Fagnar brú sem hann áður gagnrýndi

Borgarlínan | 18. janúar 2025

Fagnar brú sem hann áður gagnrýndi

Eyjólfur Ármannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, segir það draum allra samgönguráðherra að taka fyrstu skóflustungu að samgöngumannvirkjum.

Fagnar brú sem hann áður gagnrýndi

Borgarlínan | 18. janúar 2025

Eyjólfur Ármannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. Fyrsta skóflustungan að Fossvogsbrú var …
Eyjólfur Ármannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. Fyrsta skóflustungan að Fossvogsbrú var tekin í dag. mbl.is/Karítas

Eyjólfur Ármannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, segir það draum allra samgönguráðherra að taka fyrstu skóflustungu að samgöngumannvirkjum.

Eyjólfur Ármannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, segir það draum allra samgönguráðherra að taka fyrstu skóflustungu að samgöngumannvirkjum.

Eyjólfur hefur áður verið gagnrýninn á Fossvogsbrúna en hann segir það mikilvægt að skipst sé á skoðunum í lýðræðislegri umræðu.

Framkvæmdir á Fossvogsbrú hófust formlega í hádeginu í dag og var Eyjólfur á meðal þeirra sem tóku fyrstu stunguskóflur að brúnni.

Gott að framkvæmdir séu hafnar

„Það er draumur allra samgönguráðherra að taka fyrstu skóflustungu að samgöngumannvirkjum,“ segir Eyjólfur í samtali við mbl.is og heldur áfram:

„Mér líst bara mjög vel á þetta. Það er mjög gott að framkvæmdir séu hafnar eftir langan undirbúningstíma. Vonandi munu framkvæmdir ganga hratt fyrir sig og við getum tekið þetta í notkun sem allra fyrst og séð árangurinn af undirbúningsvinnunni.“

Vonast til að Skerjafjarðarbrúin komi seinna

Eyjólfur hefur áður verið einn af gagnrýnendum brúarinnar en í Alþingisræðum frá því í september og október í fyrra sagði hann m.a. að brúin væri óþörf og setti spurningarmerki við af hverju ekki væri farið í að byggja brú eða jarðgöng yfir Skerjaförð.

„Ég spurði að því af hverju Skerjafjarðarbrúin væri ekki tekin. Það var bara svona innlegg inn í umræðuna frá mér til þess að fá upplýsingar og þetta var niðurstaðan.

Ég vona bara að hún komi seinna. Ég er ekki neinn umferðarsérfræðingur eða svoleiðis en þetta er niðurstaðan. Þetta er fyrst og fremst fyrir almenningssamgöngur og það er allt jákvætt við þetta.“

Mikilvægt að það sé skipst á skoðunum

Formaður Flokks fólksins, Inga Sæland, hefur gagnrýnt borgarlínuverkefnið og lýsti því í fyrra t.d. sem mikilmennskubrjálæði og veruleikafirringu. Ert þú sjálfur áfram um verkefnið?

„Þetta er sáttmáli. Höfuðborgarsáttmáli er samningur ríkisins við sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu og samningar skulu standa. Að sjálfsögðu mun ríkisvaldið standa við þann samning. Ég er hér sem samgönguráðherra að taka skóflustungu og það er hluti af því verkefni,“ segir ráðherrann og heldur áfram:

„Við höfum náttúrulega bara tekið þátt í lýðræðislegri umræðu um þetta verkefni sem er gríðarlega mikilvægt. Það er mikilvægt að þetta fari í gegnum þetta lýðræðislega ferli og að það sé skipst á skoðunum. Það er bara hluti af því.“

Gert er ráð fyrir að brúin verði tekin í notkun …
Gert er ráð fyrir að brúin verði tekin í notkun um mitt ár 2028. mbl.is/Karítas

Mikið hagsmunamál fyrir höfuðborgarbúa

Spurður hvort hann, sem samgönguráðherra, muni beita sér fyrir breytingum varðandi borgarlínuuppbygginguna segist Eyjólfur ekki hafa myndað sér skoðun á því. Hann segir þó að allt sé jákvætt við fyrstu lotu verkefnisins.

