Öryggisráð Ísraels hefur lagt blessun sína yfir vopnahlé á Gasa og samþykkt samkomulag um hvenær gíslum verður sleppt úr haldi.
Öryggisráð Ísraels hefur lagt blessun sína yfir vopnahlé á Gasa og samþykkt samkomulag um hvenær gíslum verður sleppt úr haldi.
Öryggisráð Ísraels hefur lagt blessun sína yfir vopnahlé á Gasa og samþykkt samkomulag um hvenær gíslum verður sleppt úr haldi.
Frá þessu greindi skrifstofa ísraelska forsætisráðherrans í dag.
Þar segir að öryggisráðið hafi ákveðið að leggja til við ríkisstjórn Ísraels að vopnahlé verði samþykkt eftir að hafa farið yfir allar hliðar er snúa að öryggis- og mannúðarmálum sem og pólitíska stöðu málsins.
Ríkisstjórn landsins mun koma saman síðar í dag til að taka formlega ákvörðun.
Samkomulagið sem kynnt var í fyrrakvöld á að komast til framkvæmda í þremur áföngum. Samið hefur verið um að í fyrsta áfanganum, sem á að hefjast nú á sunnudaginn og standa yfir í sex vikur, muni Hamas-samtökin sleppa 33 af þeim gíslum sem samtökin tóku í hryðjuverkunum 7. október 2023, gegn því að Ísraelsmenn láti lausa um þúsund manns, sem nú dvelja í ísraelskum fangelsum.
Opinberlega eru enn 94 gíslar í haldi Hamas-samtakanna af þeim 251 sem þau rændu 7. október, en Ísraelsmenn hafa sagt að einungis um sextíu þeirra séu enn taldir á lífi. Konur, börn, aldraðir og veikir verða á meðal þeirra 33 sem sleppt verður, en talsmaður Ísraelsstjórnar sagði að flestir, en ekki allir, af gíslunum 33 væru taldir á lífi. Munu Hamas-samtökin sleppa þremur á sunnudaginn, en hinir þrjátíu fá lausn á næstu sex vikum.
Samhliða fangaskiptunum mun Ísraelsher draga sig frá öllum byggðum svæðum á Gasasvæðinu, á sama tíma og tryggt verður að íbúar svæðisins geti snúið aftur til síns heima. Þá verður neyðaraðstoð til svæðisins stóraukin, og er gert ráð fyrir að hundruð vörubíla fái að fara inn á svæðið á degi hverjum.
Viðræður um framkvæmd annars og þriðja áfanga samkomulagsins munu hefjast á 16. degi vopnahlésins. Joe Biden Bandaríkjaforseti sagði þegar hann kynnti samkomulagið að í öðrum áfanga yrði samið um varanlegan frið í átökum Ísraels og Hamas. Jafnframt yrði öllum þeim gíslum sem enn væru á lífi sleppt í skiptum fyrir fleiri palestínska fanga úr ísraelskum fangelsum.
Þá er einnig gert ráð fyrir að í öðrum áfanga myndi Ísraelsher draga sig algjörlega frá Gasasvæðinu, þar á meðal hinum svonefnda Filippí-gangi, sem liggur á milli Gasasvæðisins og Egyptalands.
Þriðji áfangi samkomulagsins mun svo fela í sér endurreisn Gasasvæðisins eftir átökin, en talið er að það gæti tekið nokkur ár. Þá yrði líkum þeirra gísla sem enn væru undir höndum Hamas-samtakanna skilað.