Framleidd voru 54.789 tonn af eldisfiski á Íslandi á síðasta ári og er það meira magn en nokkru sinni fyrr. Um er að ræða 9,6% meira magn en framleitt var 2023. Munar mestu um lax en framleiðsla hans jókst um 5.730 tonn milli ára, en hlutfallslega varð mesta aukningin í senegalflúru og var hún 43% meiri 2024 en árið á undan.
Framleidd voru 54.789 tonn af eldisfiski á Íslandi á síðasta ári og er það meira magn en nokkru sinni fyrr. Um er að ræða 9,6% meira magn en framleitt var 2023. Munar mestu um lax en framleiðsla hans jókst um 5.730 tonn milli ára, en hlutfallslega varð mesta aukningin í senegalflúru og var hún 43% meiri 2024 en árið á undan.
Framleidd voru 54.789 tonn af eldisfiski á Íslandi á síðasta ári og er það meira magn en nokkru sinni fyrr. Um er að ræða 9,6% meira magn en framleitt var 2023. Munar mestu um lax en framleiðsla hans jókst um 5.730 tonn milli ára, en hlutfallslega varð mesta aukningin í senegalflúru og var hún 43% meiri 2024 en árið á undan.
„Það var fyrirséð að nokkur aukning yrði í laxeldinu á milli ára, en þó engin stór stökk,“ segir Gísli Jónsson, sérgreinadýralæknir fisksjúkdóma hjá Matvælastofnun. Hann minnir á að blóðþorri, svokölluð ISA-veira, hafi haft veruleg áhrif á framleiðslumagnið á Austfjörðum árið 2023.
„Töluverðu magni af laxi þurfti að farga í lok árs 2021 og fram eftir ári 2022 þegar bæði Reyðarfjörður og Berufjörður voru tæmdir af fiski til að hefta frekari útbreiðslu veirunnar. Eftir 9 mánaða stopp hjá Búlandstindi á Djúpavogi hófst slátrun aftur í byrjun október 2023 og létu Austfirðingar mikið til sín taka við slátrun allt árið 2024,“ segir hann.
Gísli segir umfangsmiklar skimanir hafa verið framkvæmdar allt frá því að veiran greindist fyrst og svæðið vaktað, en ekkert hafi sést til hennar frá því að firðirnir voru tæmdir.
„Á Vestfjörðum var hins vegar nokkuð jafn gangur í framleiðslu á sláturlaxi allt árið í fyrra. Þar þurfti aftur á móti að farga talsvert af undirmáls laxi í Tálknafirði haustið 2023 vegna ágangs laxalúsar og setti það strik í reikninginn við slátrun og vinnslu bæði hjá Arnarlaxi og Arctic Sea Farm á liðnu ári,“ segir Gísli.
Framleidd voru 27.932 tonn af laxi í sjókvíaeldi á Vestfjörðum á síðasta ári sem er rúmlega fimmtungi minna magn en framleitt var 2023, en það ár var sett framleiðslumet í landshlutanum.
Á Austfjörðum varð hins vegar rúm þreföldun í framleiðslunni milli ára og var slátrað 17.752 tonnum úr sjókvíum þar í fyrra. Er þetta mesta magn á Austfjörðum frá upphafi.
Þá var á síðasta ári einnig sett met í landeldinu og voru framleidd 3.569 tonn af laxi á síðasta ári með þeirri aðferð og er það 893 tonna aukning frá árinu 2023. Á tímabilinu 2019 til 2024 jókst framleiðsla laxeldis á landi um rúm 117%.
„Landeldið er hægt og sígandi að færast í aukana og á liðnu ári má segja að First Water í Þorlákshöfn hafi af alvöru stigið inn á sviðið og nartar orðið í hælana á Samherja sem hefur til þessa verið leiðandi í laxeldi á landi á liðnum áratugum,“ segir Gísli.
Framleiddi Samherji um 1.600 tonn af laxi með landeldi sínu en First Water 1.519 tonn. Gísli bendir á að framleiðsla geti aukist á þessu ári og nefnir að þegar líður á þetta ár má vænta að hefjist slátrun hjá Laxey í Vestmannaeyjum.
Verulegur samdráttur hefur orðið í bleikjueldinu milli áranna 2023 og 2024, fór framleiðslan úr 5.248 tonnum í 4.778 tonn.
Eldsumbrot og jarðhræringar á Reykjanesi skýra mikið af þessari þróun að sögn Gísla, en bæði Matorka og Samherji reka öflugar bleikjueldisstöðvar rétt vestan við Grindavík. „Auk þess hefur borið á að litlar bleikjustöðvar hafa átt erfitt uppdráttar og einhverjar munu eflaust hætta rekstri á næstunni.“
Hástökkvari ársins 2024 í hlutfallslegri framleiðsluaukningu var eins og áður sagði, senegalflúran. Nam framleiðslan 558 tonn á síðasta ári en 390 tonn árið 2023. Gísli gerir ráð fyrri að hún að óbreyttu haldi áfram að vaxa.
Um er að ræða mjög verðmætan matfisk og var nýverið greint frá því að útflutningsverðmæti senegalflúru jókst um 75% milli ára og var á síðasta ári um 1.400 milljónir króna.
Slátrað var 200 tonnum af regnbogasilungi 2024 sem er tæplega 76% minna magn en framleitt var 2023.
„Reikna má með að framleiðslan verði einnig nokkurn veginn á þessu róli árið 2025. Eini eldisaðilinn í dag er sameiginlegt félag Hábrúnar (með kvíar í Skutulsfirði) og ÍS-47 ( meðkvíar í Önundarfirði). Félagið hefur átt í brasi með að koma sér upp almennilegri klak- og seiðastöð og því hefur „nýliðun“ til áframeldis staðið á sér. Forráðamenn þessara fyrirtækja hafa hug á að skipta yfir í lax þegar fram líða stundir,“ segir Gísli.