Óvenjuleg virkni sem getur leitt til eldgoss

Bárðarbunga | 20. janúar 2025

Óvenjuleg virkni sem getur leitt til eldgoss

Skjálftahrinan sem varð í Bárðarbungu á þriðjudag í síðustu viku telst óvenjuleg og hefur slík virkni aðeins sést tvisvar áður, í tilfellum sem bæði enduðu með eldgosi.

Óvenjuleg virkni sem getur leitt til eldgoss

Bárðarbunga | 20. janúar 2025

Virkni í Bárðarbungu hefur ekki verið mikil síðan á þriðjudag …
Virkni í Bárðarbungu hefur ekki verið mikil síðan á þriðjudag í síðustu viku. mbl.is/Rax

Skjálftahrinan sem varð í Bárðarbungu á þriðjudag í síðustu viku telst óvenjuleg og hefur slík virkni aðeins sést tvisvar áður, í tilfellum sem bæði enduðu með eldgosi.

Skjálftahrinan sem varð í Bárðarbungu á þriðjudag í síðustu viku telst óvenjuleg og hefur slík virkni aðeins sést tvisvar áður, í tilfellum sem bæði enduðu með eldgosi.

Þetta segir Bene­dikt Gunn­ar Ófeigs­son, fag­stjóri af­lög­un­ar­mæl­inga á Veður­stofu Íslands, í sam­tali við mbl.is.

„Þannig að við áttum alveg eins von á að eitthvað meira færi í gang þarna en það gerði það ekki. En þetta er klárlega að segja okkur að við þurfum að hafa nánari gætur á Bárðarbungu og getum búist við að hún geri eitthvað hvenær sem er,“ segir Benedikt.

Þá segir hann skjálftahrinuna, sem varði í þrjár klukkustundir, einangraða og lítið hafi gerst á svæðinu síðan.

Benedikt Gunnar Ófeigsson.
Benedikt Gunnar Ófeigsson. mbl.is/Eyþór

Fylgjast vel með

„Flest eldgos sem tengjast Bárðarbungu eru ekki í eldstöðinni sjálfri. Það eru ekki mörg gos sem koma upp þar, þó að ekki sé hægt að útiloka það. Í flestum tilfellum erum við að sjá kviku fara inn í sprungusveimana, til dæmis í Dyngjuhálsi eða í Holuhrauni árið 2014,“ segir Benedikt.

„En við höfum engin tól eða tæki til að sjá fyrir um hvernig þetta hagar sér endilega en við fylgjumst bara vel með.“

Þróun á jarðhitavirkni

Aðspurður segir Benedikt ólíklegt að virknin sjáist á yfirborði, frekar sé um að ræða merki um kviku á miklu dýpi.

Hann segir þrýstinginn líklega kominn að þeim mörkum að kvikan geti farið að brjóta jarðskorpuna og farið af stað. Hann segir þó líklegt að slíkt taki sinn tíma. Því eigi hann ekki von á að flug yfir svæðið komi til með að gefa nokkrar nánari upplýsingar.

Hann bendir þó á að, óháð núverandi ástandi, sé reglulega flogið yfir Bárðarbungu í þeim tilgangi að fylgjast með jarðhitavirkninni á svæðinu.

„Það er langtímaferli sem segir okkur yfirleitt ekki til um hvað er að gerast akkúrat núna heldur frekar til lengri tíma,“ segir Benedikt.

„Eftir gosið í Holuhrauni höfum við séð talsverða þróun á jarðhitavirkni. Það eru komnir nýir jarðhitakatlar sem hafa myndast inni í öskjunni þannig að það er eitthvað sem er fylgst með reglulega og eru regluleg yfirflug til að kortleggja það.“

mbl.is