„Það er kveðið á í sáttmálanum að það verði stöðugt endurmat til að finna hagkvæmustu lausnina og ég efast ekki um að lýðræðisleg umræða muni halda áfram um þennan stóra sáttmála.“

Segir Eyjólfur alla höfuðborgarbúa finna á hverjum einasta degi þegar þeir keyri til vinnu hvað verkefnið sé mikið hagsmunamál fyrir höfuðborgina og landsmenn.

„Það mun stórkostlega auka verðmætasköpun ef við sitjum ekki föst í umferð í 40-50 mínútur á dag.“

Eyólfur í dag ásamt Einar Þorsteinssyni borgarstjóra og Ásdísi Kristjánsdóttur, …
Eyólfur í dag ásamt Einar Þorsteinssyni borgarstjóra og Ásdísi Kristjánsdóttur, bæjarstjóra Kópavogs. mbl.is/Karítas

Breyting á hönnun olli mikilli kostnaðarhækkun

Upphaflegur verðmiði brúarinnar hljóðaði upp á 2,25 milljarða en hann var svo kominn í 8,8 milljarða. Sigurður Ingi Jóhannsson, forveri þinn, sagði að hann hefði óskað eftir því innan samgönguráðuneytisins að útboð Reykjavíkurborgar á brúnni yrði skoðað - hefur eitthvað komið úr þeirri vinnu?

„Ekki svo ég viti til. En það var þannig að upphaflega miðaði hann við göngubrú og svo var brúin alltaf að breikka. Hún fór úr 7 metrum upp í einhverja 15 metra og því var líka breytt að þetta yrði hjólabrú og strætóbrú.“

Segir Eyjólfur að málið hafi verið tekið fyrir í fjárlaganefnd á sínum tíma þar sem fengnir voru fulltrúar frá Vegagerðinni og Betri samgöngum þar sem spurt var út í kostnaðarhækkunina. 

„Það er búið að uppfæra áætlunargerðina varðandi kostnað í þessu verkefni og það verður stöðugt endurmat. Og við verðum að fara að standa okkur betur í áætlunargerð hvað þetta varðar.“

Ekki myndað sér skoðun varðandi veggjöld

Eitt af því sem kemur fram í samgöngusáttmálanum er hvernig skuli fjármagna komandi framkvæmdir og er lagt upp með að hluti þeirrar fjármögnunar komi út frá veggjöldum.

Spurður hvort Eyjólfur sé áfram um að þau gjöld verði lögð á segist hann ekki hafa myndað sér skoðun á því enn.

Segir hann útfærsluatriði eins og hvar veggjöldin verða og hve há þau verða skipta gríðarlegu máli. Hann segir þó að sjálfsagt sé að skoða það að notendur ýmissa vega landsins borgi framkvæmdirnar að hluta.

„Við erum eiginlega að stíga fyrstu skrefin hvað þetta varðar miðað við aðrar þjóðir varðandi veggjöld. En ég hef ekki myndað mér skoðun. Það þarf að vita hvar þessi veggjöld eiga nákvæmlega að koma og hvernig það verður framkvæmt. Það á eftir að fara í mjög mikla rýni, bæði hjá sérfræðingum og líka í samfélagsumræðunni og þá tekur maður bara afstöðu til þess.“

Markmið að hefja framkvæmdir á Sundabraut á næsta ári

Þú hefur mikið talað fyrir Sundabraut og m.a. viljað hefja framkvæmdir á næsta ári. Sérðu fyrir þér að það sé raunhæft?

„Ég er ekki búinn að útiloka það en það er samkomulag innviðaráðherra og borgarstjórnar um að hefja framkvæmdir 2026. Málið kemur úr umhverfismati núna í apríl og þá þarf að taka ákvörðun um það, hvort að það verði farið í Sundabrú eða Sundagöng.

Svo er spurning bara um hönnunarferli og útboðsferli og þá er spurning hvort hægt sé að hefja framkvæmdir 2026. Það gæti dottið inn í 2027 en markmið mitt er klárlega að það yrði 2026.“

mbl.is