Umræður um aukna skattlagningu á fasteignir útlendinga á Spáni eru ekki áhyggjuefni fyrir Íslendinga.
Umræður um aukna skattlagningu á fasteignir útlendinga á Spáni eru ekki áhyggjuefni fyrir Íslendinga.
Umræður um aukna skattlagningu á fasteignir útlendinga á Spáni eru ekki áhyggjuefni fyrir Íslendinga.
Þetta segir Auður Hansen, annar eigenda fasteignastofunnar Perla Investments, í samtali við mbl.is.
Aukin skattlagning er meðal hugmynda Pedro Sanchez, forsætisráðherra Spánar, til að bregðast við húsnæðisskorti landsins en hann lagði fram hugmyndir sínar í vikunni.
Húsnæðisskortinn á Spáni má að miklu leyti rekja til þess að húsnæði í landinu er í vaxandi mæli notað í ferðaþjónustu.
Umræddar hugmyndir fela í sér allt að 100% skatt á fasteignir fyrir erlenda kaupendur sem búsettir eru utan Evrópusambandsins og EFTA-ríkjanna, en Ísland er aðili að EFTA.
Þá vildi hann stofna ríkisrekið verktakafyrirtæki og banna skammtímaleigu í þéttbýlum, sem á þó ekki við um svokölluð túristasvæði, að sögn Auðar. „Við erum bara að tala um kannski miðbæ Madrid og aðra slíka staði.“
„Ástæðan fyrir því að hann kom með þessa yfirlýsingu var sú að stjórnarandstaðan lagði fram tillögu um lækkun skatta, minni skriffinnsku og aðgerðir sem miðast að því að einfalda skipulagsreglugerðir og byggingarkvaðir. Þetta er svar hans við því.“
Þá segir Auður mikilvægt að muna að ríkisstjórn Sanchez sé minnihlutastjórn, stjórnarandstaðan sé stærri og því ekki víst að hugmyndir hans gangi í gegn.
Auður segir hugmyndirnar ekki áhyggjuefni, um sé að ræða ákveðna skák milli stjórnmálamanna um hver hafi völdin.
„Þetta eru bara hugmyndir, svona pólitískur sirkus. Þetta er eins og við þekkjum á Íslandi að einhver segir eitt og einhver segir annað en það er ekki búið að leggja þetta fyrir neinsstaðar eða klára að vinna þessar hugmyndir.“
Umræðurnar hafa vakið mikla athygli og aðspurð segir Auður stofuna hafa fengið fjölda fyrirspurna um hvað þessar mögulegu nýju reglur kunni að þýða fyrir íslenska kaupendur. „Síminn bara stoppaði ekki hjá okkur.“
Þá segir hún starfsmann stofunnar hafa skrifað stutta umfjöllun fyrir áhugasama sem finna má á facebook og instagram síðum stofunnar.
Þar kemur meðal annars fram að samkvæmt EES-samningnum hafi Íslendingar sömu réttindi á Spáni og íbúar Evrópusambandsríkja og því eigi þessar mögulegu breytingar ekki við Íslendinga.