahrinu sem hófst í Bárðarbungu í morgun, og þykir minna á aðdraganda gossins sem braust út í ágúst árið 2014.
Saga eldstöðvarinnar hefur að geyma mörg ólík gos sem orðið hafa ýmist undir jöklinum sjálfum, suðvestur af Bárðarbungu við Veiðivötn, eða norður af Bárðarbungu í Holuhrauni, svo dæmi séu nefnd.
Jökulhlaup sem fylgja þessum gosum eru sömuleiðis ekki fyrirsjáanleg og hafa runnið bæði til norður og suðurs.
Fyrr í morgun var farið yfir mögulegar afleiðingar eldgoss í Bárðarbungu.
Fyrstur er nefndur möguleikinn á litlu sprengigosi undir jöklinum, sem vari í daga eða vikur.
Líklegt þyki að síðasta eldgosið af þessari gerð hafi orðið árið 1910 og þar áður mögulega 1902. Viðvörunartími slíkra gosa er óþekktur.
Bent er á að hámarksvirkni í sprengigosum yrði ekki endilega á fyrstu stigum goss og að búast megi við því að virkni yrði slitrótt.
Ákaft gjóskufall gæti þá orðið í stuttan tíma, eða um klukkustund, utan Vatnajökuls. Ólíklega yrði þykkt gjósku meiri en 5 sentimetrar í 25-30 kílómetra fjarlægð frá upptökum og.
Hæð gosmakkar yrði að líkindum undir tíu kílómetrum og litlar líkur á að gjóska bærist til meginlands Evrópu.
Líklegt er að jökulhlaup komi undan norðvesturhluta Vatnajökuls á meðan gosinu stendur og er það mögulega undanfari sprengigoss á yfirborði.
Búist er við að jökulhlaup valdi auknu rennsli eða flóðum í einni af þremur ám, eða stundum í tveimur á sama tíma. Það eru Jökulsá á Fjöllum, eins og árið 1684; Þjórsá, eins og árið 1766, eða Skjálfandafljót og Jökulsá á Fjöllum, eins og árið 1902, en það fer eftir legu gosstöðva.
Hámarksrennsli gæti verið allt frá 3.000 til 10.000 rúmmetra á sekúndu, en til samanburðar er meðalrennsli Ölfusár við Selfoss um 400 rúmmetrar á sekúndu. Flóðin gætu borið með sér eitthvað af isjökum og aukið magn af seti, og gætu valdið skemmdum á vegum og brúm.
Næst er farið yfir atburðarás meðalstórs sprengigoss, sem byrjar undir jökli og getur varað í vikur eða mánuði, eins og gosið árið 1717 sem varði frá byrjun ágúst og fram í miðjan september.
Gjóskan úr því gosi dreifðist yfir Norður- og Norðausturland.
Lengd viðvörunartíma fyrir álíka gos er óþekkt.
Hæð gosmakkar er sömuleiðis óþekkt en gæti náð meira en 14 km. Slitrótt en umtalsvert gjóskufall yrði og búast mætti við myrkri á nálægum svæðum, eða í innan við 30 kílómetra fjarlægð. Á meginlandi Evrópu gæti orðið minniháttar gjóskufall.
Jökulhlaup gætu komið undan norðvesturhluta Vatnajökuls í kjölfar goss og valdið flóðum í Jökulsá á Fjöllum, eins og gerðist endurtekið á árunum 1717 til 1730.
Hlaup gætu líka orðið í Þjórsá, Köldukvísl eða Skjálfandafljóti en það fer eftir legu gosstöðva.
Hámarksrennsli gæti verið allt frá 10.000 til 100.000 rúmmetrar á sekúndu. Flóðin gætu borið með sér ísstykki og aukið magn sets og valdið skemmdum á vegum og brúm.
Flæðigos á sprungusveimi gætu einnig staðið yfir, slitrótt, í um eitt til tvö ár, eins og eldarnir í Tröllahrauni á árunum 1862 til 1864. Rúmmál hrauna úr þeim var milli 0,3-0,5 km3 á 16 km langri sprungu. Rúmmál gjósku yrði þá mjög lítið eða óverulegt og engin jökulhlaup yrðu.
Loks er nefndur möguleikinn á stóru gosi, en talið er að slík gos verði á meðaltali á 500 til þúsund ára fresti.
Bent er á að frá landnámi hafi stór gos einskorðast við sprungusveiminn utan Vatnajökuls, bæði suðvestan- og norðanmegin hans.
Stórt gos, aðallega flæðigos úr gossprungu, varir allt frá nokkrum mánuðum til nokkurra ára.
Eina sprungugosið sem er vel þekkt er gosið árin 2014 til 2015, sem átti sér stað á íslausum hluta sprungusveimsins norðan við Vatnajökul.
Tekið er fram að stórt sprungugos á suðvesturhluta sprungusveimsins gæti stíflað Tungnaá tímabundið og myndað óstöðug stöðuvötn. Rennsli í flóðum sem myndu brjótast í gegnum slíkar stíflur gæti verið allt að 10.000 rúmmetrar á sekúndu.
Viðvörunartími gosa á suðvesturhluta sprungusveimsins er óþekktur en væri líklega svipaður viðvörunartíma gosa á norðurhlutanum.
Magn basískrar gjósku úr sprengigosi á suðvesturhluta sprungusveimsins, svipað Veiðivatnagosinu árið 1477, gæti orðið meira en 5 rúmkílómetrar og gosefni gætu þakið meira en 50.000 ferkílómetra, eða meira en hálft Ísland.
Búast mætti við miklu gjóskufalli og myrkvun á nærliggjandi og miðlægum svæðum, eða í minna en 100 kílómetra fjarlægð. Gjóskufall gæti náð til meginlands Evrópu.
Loks er bent á að gos á íslausum hluta sprungusveimsins utan við Veiðivatnasvæðið verði einkum flæðigos. Hraun úr þeim gætu orðið 1-4 rúmkílómetrar og magn gjósku yrði töluvert.
Hraun úr slíku gosi gæti runnið tugi kílómetra frá upptökum og er þá minnst á svonefndan Frambruna frá 13. öld. Hraun gæti náð að virkjunum í Tungnaá.
Umtalsvert magn kvikugasa kæmi úr gossprungunni og hrauni sem væri að kólna.